Leið alsælunnar

    Tantra

    Öll trúarbrögð mannkyns fela í sér siðalögmál sem kveða á um hvernig fólk ber að haga lífi sínu. Afstaða trúarbragðanna til kynlífs er mismunandi. Gyðingdómur leggur sem dæmi áherslu á að kynlíf sé til þess eins að fjölga kynstofninum. Kynlíf utan hjónabands er álitin synd og brot á sáttmála Guðs. Í fimmtu Mósebók segir frá því að ef brúðgumi uppgötvar að brúðurin sé ekki hrein mey við giftingu skuli fara með hana að húsdyrum föður hennar og grýta hana í hel.

    Kristin kirkja hefur jafnan boðað fjandsamlega afstöðu til kynlífs. Páll postuli boðaði einlífi og fordæmdi kynlíf þó hann viðurkenndi að það væri ill nauðsyn. Hann segir í bréfi sínu til Korintumanna: "Samlagist Drottni svo þið verðið eitt hold með honum en flýið saurlifnaðinn. Það er gott fyrir mann að snerta eigi konu. Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég að vera eins og ég [þ.e. skírlífur]". Í stað unaðssemda kynlífsins lagði kirkjan áherslu á að meinlætalifnaður og kvalafýsn á eigin holdi væru dyggðir sannkristins manns og Guði þóknanlegt.

    Trúarlegt gildi kynlífsins

    Hindúatrú, búddhadómur og jafnvel múhameðstrú hafa mun jákvæðari afstöðu til kynlífsins heldur en hin gyðinglega-kristilega trúarhefð. Í Kóraninum er að vísu aðeins ein samfarastelling viðurkennd, þ.e. þegar konan liggur á maganum eða er á fjórum fótum og karlmaðurinn tekur hana aftan frá. Kama sútra, handbók hindúa í aðferðafræði kynlífsins, lýsir hins vegar fjölbreytilegum aðferðum til ástundunar kynlífs. Þar er m.a. lýst átján samfarastellingum, átta afbrigðum af munngælum, sjö aðferðum við kossa, átta tegundum af rispum og naglaförum og þremur tegundum hópkynlífs. Kama sútra kennir að kynlíf hafi trúarlegt gildi og að margbreytni á sviði kynferðislegrar reynslu sé eftirsóknarverð.

    Í búddhadómi nutu flestar kynferðislegar athafnir viðurkenningar. Búddha lagði ríka áherslu á kosti þess að feta hinn "gullna meðalveg" milli tvennra öfga, hóglífis og meinlætalifnaðar.

    Tantra og unaður holdsins

    Þótt kynlíf og aðrar unaðssemdir holdsins skipi veglegan sess meðal helstu trúarbragða Austurlanda er mikilvægi þess hvergi jafnmikið og hjá tantra. Tantra er ævafornt og uppruninn mistri hulinn. Orðið sjálft er úr sanskrít og merkir "það sem leysir úr ánauð". Tantra kennir að maðurinn sé í álögum. Hann samkennir sig við sitt lægra eðli í stað þess að opna hjarta sitt fyrir æðri eiginleikum sálarinnar, guðdómsneistanum sem í öllum býr. Tantra eru vísindin um þroskun og fullkomnun mannsins. Markmið tantra er að gera manninum kleift að varpa af sér álagahamnum og uppgötva sitt guðdómlega eðli. Lykilinn að slíkri vitundarbreytingu er að finna í sameiningu gagnstæðra þátta, einkum samtengingu karllegra (shiva) og kvenlegra (shakti) eiginleika.

    Vinstri-handar-tantra

    Tantra skiptist í tvær meginstefnur; hægri-handar-tantra og vinstri-handar-tantra. Í vinstri-handar-tantra eru kynmök, maithuna, álitin heilög athöfn er gerir einstaklingnum kleift að bergja á uppsprettu tilvistar sinnar. Vinstri-handar-tantra notar skynfærin og lystisemdir holdsins til þess að öðlast mystíska upplifun. Ætlunarverk maithuna er ekki kynferðisleg útrás eða fullnæging, öllu heldur að nýta kynorkuna, sem myndast í hvílubrögðunum, til að fara handan við egóið, hið persónubundna sjálf, og renna saman við alheimsvitundina. Í þeim tilgangi þróuðu iðkendur tantra aðferðir, nefndar oli, sem höfðu að markmiði að stuðla að uppbyggingu kynferðislegrar orku og langvarandi kynfullnægingar án þess að til sáðfalls kæmi.

    Guð er kona

    Flest trúarbrögð líta á Guð sem karlkyns. Í samræmi við þetta viðhorf var getnaðarlimurinn dýrkaður í fornum átrúnaði. Tantra leggur aftur á móti megináherslu á kvenlegt eðli guðdómsins. Gyðjan Shakti var tignuð sem æðsta mynd guðdómsins. Nafn hennar þýðir máttur og var hún talin birtingarform kvenlegrar alheimsorku sem iðkendur tantra vilja leysa úr læðingi með kynmökum. Tantra eru víðsýn trúarbrögð. Í trúarriti tantra segir svo: "Guð er einn en mennirnir nefna guð mörgum nöfnum." Á öðrum stað er lögð áhersla á mikilvægi kvenlegra eiginleika. Þar segir: "Konur eru gyðjur; konur eru lífið; konur eru prýði. Verið ævinlega meðal kvenna í hugsun."

    Einhyggja og sjálfsábyrgð

    Tantra grundvallast á einhyggju, í stað þess að líta á að "andinn eigi í stöðugu stríði við hið veraldlega hold", líkt og ert er í kristindómi, eru hugur og hold, efni og orka, hið huglæga og hlutlæga álitið tvær hliðar sama veruleika. Syndin skipar ekki stóran sess í hugmyndafræði tantra líkt og hjá kristninni. Helvíti eða eilíf útskúfun er ekki til í tantra. Mennirnir gjalda fyrir eigin misgjörðir í þessu lífi eða því næsta og lausnin undan oki þjáningarinnar er í þeirra eigin höndum. Maðurinn er það sem hann gerir. Hann er frjáls til að vera sinnar eigin gæfu smiður og ber ábyrgð á eigin lífi.

    Tantra hafnar skírlífi og sársauka

    Menningarleg áhrif tantra náðu hámarki á Indlandi á elleftu og tólftu öld. Á sama tíma og Evrópubúar voru að kikna undir boðum og bönnum páfadóms og beindu athygli sinni að þeirri umbun eða refsingu, sem þeir töldu bíða sín handan grafar, nutu Indverjar lystisemda jarðlífsins, einkum unaðssemda kynlífsins. Þau örfáu tantrísku hof sem ennþá finnast á Indlandi sýna goð og gyðjur í fjölskrúðugum samfarastellingum og lostafullum atlotum af ýmsu tagi.

    Yfirráð tantra voru þó skammvinn á Indlandi. Tantra gekk í berhögg við siðfræði hindúismans en þar gætti vaxandi íhaldssemi í kynferðismálum, sem varð að lokum til þess að iðkendur tantra neyddust til þess að stunda trú sína í leynum og gera enn. Fylgjendur tantra hafa ímugust á sjálfspínslum eins og tildæmis föstum, skírlífi og misþyrmingum á eigin líkama. Þetta sjónarmið kemur vel fram í trúarriti tantra þar sem gyðjan Shakti er látin segja: "Átrúnaður minn er laus við sjálfsafneitun og sársauka."

    Helgidómur tíðablóðsins

    Ýmsir helgisiðir vinstri-handar-tantra, einsog hópkynlíf, víndrykkja, kjötát og kynmök við konur er höfðu blæðingar, hneyksluðu prestastétt hindúa. Af trúarlegum ástæðum eru samfarir víða bannaðar meðan konan hefur tíðir. Konan er álitin óhrein og tíðablóðið talið óhreinka lim karlmannsins. Læknisfræðin hélt því meira að segja lengi fram að sviti og blóð konu með blæðingar innihéldi eitrað efni. Nútímarannsóknir hafa að sjálfsögðu afsannað þessa kenningu. Í tantra er kynlíf meðan á blæðingum stendur talið eftirsóknarvert því álitið er að kynorka og lostasemi konunnar nái hámarki meðan hún hafi á klæðum.

    Iðkendur tantra virtu einnig hina rígskorðuðu stéttaskiptingu Indlands að vettugi og höfðu samfarir við konur og karla úr hópi hinna ósnertanlegu sem jafnvel fólk úr lægstu stéttum landsins hafði ekkert samneyti við.

    Ashtanga-jóga

    Hinn vísindalegi grundvöllur tantra er svonefnt ashtanga-jóga eða átta-greina-jóga. Þessir átta þættir, sem iðkendur tantra verða að tileinka sér, eru: fimm siðræn bönn; fimm siðræn boð; sérstakar líkamsæfingar; öndunaræfingar; stjórnun skynfæranna; einbeiting hugans; hugleiðsla og loks samadhi, stöðug viðvarandi hugkyrrð er leiðir til hugljómunar, sem er reyndar markmið allrar jógaiðkunar. Regluleg ástundun ashtanga-jóga skiptir sköpum í tantra. Án slíkrar iðkunar næst enginn árangur. Jafnvel þótt samfarir samkvæmt ákveðnum reglum séu meginatriði í tantra þjóna þær ekki tilgangi sínum án tilhlýðilegs undirbúnings.

    Jákvæðni og yngingaráhrif kynlífsins

    Tantra leggur jafnframt áherslu á mikilvægi jákvæðrar hugsunar. Jákvæð hugarafstaða er nefnd shiwa og talin fyrirbyggja áföll og sjúkdóma, auka hreysti og lengja lífdaga einstaklinga. Í dag vitum við að bjartsýni og lífshamingja bætir heilsu manna. Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að framfarir krabbameinssjúklinga fara að verulegu leyti eftir hugmyndum þeim sem þeir gera sér um getu sína og heilsufar.

    Tantra kennir að kynferðisleg samvera greiði fyrir góðri heilsu og dragi úr hrörnunareinkennum ellinnar. Niðurstöður rannsókna á hormónastarfsemi líkamans benda til að kynferðisleg örvun hjálpi til við að halda líkamanum ungum. Ávinningur kynlífsins felst þó ekki aðeins í hormónastarfseminni. Vellíðan er að mati tantra forsenda góðrar heilsu og helsta uppspretta vellíðunar er holdleg munúð.

    Chakra puja og nálægðin við guðdóminn

    Helgiathafnir í vinstri-handar-tantra eru margs konar. Chakra puja er þekktust þeirra. Chakra puja hefst á því að konurnar, sem taka þátt í helgisiðnum, afklæða sig og setja kjóla sína í sérstakan kassa sem er hafður fyrir framan anddyri hofsins. Síðan ganga þær inn í hofið og setjast niður í hring í kringum lærimeistarann og konu hans. Þau stýra athöfninni og sjá til þess að allt fari fram samkvæmt settum reglum. Karlmennirnir fækka því næst fötum og áður en þeir ganga inn í hofið taka þeir einn kjól úr kassanum. Eigandi kjólsins er þar með orðinn kynfélagi eða shakti karlmannsins í þessari sérstæðu trúarathöfn.

    Áður en lengra er haldið njóta þátttakendur sameiginlegrar máltíðar sem hefur táknrænt gildi. Þeir drekka rauðvín sem í fræðum tantra stendur fyrir helgidóm eldsins. Vínið felur í sér ímynd hinnar alheimslegu orku. Ef rétt er með farið gleður það mannsins hjarta, losar um hömlur og færir hann nær kjarna eigin verundar. Kjötmeti er einnig á boðstólnum. Því er ætlað að minna þátttakendur á dýrslegan uppruna sinn og auka samkennd þeirra með dýrum merkurinnar. Fiskur er borinn fram í sama tilgangi. Loks neyta aðilar hópsins kornbrauðs sem stendur fyrir jörðina og allt sem á henni vex.

    Því næst kyrjar hópurinn trúarlega söngva, svonefndar möntrur eða máttarorð sem notaðar eru í hugleiðslu og eiga að hjálpa þátttakendum að hverfa til dýpri vitundarvídda hugans. Om mani padme hum er dæmi um slíka möntru sem hefur bæði andlega og kynferðislega merkingu. Mani þýðir hvort tveggja í senn skartgripur og reður karlmanns. Á sama hátt merkir padme bæði lótusblóm og sköp konurnar.

    Við lok söngsins gerir hópurinn öndunaræfingar úr jóga og einbeitir sér að neðstu orkustöð líkamans, mænurótarstöðinni. Samkvæmt fræðum jóga er hinn magnþrungni lífskraftur, kúndalíni, vafinn í dróma í mænurótarstöðinni. Markmið tantra er að leysa kúndalíniorkuna úr læðingi og fá hana til þess að stíga upp eftir hryggsúlunni og sameinast efstu orkustöðinni sem er í hvirflinum. Við það myndast algleymisástand eða einingarvitund, einstaklingurinn kemst í "algert bindandi og óuppleysanlegt samband við guðdóminn".

    Þegar öndunaræfingunum lýkur hefja aðilar hópsins samfarir. Í tantra er lögð áhersla á að sameining kynfæranna sé ekki aðalatriðið heldur kærleikurinn, nálægðin og hin hugræna einbeiting er fylgir ástarleiknum. Þátttakendur í chakra puja líta á hvort annað sem gyðjur og guði og hefja þannig lífsnautnina til æðra stigs. Með orðum Mozarts: "Maður og kona, kona og maður, sameinuð verða þau Guði lík."

    Helgiathöfn fyrir pör

    Í tanra er önnur helgiathöfn, sem fer að mörgu leyti fram á svipaðan máta og chakra puja, nema hún er eingöngu ætluð pörum. Athöfnin hefst með því að elskendurnir baða sig í sameiningu og þurrka hvort öðru. Síðan ber karlmaðurinn ilmolíu á allan líkama ástkonu sinnar og nuddar hana samkvæmt ákveðnu kerfi. Hann nuddar fyrst í stað hálsinn, handleggi, brjóst, maga, læri og loks fætur. Konan gerir slíkt hið sama við ástmann sinn. Þegar nuddið hefur verið leyst af hendi fer konan í rauðan slopp en karlmaðurinn í hvítan. Rauði liturinn táknar tíðablóðið en hvíti liturinn sæði karlmannsins og er hvoru tveggja álitið heilagt í trúarkerfi tantra. Því næst er sest að snæðingi og rauðvín haft með matnum.

    Að máltíð lokinni iðkar parið öndunaræfingar og hugleiðslu þar sem athyglinni er bent að neðstu orkustöð líkamans, mænurótarstöðinni. Þegar þessu er lokið afklæðast þau á nýjan leik og sitja gegnt hvort öðru á gólfinu. Karlmaðurinn snertir nú með fingurgómunum líkama ástkonu sinnar á fyrirfram ákveðinn hátt. Honum ber að sneta hjarta hennar, hvirfilinn, augun, "þriðja augað", sem er á miðju enni, hálsinn og eyrnasnepla. Síðan kemur hann við geirvörturnar, nafla, læri, hné, fætur og loks kynfæri konunnar. Kvenmaðurinn gerir slíkt hið sama við elskhuga sinn. Að þessu loknu hefja þau kynmök. Í tantra eru kenndar fjölmargar samfarastellingar og á hver og ein þeirra að hafa mismunandi áhrif á andlegan þroska mannsins.

    Tantra á Vesturlöndum

    Talið er að frímúrarar hafi verið meðal fyrstu íbúa Vesturlanda til þess að leggja stund á tantra. Árið 1906 stofnaði þýski frímúrarinn Theodor Reuss dulspekiregluna Ordo Templi Orientis. Í einu af fyrstu skjölum OTO segir: "Regla vor hefur að geyma lykilinn að leyndum fræðum frímúrara og hinna hermetísku launhelga, þ.e. kennslu í kynlífsmagíu. Þessi kennsla útskýrir án undantekninga öll leyndarmál Frímúrarareglunnar og annarra trúarkerfa." Kynlífsgaldur reglunnar fólst einkum í því að ákalla fornar gyðjur og goðmögn með sérstakri beitingu ímyndunaraflsins á meðan á kynmökum stóð.

    Árið 1912 fór Theodor Reuss ásamt reglubróðir sínum til Englands til fundar við dulspekinginn Aleister Crowley. Crowley hafði skömmu áður gefið út Book 4, lítið kver sem fjallar um ástundun kynlífsgaldurs til könnunar vitundarinnar. Reuss var viti sínu fjær af reiði því hann var sannfærður um að Crowley hefði komist á snoðir um öll helstu leyndarmál reglu sinnar og blygðunarlaust birt þau í téðri bók. Aleister Crowley tókst að sannfæra Reuss um að hann hafi ekki vitað af tilvist OTO, hvað þá þekkt innra starf reglunnar, heldur uppgötvað aðferðirnar, sem hann greinir frá í bók sinni, alfarið upp á eigin spýtur. Til að fyrirbyggja að Crowley glopraði út úr sér fleira af launfræðum reglunnar kom Reuss því til leiðar að Crowley var skipaður höfuð OTO á Bretlandseyjum.

    Í dag starfar Ordo Templi Orientis víðsvegar um heim, þar á meðal á Íslandi.

    Myndtexti:

    1. Mynd úr einu af helgiritum tantra sem sýnir nema votta lærimeistara virðingu sína.

    2. Iðkun ashtanga-jóga, hins áttafalda jóga, var mikilvæg undirstaða í tantra. Hér má sjá indverskan jóga í lótusstellingu, einum af mörgum líkamsæfingum jógakerfisins.

    3. Enski dulspekingurinn Aleister Crowley (1875-1947) lagði stund á ýmsar greinar jóga og kynnti sér kynlífsiðkun tantra sem hann samræmdi vestrænni galdrahefð.


    Fara aftur á heimasíðu