Íslensk seiðmenning

    Á undanförnum tveimur áratugum hefur átt sér stað bylting í heimspeki á Vesturlöndum sem sumir telja jafnvel að líkja megi við áhrif Kópernikusar forðum. Rannsóknir á huglægri reynslu og hinu yfirskilvitlega eru ekki lengur  hugðarefni örfárra sérvitringa því ört vaxandi hópur fólks gefur sig að þeim. Vísindamenn rannsaka nú kerfisbundið fjarlægari vitundarsvið hugans og ýmsa dulræna hæfileika fólks en slíkt var um miðbik þessarar aldar eingöngu innan ramma trúarbragðanna. Hér á landi hefur aukinn áhugi á andlegum málefnum einkum birst í síauknu framboði á margvíslegum sálvaxtarnámskeiðum. Þar eiga í hlut bæði innlendir og erlendir aðilar og eru námskeiðin að sjálfsögðu misjöfn að gæðum. Nýjasta tískufyrirbærið á vettvangi mannræktar úti í heimi er áhugi fólks á seiðmenningu (,,shamanism") fornra þjóða. Einkum hefur lækningalist og aðferðir þeirra til könnunar á innlöndum hugans og breyttu vitundarástandi vakið verðskuldaða athygli.

    Norræn seiðmenning var við lýði á Íslandi í rúma eina öld er kristni var komið á. Fræðimenn kinoka sér við að fjalla vafningalaust um norrænan átrúnað enda ritaðar heimildir fremur brotakenndar og fátt eitt vitað með vissu um verklag hérlendra seiðmanna. En þrátt fyrir að sagnir um siði og samfélög heiðinna manna séu skrifaðar mörgum öldum eftir kristnitöku má finna þar lýsingar, gömul minni og orðtök sem varpa ljósi á átrúnað forfeðra okkar. Að sjálfsögðu verður að gera greinarmun á þeim samfélögum þar sem seiðandinn er miðpunktur alls trúarlífs og þar sem stöðu hans hefur verið vikið aðeins til hliðar. Hér á landi gegndu goðarnir forystuhlutverki í andlegum sem veraldlegum efnum en hafa, eins og að líkum lætur, átt gott samstarf við seiðmenn og völvur.

    Hamskipti

    Í Heimskringlu segir Snorri Sturluson um Óðinn sem hann skipar til öndvegis meðal Ása: "Óðinn kunni þá íþrótt svo að mestur máttur fylgdi, og framdi sjálfur, er seiður heitir, en af því mátti hann vita örlög manna og óorðna hluti. Fjölkynngi sína segir Snorri að Óðinn hafi kennt "með rúnum og ljóðum þeim er galdrar heita". Á öðrum stað segir frá því að Óðinn skipti hömum."Lá þá búkurinn sem sofinn eða dauður, en hann var þá fugl eða dýr, fiskur eða ormur og fór á einni svipstundu á fjarlæg lönd að sínum erindum eða annarra manna."

    Í íslenskum fornritum er víða sagt frá mönnum sem "eigi voru einhamir". Heimskringla segir frá því að sendimaður Haralds konungs Gormssonar hafi farið hamförum til Íslands, í hvalslíki. Í Vatnsdælu er getið tveggja Finna er voru byrgðir einir saman í þrjár nætur í húsi, á meðan þeir fóru hamförum frá Noregi til Íslands. Á meðan á sálförunum stóð mátti enginn nefna nafn þeirra né trufla dásvefninn á annan máta. Í Eddunum segir frá því að ferðalög af þessu tagi geti verið viðsjárverð því stundum komi fyrir að fólk týnist af réttri leið og er þá talað um að fara "seiðvillur". Íslenska spakmælið "hugurinn fer svo sem í hamförum bæði um loft og lög" er minni frá þeim tíma er myrkriður (galdrakonur) fóru gandreið í hamnum. Í Þorsteins sögu Víkingssonar kemur fram að Kolur "var svo mikil hamhleypa, að hann brást í ýmsra kvikinda líki" og "fór ýmist með vindum eður í sjó".

    Saminn og biskupsfrúin

    Víða er sagt frá fólki sem "trúði á fjölkynngi Finna" og gerðist "Finnfarar". Fátt óttuðust víkingar meir en "meginramma galdra fjölkunnugra Finna". Snorri Sturluson segir frá því að Rauður hinn rammi, er þótti margfróður um galdra, hafi jafnan haft hjá sér "fjölda Finna, þegar er hann þurfti". Frægt er dæmið við kristnitökuna þegar reynt er að fá Eyvind hinn göldrótta til að vinna fyrir kristindóminn. Hann segir þá: "Ek em einn andi, kviknaður í mannslíkama með fjölkynngi Finna, en faðir minn ok móðir fengu ekki fyrr barn átt."

    Margar sögur eru til um kunnáttu Sama í að ferðast út úr líkamanum eða á gandinum. Á miðri 17. öld hélt til dæmis Sami einn sýningu fyrir erkibiskup Uppsala, að viðstöddum lækni og fjölda embætismanna. Hann segist ætla út úr líkamanum og biður þess að líkami sinn verði ekki hreyfður meðan á hamskiptunum standi, "...því að sál mín mun yfirgefa líkamann og mun ég sýnast dauður. En innan skamms tíma, þegar sál mín hefur snúið aftur mun ég vakna." Lördal, en svo hét Saminn, sagðist mundu senda sál sína til bústaðar erkibiskups í Uppsölum og aðgæta hvað erkibiskupsfrúin væri að gera og einnig sanna að hann hefði verið þar. Þegar Saminn vaknar loks úr dáinu segist hann hafa hitt biskupsfrúna í eldhúsinu og lýsir þar öllu í smáatriðum. Hann segist hafa tekið giftingarhring, sem hún missti af fingri sér, og falið hann í kolafötu. Erkibiskupinn skrifar þvínæst konu sinni og biður hana að segja sér frá því hvað fyrir hana hafi borið þessa tilteknu stund dagsins. Í svarbréfi biskupsfrúarinnar kom í ljós að hún hafi týnt giftingarhringnum þennan morgun og grunaði helst að Sami, sem hún hafði hitt, hefði stolið honum. Hún segir frá því að Saminn hafi komið andartak inn í eldhúsið þar sem hún var að elda mat og farið án þess að mæla nokkuð. Við eftirgrennslan fannst giftingarhringurinn síðan í kolafötunni!

    Himnaför særingamanns

    Seiðmenn fóru ekki aðeins hamförum til fjarlægra staða í þessum heimi heldur ferðuðust þeir einnig til annarra heima, sem þeir álitu ekki síður raunverulega en þann sem við hrærumst í dags daglega og getum snert, vegið og mælt. Þannig fóru til dæmis seiðmenn Grænlendinga ýmist til ljósalandsins á himnum eða niður í gegnum jörðina til Hafandans á botni sjávar. Hendur særingamannsins voru þá bundnar fyrir aftan bak og höfuðið reyrt fast milli hnjánna. Ljós snjóhússins voru síðan slökkt og allir sem voru í húsinu lokuðu augunum. Áa, grænlenskur særingamaður er bjó við Hudson-flóa, lýsir himnaförinni með þessum hætti:

      "Þannig er setið lengi í órofa þögn en eftir nokkra stund taka að heyrast ókennileg hljóð, hvískur sem kemur langt utan úr geimnum, suð og ýlfur. Síðan gellur særingamaðurinn allt í einu við og hrópar af öllum mætti: "Ha-la-la, ha-la-la-lé." Þá eiga allir í húsinu að taka undir þegar í stað og segja: "Alé, alé, alé." Þá fer þytur um snjóhúsið og allir vita að myndast hefur smuga handa sál særingamannsins - smuga sem er kringlótt og þröng eins og öndunarvök sels - og upp um hana flýgur sál særingamannsins til himna."

    Máttardýr fornmanna

    Seiðmenn fóru einnig hamförum til að útvega þeim sem til þeirra leituðu máttardýr eða verndaranda. Seiðmenn trúa því að veikindi stafi yfirleitt af því að viðkomandi persóna hafi glatað verndaranda sínum og þess vegna sé nauðsynlegt að endurheimta hann eða verða sér út um annan. Til þess að svo megi verða tekur særingamaðurinn sér á hendur ferð til goðheima og ef allt gengur vel hittir hann þar máttardýr sem vill gerast vörður sjúklingsins. Norrænir menn töluðu um fylgjur eða "hamingjur" manna. Berserkir, hinir harðskeyttu stríðsmenn víkinga, voru taldir "hamrammir". Orðið "berserkur" þýðir einfaldlega bjarnarfeldur en berserkir voru einnig nefndir "úlfhéðnar" eða þeir sem klæðast úlfhúðum. Minnir þetta um margt á úlfshúðir, hreindýraskinn, skúfa og fjaðrir og annan útbúnað er seiðmenn inúta, Sama, og indíána notuðu til þess að ná dýpra sambandi við máttardýr sín. Berserkir komu sér þannig í úlfs- eða bjarnarham og urðu rammir af afli máttardýra sinna.

    Í Oddssögu Ólafssonar segir frá dauða Þórs Hjartar en við lát hans stekkur hjörtur "úr skrokknum". Sú trú virðist hafa verið að menn gætu með hamskiptum hjálpað vinum sínum í bardögum á fjarlægum stöðum (eins og dæmi í Hrólfssögu Kraka og Svarfdælinga sögu). Ætla má að Íslendingar til forna hafi í líkingu við indíána borið nöfn máttardýra, eins og nöfnin Kveldúlfur, Örn, Ormur og Björn eru ef til vill dæmi um.

    Spámeyjar og frjósemisdýrkun

    Seiðtrumban er mikilvægasta verkfæri seiðmannsins. Hún gengur í erfðir og vex máttur hennar með aldrinum. Seiðtrumban gerir seiðandanum kleift að komast handan við hlutveruleikann og berast inn í nýja heima þar sem endurreist nýtt sjálf tekur til starfa. Í Lokasennu ræðst Loki Laufeyjarson að Óðni: "...og draptu á vétt sem völur (barðir þú á trumbu sem völva) ... hugði eg það args aðal (eðli homma)". Í Ynglingasögu segir frá því að seiðnum "fylgir svo mikil ergi, að eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara, og var gyðjunum kennd sú íþrótt". Þess er getið að Freyja Njarðardóttir hafi fyrst kennt Ásum seið en hún var af Vanaætt. Talið er að átrúnaður Vana sé eldri en Óðinsdýrkun og hafi þessir tveir siðir runnið saman.

    Víða í fornsögunum segir frá því að völvur, stundum nefndar spámeyjar eða vísindakonur, hafi farið um landið og spáð mönnum forlög sín og um árferði og aðra hluti. Var þá talað um að ganga til fréttar, að fella blótspána eða gá blótsins. Samfélagsstaða eða viðhorf fólks til völvunnar kemur vel fram í frásögn Eiríkssögu rauða af heimsókn Þorbjargar lítilvölvu til Herjólfsnesar á Grænlandi. Henni er tekið með virktum og búið hásæti. Vinsamlegt viðmót og virðing fyrir fólki af þessum toga þekkist meðal annars hjá Sömum en þar kvartar prestur yfir því að börn og fullorðnir komi hlaupandi á móti seiðmanninum "líkt og hann væri guðsmaður eða engill af himnum".

    Völvan hefur staf í hendi. Orðið völva er líklega dregið af völur, sem er sívalur stafur. Í Laxdælu er lýst hvar völvuleiði finnst undir kirkjugólfi og seiðstafur þar við hlið. Seiðstafurinn er eitt megin einkenni rússneskra og samískra seiðkvenna. Orðið völur er hins vegar dregið af orðinu völsi eða reður karlmanns. Seiðmenn eru einning nefndir seiðberendur en berandi er tilvísun í kynfæri konunnar. Minnir þetta á skauf- og reðurstákn í fornum átrúnaði. Seiðurinn kom eins og áður segir frá Vönum, en þeir voru miklir frjósemisdýrkendur. Einar Pálsson hefur í ritverki sínu Rætur íslenskrar menningar leitt líkum að því kynmök ("saurlifnaður" með orðum kristinna trúboða) hafi gengt mikilvægu hlutverki í launhelgum landnámsmanna.

    Varðlokka

    Í lýsingunni af véfrétt Þorbjargar lítilvölvu kemur fram að konur hafi slegið hring um seiðhjallinn sem Þorbjörg sat uppi á. Síðan var kveðið kvæði sem nefnt var Varðlokur. Orðið "varð" merkir fylja eða sál sem aðskilin er frá persónunni. Vörðurinn getur ýmist verið í manns- eða dýrslíki eða jafnvel sem ljós. Oft er talað um garðsvörð eða túnsvörð en það var vættur eða verndari einhvers svæðis eða staðar. Sænski fræðimaðurinn Dag Strömback hefur varpað fram þeirri tilgátu að orðið varðloka hafi upphaflega verið "varðlokka". Hann nefnir til þess dæmi frá Sömum, þar sem unglingsstúlka er fengin til þess að lokka sál seiðmannsins aftur inn í stirðnaðan líkamann með því að hvísla í eyru hans. Flutningur kvæðisins Varðlokur hefur þá líklega haft þann tilgang að lokka ýmsar andaverur og nálæga vætti. Enda segir Þorbjörg að kvæðinu loknu að "margar þær náttúrur hingað til hafa sótt og þótti fagurt að heyra það er kveðið var, er áður vildi frá oss snúast og oss öngva hlýðni veita". Og virtist þá tilganginum með athöfninni náð.

    Sálhrifalyf

    Notkun sálhrifalyfja fór víða fram samhliða seiðnum. Vitað er að peðsveppurinn, psilocybin, sem vex hér á landi lék stórt hlutverk í helgisiðum indíána Mexíkó. Samar og Síberíubúar höfðu mikið dálæti á berserkjasveppinum og var sífelld eftirspurn eftir honum. Koryakar í Síberíu létu jafnvel fullvaxta hreindýr í skiptum fyrir einn þurrkaðan berserkjasvepp. Ekki eru mér kunnugar neinar ritaðar heimildir um notkun þessara sveppa hér á landi, en fornmenn hafa eflaust þekkt inn á flóru landsins, líklega snöggtum betur en Íslendingar nútímans.

    Í frásögninni af Þorbjörgu lítilvölvu kemur fram að henni var veittur "sá umbúnaður, sem hún þurfti að hafa til að fremja seiðinn". Minnst er á að Þorbjörg hafi setið ofan á seiðhjalli á meðan hún magnaði seiðinn en seiðhjallur hefur líklega verið hár, afmarkaður pallur sem reistur var eingöngu til þessara nota. Samar sitja á palli og til er lýsing frá Síberíu þar sem seiðkarl kemur sér fyrir á ferköntuðu sæti og ketill með sjóðandi vatni er hafður fyrir neðan. Í pottinum voru skynörvandi sveppir og þegar þeir höfðu verið soðnir í mauk var seyðið drukkið. Saminn, sem sagt var frá hér að framan, andaði að sér gufu af þurrkuðum jurtum áður en hann lagðist fyrir og fór til biskupsfrúarinnar. Seiðmenn Skýþa höfðu sama hátt á, en þeir drógu að sér reyk af glóðhituðu hassi, áður en þeir öfluðu sér fróðleiks um örlög sín og annarra.

    Nútíma rannsóknir á áhrifum "sálkannandi" eða "hugvíkkandi" efna á borð við meskalín, kannabis eða LSD-25 benda til þess að notkun sálhrifalyfja hafi hjálpað seiðmönnum að leysa í sundur að einhverju leyti sjálfvirka skynjun og skilningsmyndun. Þau "losa dulspekinga frá fastmótaðri skipulagningu sem þeir hafa byggt upp ár frá ári". Vitundarbreyting sem vart hefur orðið með tilstilli hugvíkkunarlyfja virðist hins vegar skammærri og rista grynnra en sá árangur sem næst með langtíma innri viðleitni.

    Sjálfsfórn Óðins

    Í Hávamálum segir Óðinn frá því hvernig honum opinberaðist hinn mikli leyndardómur rúnanna. Óðinn hékk undir rótum Yggdrasils í níu nætur stunginn síðusári. Þann tíma fékk hann hvorki mat né drykk til þess að seðja sárasta hungrið. Áður en hann féll úr heimstrénu kom hann auga á rúnirnar og náði að fanga þær. Í 138. erindi Hávamála segir um sjálfsfórn Óðins:

      Veit ég, að ég hékk vindaga meiði á nætur allar níu, geiri undaður og gefinn Óðni, sjálfur sjálfum mér, - á þeim meiði er manngi veit hvers hann af rótum renn.

    Erindið lýsir vígslu sem á sér hliðstæðu við ungmennavígslur er tíðkast hafa í mörgum þjóðlöndum. Mikilvægasti þátturinn í þessum vígslum var sýndardauði þess sem vígður var. Æskumaðurinn var látinn sýnast deyja en í stað hans átti að rísa upp fullþroskaður maður sem hafði víðtæka þekkingu og vald á leyndum fyrirbrigðum. Í Gautrekssögu er frásögn í líkingu við sjálfsfórn Óðins. Þar segir frá því er Vikar konungur var hengdur á tré í kálfsþörmum, stunginn reyrspjóti og gefinn Óðni. Þessar hliðstæður benda til þess að lýsingin á sjálfsfórn Óðins greini frá ævafornri heiðinni athöfn og sé ekki til orðin vegna áhrifa frá frásögninni af krossfestingu Jesú Krists.

    Þrjár gerðir rúnakerfa

    Sérstaða keltneskra og germanskra seiðmanna fólst í notkun þeirra á rúnum. Orðið rún merkir leyndardómur. Í þýsku er það náskylt orði sem þýðir "að hvísla". Þegar höfðingjar Engilsaxa komu saman til leynifundar var samkoma þeirra nefnd "rúnir". Einnig má geta þess að þegar Wulfila biskup þýddi Biblíuna yfir á gotnesku brúkaði hann orðið "runa" yfir "leyndardómur" í setningunni "leyndardómur guðsríkis". Orðið rún hefur því ávallt staðið fyrir það sem er leyndardómsfullt, óþekkt og yfirnáttúrulegt. Slík merking er að öllu leyti viðeigandi því rúnirnar voru aldrei hugsaðar sem stafaletur, líkt og latnesku bókstafirnir, heldur voru rúnir fyrst og fremst notaðar til að varpa hlutkesti, til spásagnar og til að galdra fram máttarvöld er gætu haft áhrif á líf og örlög manna.

    Fræðimenn eru ekki sammála um hvar eða hvenær rúnaletur kom fyrst fram í Evrópu. Hins vegar er ljóst að germanskir þjóðflokkar ristu táknmyndir í steina mörgum öldum fyrir Kristsburð. Fjölmargar forsögulegar helluristur hafa fundist í Svíþjóð og eru þær taldar frá síðara skeiði bronsaldar (u.þ.b. 1300 f.Kr.). Þetta eru einfaldar og öflugar táknmyndir sem standa fyrir grunnöfl náttúrunnar. Þessar táknmyndir þykja bera vott um frjósemis- og sóldýrkun og eru taldar undanfari rúnaletursins.

    Til eru þrjár tegundir rúnakerfa. Rúnakerfin eru nefnd "fúþark" eftir fyrstu sex rúnunum. Í engilsaxneskum fúþark eru í allt þrjátíu og þrjár rúnir. Í germönskum fúþark, sem er elsta rúnakerfið, eru tuttugu og fjórar rúnir. Í dönskum eða íslenskum fúþark eru hins vegar sextán rúnir. Rúnunum var skipt í þrjá flokka eða þrjár ættir sem voru nefndar eftir ásunum Frey, Hagal og Tý.

    Rúnaspá og rúnagaldur

    Rómverski sagnfræðingurinn Takítus skýrir frá rúnaspádómum germanskra þjóðflokka í riti sínu Germanía sem kom út árið 98. Þar segir:

      "Þeir sýna spádómum og hlutkesti meiri áhuga en nokkur annar. Aðferð þeirra er einföld: Þeir sneiða grein af aldintré og hluta í smábúta sem þeir merkja með táknum og strá þeim síðan af handahófi á hvítan dúk. Að því búnu kemur prestur þjóðflokksins, ef spáin er fyrir alþjóðar hönd, en annars heimilisfaðirinn. Hann ákallar guðina og er hann lítur upp til himins tekur hann upp þrjá búta, einn í einu og þýðir hlutkestið af merkjunum sem á bútana voru sett."

    Í bók sinni Galdrar á Íslandi segir Matthías Viðar Sæmundsson að greina megi sex þætti í rúnagöldrum að fornu. Rúnameistarinn risti rúnastafi og rauð þá með blóði eða litarefni. Síðan söng hann eða kvað fomála yfir ristunni. Stundum fylgdi þessu einhvers konar hliðarathöfn sem ýmist gat komið á undan, samtímis eða á eftir. Loks var rúnunum eytt með einhverju móti. Um mögnun rúnameistarans segir Matthías Viðar:

      "Galdramaðurinn þarf að uppfylla sálræn og félagsleg skilyrði til að gerningur hans beri árangur. Þannig hlýtur hann að magna hug sinn áður eða á meðan á göldrunum stendur því tæknin ein nægir ekki. Við galdraathöfnina beindi rúnameistarinn krafti sínum í ákveðna átt en ekkert er líklegra en að hún hafi krafist einhvers konar leiðslu, uppnáms eða algleymis. Í ljósi þess er full ástæða til að draga viðtekna skiptingu seiðs og galdurs í efa en samkvæmt henni var seiður mun tilfinningalegri en galdur, reistur á algleymi og leiðslu á meðan galdur var háður vilja og vitsmunum, formálum og grafískum táknum. Hafa verður hugfast að bæði hugtökin vísa á söng eða muldur, munnlegan flutning, auk þess sem verksvið þeirra renna saman í fornum heimildum."

    Mismunandi beiting rúna

    Ljóst er að rúnir gengdu mikilvægu hlutverki í göldrum. Í Sigudrífamálum er minnst á sigrúnir sem valda sigri í orrustu, bjargrúnir til að hjálpa konum í barnsnauð, brimrúnir til að bjarga skipi úr sjávarháska, limrúnir sem ristar voru á trjágreinar til lækninga, málrúnir sem veita vald á máli og vernda gegn heitingum og loks hugrúnir sem eiga að efla vit og hyggindi. Rúnir mátti einnig nota til þess að ná fram ástum. Rúnirnar voru þá fáðar á jurtir sem blandaðar voru í mjöðinn sem færður var tilvonandi elskhuga til drykkjar. Í Völsunga sögu fyllir Brynhildur ker sem hún færir Sigurði til drykkjar með þessum formála:

      Bjór færik þér brynþings apaldur magni blandinn og megin tíri fullur er ljóða og líknstafa góðra galdra og gamanrúna.

    Svartigaldur

    Í þeim dæmum sem á undan eru gengin er um góða galdra að ræða sem svo eru nefndir eða hvítagaldur. Í Heimskringlu kemur fram að Óðinn fékk með seiðnum mátt til að "gera mönnum bana eða óhamingju eða vanheilindi og taka frá mönnum vit eða afl og gefa öðrum". Þess konar seiður flokkast sem svartigaldur. Svartigaldur er kunnur úr fornritunum en hann var galaður til að valda öðrum tjóni og jafnvel dauða. Í Grettis sögu segir til dæmis frá því hvernig norn ristir myrkrúnir á rótarhnyðju og blóðgar þær með eigin blóði á meðan hún kveður galdra. Rótarhnyðjan var síðan send til Drangeyjar til Grettis Ásmundarsonar og átti stóran þátt í dauða hans. Sterk trú var á að með seið mætti hafa áhrif á veður, valda þoku eða sjávarháska og einnig brjóta niður kynferðislega mótstöðu. Sendingar eða stefnuvargar eru dæmi um svartagaldur en þá er átt við að senda einhvern illvætti að ákveðnum mönnum, yfirleitt þegar fórnarlambið er varnarlaust í svefni. Í Hávamálum segist Óðinn kunna ráð til þess að verjast slíkum ásóknum. Óðinn lætur svo ummælt:

      Það kann ég hið sjötta ef mig særir þegn á rótum rásviðar og þann hal er mig heifta kveður þann eta mein heldur mig.

    Líknargaldur

    Líknargaldur, sem galaður var til hamingju og heilla, er þó algengari beiting galdurs. Í Sigurdrífamálum ákallar valkyrjan Sigurdrífa æsi og ásynjur og biður þau um að veita sér og Sigurði Fáfnisbana "læknishendur, meðan lifum". Talið er að völvur þær sem kenndar voru við Óðinn hafi ekki aðeins séð framtíðina með aðstoð rúna heldur einnig stundað lækningar að hætti þess tíma. Handayfirlagning hefur líklega verið eitt afbrigði þeirra. Meðferðargjafinn leggur þá hendur sínar yfir líkama sjúklingsins og hefur græðandi áhrif á einhvern ókunnan hátt.

    Í Egilssögu segir frá því hverning þekkingarleysi á notkun rúna getur valdið feiknarlegum skaða. Egill kemst að því að fúskari í rúnafræðum hafi rist tíu dulrúnir á hvalskíði og lagt undir rúm sjúkrar konu. Í stað þess að lækna konuna gerðu rúnirnar í raun illt verra. Egill brennir því hvalbeinið og ristir síðan nýjar rúnir konunni til handa. Launstafirnir nýju verða fljótlega til þess að konan, sem um ræðir, nær góðum bata. Egill Skallagrímsson varar eindregið við því að menn dufli við kynngimagnaðar rúnir án þess að kunna til hlítar að ráða þær. Hann kveður:

      Skalat maður rúnar rista nema ráða vel kunni það verður mörgum manni er um myrkvan staf villist.

    Myndtexti:

    1. Óðinn var æðsti ás norrænna manna. Óðinn var guð galdurs og töfra, framdi seið og fórnaði sjálfum sér til þess að öðlast þekkingu á leyndardómum rúnanna. Þessi mynd eftir listamanninn V.C. Prinsep er af Óðni. Hrafnar hans, Huginn og Muninn, fylgja honum eftir.

    2. Þórslíkneskja og Þórshamar, hvort tveggja ginnhelg tákn í hugum heiðinna manna.

    3.Hér má sjá sýnishorn af ýmsum gerðum galdrastafa. Talið er að þeir hafi þróast frá svonefndum bandrúnum sem voru þannig gerðar að fjölmörgum rúnum var spyrnt saman í einni stafsmynd.

    4. Germanskur fúþark skiptist niður í þrjár ættir; Freys-, Hagals- og Týs-ætt.

    5. Samkvæmt heimildum í Eiríkssögu rauða voru íslenskir seiðmenn til forna ekki síður skrautlega búnir en seiðgoðar Norður-Amerískra indíána.

    6. Hér má sjá lífvarðarsveit Adolfs Hitler merktar tveimur Sól-rúnum. Nasistar færðu sér í nyt kynngi rúnanna með þeim afleiðingum að rúnir eru í hugum margra ranglega tákn hins myrkva og djöfullega.


    Fara aftur á heimasíðu