2

    Sálhrifalyf og breytanleiki vitundarinnar

    Notkun vímugjafa er manninum í blóð borin. Allar lífverur með miðtaugakerfi virðast hafa eðlislæga þörf fyrir að upplifa breytt vitundarástand og sækja markvisst í áhrif sem samfara er neyslu margs konar sálhrifalyfja. Til þess að komast í vímu háma apar í sig skordýr sem etið hafa skynörvandi jurtir. Fílar, skógabirnir og dádýr verða ölvuð af því að innbyrða gerjaða ávexti. Nautgripir komast í sjálfsgleymi með því að torga óhemju magni af mariúana og sauðkindur gleypa í sig skynvillusveppi í sama tilgangi. Rannsóknir á rottum, kanínum, marsvínum og öðrum dýrum sýna að þau draga dám af manninum hvað viðkemur ásókn í kókaín, amfetamín, morfín, svefnlyf og róandi lyf ýmiss konar. Í tilraunum af þessu tagi má ennfremur sjá að dýr eru sólgin í alkahól, lífræn leysiefni og ávanaefni á borð við koffein og nikótín.

    Hinn vitiborni maður er eigi að síður sú lífvera sem sækir mest í nautnalyf af öllum gerðum. Auk þeirra efna sem þegar hafa verið nefnd neytir hann atrópíns, efredíns, ritalíns, ópíums, heróíns, ketamíns, yagé, LSD-25, STP, MDA, MDMA, PCP, DMT, nituroxíðs, meskalíns, psílócýbíns og berserkjasveppa svo dæmi séu tekin. Ef ávöxturinn, trjábörkurinn, plantan, sveppurinn eða efnasambandið sem um ræðir veldur örvandi eða slævandi verkunum á miðtaugakerfið má nær öruggt telja að maðurinn hafi annað hvort étið umrætt geðhrifalyf, reykt það, drukkið, sogið í nefið eða stungið því í æð. Leit mannsins að unaðsreitum handan venjulegrar vökuvitundar tryggir að hann lætur einskis ófreistað að nýta sér það sem náttúran hefur upp á að bjóða í þeim efnum þó það hafi stundum meinlegar aukaverkanir í för með sér.

    Einstaklingar sem neyta ekki vímugjafa hafa engu minni þörf fyrir breytt vitundarástand. Þeir kjósa hins vegar aðrar leiðir að sama marki. Tónlist, dans, kvikmyndir, leikrit, nudd, kynlíf, fjárhættuspil, líkamsrækt og íþróttaiðkun ýmiss konar verka á skap og vitund og miða hvert um sig að því að leysa úr læðingi ákveðnar tegundir sálrænnar reynslu. Vaxandi hópur fólks úr ýmsum greinum atvinnulífsins hefur á undanförnum árum gefið sig að eigin hugar- og sálarlífi án þess að bregða fyrir sér neyslu skynbreytandi efna. Þar kemur við sögu tækni til að fylgjast með ósjálfráðri líkamsstarfsemi (svonefnd lífræn endursvörun eða biofeedback), nákvæm einangrun skynfæranna, dáleiðsla, sjálfsefjun, hugleiðsla, draumastjórnun og andleg vísindi úr trúarhefð Austurlanda.

    Börn reyna einnig mörg hver að kalla fram breytt vitundarástand. Þau þyrla sér viðstöðulaust í hringi, anda ótt og títt langtímum saman eða fá önnur börn til þess halda þéttingsfast um bringu sér uns þau sundlar og falla jafnvel í yfirlið. Þessa iðju stunda þau að staðaldri enda þótt hún valdi velgju og sé litin hornauga af fullorðnu fólki.

    Rannsóknir á innlöndum mannshugans, huglægri reynslu og hinu yfirskilvitlega hafa færst frá verksviði heimspeki yfir á verksvið raunvísinda. Vísindamenn rannsaka nú kerfisbundið mismunandi stig vitundarvíkkunar. Þeir reyna að skilgreina þær aðstæður eða aðferðir sem laða fram útvíkkun vitundarinnar, rannsaka breytingarnar sem hún veldur, flokka mismunandi eigindir hennar, athuga hvort hún tengist ákveðnum þáttum í skapgerð einstaklinga eða hvaða manngerð eigi auðveldar með að sannreyna innri rýmd hennar.

    Sumir fræðimenn eru þeirrar skoðunar að þörf mannsins fyrir að kanna breytanleika eigin vitundar sé ekki aðeins eðlileg, ásköpuð hneigð, hliðstæð við hungur eða kynhvöt, heldur einnig óhjákvæmileg fyrir heilbrigði og framþróun mannkyns. Andrew Weil, bandarískur læknir og heilsuráðgjafi, lætur svo ummælt:

      ,,Henni svipar til raunverulegrar nauðþurftar er sprettur af taugalífeðlisfræðilegri gerð mannsheilans... Líkt og síendurtekin löngun til að losa um kynferðislega spennu, rís löngunin til að bregða út af venjulegri meðvitund sjálfkrafa að innan, nær hámarki, leitar lausnar, og eyðist - í samræmi við eigin hrynjanda... Og ánægjan í báðum tilvikum verður til vegna uppsafnaðrar spennu."

    Dr. Weil bendir á að löngunin til að upplifa framandi víddir og fáheyrð vitundarsvið hugans hafi án efa gegnt mikilsverðu hlutverki í þróun mannlegs taugakerfis. Tilraun til þess að hemja þessa viðleitni er dæmd til að mistakast og getur jafnvel verið hættuleg. Hún ógnar andlegri velferð einstaklingsins og skaðar framgang mannsins sem tegundar. Dr. Weil tiltekur að hann

      ,,vilji ekki sjá okkur fikta við eitthvað sem er svo nátengt fróðleiksfýsn okkar, sköpunargáfu okkar, innsæi okkar og okkar háleitustu þrám."

    Könnun vitundarinnar

    William James (1842-1910)

    Notkun sálhrifalyfja til sjálfsþekkingar og fræðiiðkana er kunn meðal fremstu hugsuða mannkyns. Bandaríski sálfræðingurinn og heimspekingurinn, William James, fjallaði í ritverkum sínum um ílöngun mannsins til ummyndunar vitundarinnar. Hann var þeirrar skoðunar að það væri ábyrgð sálfræðinga að kanna og nema fjarlægari vitundarsvið og skylda mannsins að leitast við að upplifa þau og hafa á þeim taumhald. William James gekk á undan með góðu fordæmi því hann gerði ítarlegar tilraunir með deyfingarlyfið nituroxíð, svonefnt hláturgas, sem hann áleit notadrjúga aðferð til að rannsaka innra gangverk hugans. Í bókinni, The Varieties of Religious Experience (Fjölbreytileiki trúarlegrar reynslu), er kom út árið 1902, segir hann um fyrstu reynslu sína af notkun nituroxíðs:

      ,,Á þeirri stundu komst ég nauðbeygður að niðurstöðu, sem upp frá því hefur verið óbifanleg sannfæring mín. Hún er að hin venjulega vökuvitund okkar, skynsemisvitund eins og við köllum hana, er aðeins ein gerð vitundar, allt í kring um hana, aðskildir með örþunnum lögum, liggja möguleikar annarra vitundarsviða, sem eru geysilega frábrugðnir. Líf okkar getur liðið hjá án þess að okkur verði ljós tilvera þeirra; en með notkun réttrar kveikju birtast þeir í allri sinni víðfeðmi, sem ákveðin form hugarástands sem eiga sér líklega einhvers staðar eigin starfssvið. Enga endanlega heildarmynd af heiminum er hægt að gera sér án þess að taka tillit til þessara annarra vitundarsviða."

    William James gerði fjölmargar tilraunir með bæði nituroxíð og etri og fullyrti að með innöndun þeirra hafi hann átt auðveldar með að ígrunda heimspekileg viðfangsefni og öðlast djúpstæðari skilning á eðli alheimsins.

    Sigmund Freud (1856-1939)

    Sigmund Freud var á sínum yngri árum ötul talsmaður kókaínneyslu. Hann hafði lesið um neyslu kókalaufa meðal indíána Suður-Ameríku og gerði sér vonir um að kókaín gæti aukið með sér úthald og dregið úr taugaþreytu er hann þjáðist af. Freud borðaði ýmist hreint kókaín eða dældi því í æð og átti þetta nýja lyf fljótlega hug hans allan. Lyfið olli að hans sögn:

      ,,glaðværð og langvarandi sælukennd sem er á engan hátt frábrugðin eðlilegri sælutilfinningu heilbrigðrar persónu"

    Freud lýsir í bók sinni On Coca (Um kóka) hvernig nota má kókaín til þess að yfirstíga ritstíflu (writers block) og lækna þunglyndi, drykkjusýki og morfínfíkn. Honum þótti lyfið einnig framúrskarandi verkfæri til rannsóknar á dýpri þáttum sálarlífsins og er talið að grunnþættir sálgreiningarkenningar Freuds hafi orðið til í kókaínvímu.

    Freud varð fyrir hörðum árásum frá Louis Lewin, þýskum eiturefnafræðingi, sem staðhæfði að kókaín væri vanabindandi og skaðlegt geðheilsu manna. Freud varðist fimlega en skipti síðan um skoðun þegar vinur hans varð geðveikur sökum ofneyslu kókaíns. Freud hafði hvatt hann til að nota kókaín til þess að venja sig af morfíni. Sjálfur gaf Freud neyslu kókaíns upp á bátinn eftir að hafa neytt þess að staðaldri í þrjú ár.

    Aleister Crowley (1875-1947)

    Enski dulspekingurinn Aleister Crowley er með eftirtektarverðustu hugmyndasmiðum tuttugustu aldar. Hann var þó í litlum metum meðal samtímamanna sinna. Crowley var borinn djöfladýrkun á brýn, álitinn kynferðislega brenglaður, forfallinn dópisti og "syndugasti maður veraldar". Breskt síðdegisblað birti forsíðumynd af honum ásamt flennistórri fyrirsögn þar sem stóð:

      "Þennan mann viljum við gjarnan drepa!"

    Auðvelt er að geta sér til um ástæðurnar fyrir óvinsældum hans. Aleister Crowley var baldinn og hirti ekki um álit annarra. Hann hafnaði andlegri leiðsögn kirkjunnar og gekk í berhögg við siðferðisleg gildi síns tíma. Crowley var frumkvöðull vísindalegrar könnunar á vitundinni og við tilraunir sínar notaði hann kynlífsiðkun úr tantra-jóga og ýmsar gerðir sálhrifalyfja. Hann þróaði gagnmerkt sálvaxtarkerfi sem byggist á egypskri, grískri og gyðinglegri galdrahefð. Aleister Crowley á heiðurinn af því að hafa rutt í burtu ýmsum bábiljum sem voru ríkjandi meðal dulspekinga Vesturlanda upp úr síðustu aldamótum.

    Edward Alexander (Aleister) Crowley fæddist í Leamington Spa í Englandi. Foreldrar hans voru kristnir bókstafstrúarmenn sem tilheyrðu sértrúarsöfnuði Plymouth-bræðra. Strax á barnsaldri gerði hann uppreisn gegn trúarlegri innrætingu og þvingandi uppeldisvenjum foreldra sinna. Andóf hans varð til þess að móðir hans tók að trúa því að sonur hennar væri andkristur sjálfur eða dýrið sem ber einkennistöluna 666 og greint er frá í Opinberun Jóhannesar. Crowley segir í sjálfsævisögu sinni Confessions of Aleister Crowley (Játningar Aleisters Crowleys), að uppvaxtarár hans hafi verið "helvíti líkust". Til þess að innræta honum guðsótta og góða siði var gripið jöfnum höndum til vandarins og ritningalestra úr Biblíunni. Þessar aðfarir urðu til þess að vekja með honum rótgróið hatur á kristindómi er fylgdi honum til banadægurs.

    Árið 1898, þegar Crowley var tuttugu og tveggja ára að aldri, fékk hann inngöngu í Launhelgar hinnar gullnu dögunar (Hermetic Order of the Golden Dawn) sem kenndi innvígðum gerninga, stjörnuspeki, alkemíu, tarot, kabbala og önnur forn fræði og var helsta dulspekisamfélag þess tíma. Hugmyndir reglunnar þess efnis að til væri ósýnilegt bræðralag andlegra meistara, er stýrðu andlegri þróun mannkynsins, féllu vel að heilabrotum Crowleys. Hann var staðráðinn í að ná sambandi við þessa huldu meistara og kynnast leyndardómum hinna upplýstu. Ákafi hans og einbeittur vilji gerði að verkum að hann tók öll helstu vígslustig reglunnar á mettíma.

    Gullna dögunin átti þó ekki langa lífdaga fyrir höndum því félagsskapurinn leystist upp sökum innbyrðis deilna tveimur árum eftir að hann hafði fengið þar inni. Við það búið lagði Crowley land undir fót í leit að andlegri þekkingu. Hann dvaldi um tíma í Mexíkó, Sri Lanka og á Indlandi. Crowley rannsakaði og lagði stund á á ýmsar greinar jóga, kynnti sér búddhisma og kynlífsiðkun tantra sem hann samræmdi vestrænni galdrahefð. Nokkru síðar fór hann jafnframt til Kína þar sem hann nam I Ching, ævafornt kínverskt spádómskerfi er hafði afgerandi áhrif á sálfræðikenningar C. G. Jungs.

    Árið 1904 urðu kaflaskipti í lífi Crowleys. Hann var þá staddur í Kaíró með skoskri eiginkonu sinni Rose Kelly að nafni. Rose Kelly hafði hvorki þekkingu né áhuga á dulrænum efnum. Það kom því eiginmanni hennar verulega á óvart þegar hún tók að falla í leiðslu og færa honum skilaboð að handan. Crowley taldi í fyrstu að kona sín væri genginn af göflunum, en þegar hún tók að tilgreina heiti og talnarunur úr egypskum og kabbalískum launfræðum, sem voru eingöngu á vitorði sérfróðra, lagði hann við hlustir.

    Rose Kelly staðhæfði að honum væri ætlað að flytja mannkyninu veigamikinn boðskap frá fornegypska sólguðinum Hórusi. Andleg vera, sem kallaði sig Aiwass, færði henni þau skilaboð að Crowley ætti að sitja við skrifborð milli klukkan tólf og eitt, þrjá daga í röð, og skrá orðrétt það sem fyrir hann yrði lagt. Crowley fór að þessum fyrirmælum og útkoman var Liber AL vel Legis eða Book of the Law (Rit lögmálsins), gagntækt kver sem skiptist í þrjá stutta kafla og hefur að geyma sérstæð erindi sem eiga sér enga hliðstæðu í heimi trúarrita.

    Í bók sinni Magic in Theory and Practice (Fræði og iðkun galdra) fullyrðir Crowley að Aiwass sé afsprengi eigin snilligáfu sem og birtingarform frumorku sköpunarinnar er Súmerar og Fornegyptar nefndu Shaitan og tilbáðu með kynferðislegum helgiathöfnum. Kristnir menn nefndu þennan guð Satan og álitu hann vera andstæðing mannsins. Crowley hafnaði hins vegar tvíhyggju kristindóms og þeirri hugmynd að eftir dauðann sé aðeins um tvennt að velja, alsælu eða eilífa glötun. Unaðssemdir hins jarðneska lífs voru að hans mati ekki tálsnörur og vélabrögð sem óvinurinn beitir til þess að ná valdi yfir sálum manna heldur leið til þess að auðga andann og komast í nánari snertingu við eðli guðdómsins.

    Rit lögmálsins tilkynnir upphaf nýrrar aldar, tímaskeið Hórusar, sem felur í sér nýtt siðferði, nýja helgisiði og nýtt helgirit. Kristindómur, búddhasiður, múhameðstrú og önnur trúarbrögð mannkyns hafa runnið skeið sitt á enda. Í Riti lögmálsins segir: ,

      ,Sjá! Helgisiðir hins gamla tíma eru svartir. Lát hinum illu verða fleygt á brott; lát hina góðu hreinsast af spámanninum! Þá mun Þekking þessi rata á réttan stað. Ég er loginn er brennur í hjarta sérhvers manns og í kjarna hverrar stjörnu."

    Grundvöllur hins nýja tímabils (aeon) í sögu mannkynsins skyldi vera lögmál Thelma, en thelma er grískt orð sem þýðir ,,vilji". Kjarninn í boðskap hins nýja átrúnaðar kemur fram í Riti lögmálsins. Þar segir m.a.:

      ,,Gjör vilja yðar skal vera Lögmálið allt.",,Ást er Lögmálið, Ást undir stjórn Viljans." Og einnig: ,,Sérhver maður og sérhver kona er stjarna."

    Rit lögmálsins kennir að í sérhverjum manni búi reginmáttur alvaldsins, mennirnir séu í raun sofandi guðir sem bíði eftir að uppgötva og tjá guðdómleika sinn. Hér birtast lesendum jafnframt orð sem ganga þvert á siðfræði eldri trúarbragða:

      ,,Ég er Snákurinn er gefur þekkingu & Ánægju og bjarta dýrð, og hreyfi hjörtu mannanna með ölvun. Til þess að tigna mig takið vín og undarleg lyf er ég upplýsi spámann minn um & gerist ölvuð af þeim! Þau munu ekki valda yður neinum skaða. Þetta er lygi, þessi heimska gegn sjálfinu. Varnarleysi sakleysisins er lygi. Vertu sterkur, ó maður, þráðu, njóttu allra hluta upplifunar og sælu: óttast þú ei að nokkur Guð muni afneita þér þess vegna."

    Aleister Crowley var í fyrstu andsnúinn innihaldi Lögmálsbókarinnar. Boðskapur kversins stríddi gegn lífsskilningi hans og siðferðiskennd. Þegar hann fór að fyrirmælum Aiwass og skrifaði niður erindi ritsins aðhylltist hann búddhasið. Hann sniðgekk því ákvæði kversins, hirti ekki um handritið að bókinni og tókst meira að segja að týna því í heil fimm ár! En smám saman tók þetta gagnorða smárit að setja mark sitt á hugsunarhátt Crowleys uns hann leit á það sem köllun sína að verða brautryðjandi hins nýja lögmáls.

    Til að kanna breytileika eigin vitundar gerði Crowley tilraunir með margs konar sálhrifalyf en skrif hans bera með sér að hann bjó yfir afburðaþekkingu á lyfjafræði miðtaugakerfisins. Í bókinni 777, sem kom út árið 1909, flokkar hann ýmiss lyf í samræmi við Tré lífsins, skýringamyndar sem gegnir lykilhlutverki í trúarheimspeki kabbala. Tré lífsins samanstendur af tíu hringum, sefiroth að nafni, sem hver um sig eru fulltrúar fyrir ákveðna eiginleika guðdómsins sem og óbirtra möguleika mannsins. Skoða má Tré lífsins sem leiðarvísir sálarinnar á ferð sinni upp á við úr fjötrum efnisheimsins til frelsis og uppfyllingar andans.

    Crowley leit svo á að með tilhlýðilegum undirbúningi mætti nota ákveðinn lyf til þess að flýta fyrir sérhverjum áfanga á þeirri braut. Meskalín, hass, kókaín, ópíum, sjáaldursjurt, alrúna, múskat og múskathýði hafa öll sérstöku hlutverki að gegna í því sambandi. Ef tekið er mið af málverkum hans má ætla að hann hafi einnig þekkt skynáhrif berserkjasveppsins. Aleister Crowley lagði áherslu á að notkun skynbreytandi eða hugvíkkandi efna þjóni ekki tilgangi sínum í andlegri viðleitni nema hún lúti stjórn viljans og fari fram með hátignarlegu hugarfari.

    Í The Book of Wisdom Or Folly (Rit visku eða flónsku) segir hann:

      ,,Varðandi notkun Efnafræðilegra sambanda, gætið þess að þér misnotið þau ekki, gerið yður ljóst að sjálft Sakramentið tilheyrir Andanum, og að Náttúruöflin Fjögur séu þar í jafnvægi, í Fullkomleika sínum."

    Aldous Huxley (1894 -1963)

    Enski rithöfundurinn og heimspekingurinn Aldous Huxley hafði öðlast alþjóðlega viðurkenningu sem skáldsagna- og ritgerðahöfundur, og var annálaður fyrir skrif sín um þjóðfélagsmál, þegar hann fékk áhuga á mystík, sálarrannsóknum, náttúrulækningum og austrænni heimspeki. Árið 1954 kom út eftir hann bókin The Doors of Perception (Dyr skynjunar) og tveimur árum síðar Heaven and Hell (Himnaríki og helvíti) en bæði ritin fjalla um breytingar er urðu á skynjun og sjálfsvitund höfundar við inntöku meskalíns.

    Eftir töku 400 millígramma af meskalíni tóku hverdagslegir smáhlutir á sér nýja og undursamlega mynd. Blæbrigði mismunandi lita varð ægifögur og efnislegir hlutir runnu saman í órofa heild og virtust búa yfir lifandi návist. Bækurnar hans glitruðu, sem dæmi, líkt og gimsteinar:

      ,,Rauðar bækur urðu líkar rúbínum; bækur úr smaragði; bækur bundnar í hvítum jaði; úr akvamarín, úr gulum tópas, bækur úr asúrsteini sem höfðu svo skarpan lit, þrungnar áskapaðri merkingu í svo ríku mæli að það var engu líkara en að þær væru við það að yfirgefa bókarhillurnar til þess þrykkja sér af meiri eftirgangssemi að athygli minni."

    Huxley var sannfærður um að trúarbrögð mannkyns, goðsagnir og listsköpun fyrri tíma eigi í mörgum tilvikum rót sína að rekja til sýna og opinberana sem samfara voru notkun skynörvandi efna. Hann var þeirrar skoðunar að mannsheilinn starfaði eins og ventill eða sía sem verndar lítilmótlegan huga okkar gegn fargi og yfirþyrmandi áhrifum heildarhugans (Mind at Large). Samkvæmt þessu skynjar maðurinn í venjulegri dagvitund eingöngu upplýsingar sem eru nauðsynlegar til þess að hann geti starfað á viðunandi hátt í efnisheiminum.

    Neysla meskalíns og skyldra efna, hugtæknileg iðkun jóga og sjálfspínslir eru að hyggju Huxleys aðferðir sem gera manninum kleift að draga úr varnarafli heilans og hleypa víðfeðmari tilbrigðum skynjana í gegn. Þannig vaknar óræð vitund sem ber með sér auðkenni heildarhugans og verður ekki skilin né skilgreind með rökum eða tilgátum skynseminnar.

    Aldous Huxley áleit mikilvægi skynvíkkunarlyfja felast í því að þau gefa venjulegu fólki kost á að opna fyrir dýpri vitundarsviðum hugans og með þeim hætti öðlast innsýn í yfirskilvitlega reynslu dýrlinga, dulspekinga og mikilsverða listamanna. Neysla þeirra getur leitt til næmari skilnings á trúarlegum og dulspekilegum viðfangsefnum og gefið ferska og áhugaverða sýn á þýðingarmiklum listaverkum. Meskalín og ámóta lyf eru, að mati Huxleys, lífefnafræðilegir lyklar sem ljúka upp dyrum skynjunar og bera einstaklinginn inn í nýjar víddir og annars konar verundarástand. Ekki má vanmeta gildi þeirra enda þótt sumir einstaklingar verði fyrir skakkaföllum af þeirra völdum einfaldlega vegna þess að þeir kunna ekki með þá að fara.

    John C. Lilly (1915 - )

    Bandaríski vísindamaðurinn John C. Lilly, sem kunnur er fyrir rannsóknir sínar á höfrungum, hefur sérhæft sig í könnun vitundarinnar með aðstoð ketamíns. Ketamín er skammvirkt svæfingarlyf sem gefið er í vöðva eða æð og hefur skynörvandi áhrif. Lilly hóf rannsóknir sínar á því að fljóta þyngdarlaust í rækilega einangruðum vatnstanki með það fyrir augum að verða ekki fyrir utanaðkomandi ertingu. Þegar skilningarvitin voru svipt því sem næst öllu áreiti varð hugurinn aflgjafi óvenju sterkra ímyndana, geðhrifa og sýna sem jafnast einna helst á við áhrif ofskynjunarlyfja. Sá sem dvelur í einangrunartanki getur sem dæmi horfið aftur til fyrri reynslu. Hann endurlifir tilfinningar sem vissar aðstæður vöktu og verður var við þær ályktanir, sannar eða falskar, sem hann dró af þessari reynslu í upphafi.

    Hér er ekki um endurminningu eða upprifjun að ræða heldur nákvæma framköllun á því sem einstaklingurinn sá, heyrði, fann og skildi. Þegar hafði verið leiddar líkur að því að reynsla mannsins væri skráð í taugafrumum heilans. Árið 1951 uppgötvaði kanadíski taugaskurðlæknirinn Wilder Penfield að hægt er að framkalla nákvæma upplifun fyrri atburða með því að erta taugafrumur heilabarkarins með vægum rafstraumi. Svipting skynjunar virðist í sumum tilvikum hafa sambærileg áhrif á mannsheilann.

    John C. Lilly vildi ganga lengra í rannsóknum sínum og hóf nú að gera tilraunir með skynjunarsviptingu undir áhrifum ketamíns. Innan skamms fannst honum sem hann yfirgæfi líkamann og tæki að ferðast um ytri víðáttur sem voru svo óþyrmilega frábrugðnar því sem hann hafði áður kynnst að honum hraus hugur við. Um tíma fannst honum eins og það ætti ekki fyrir honum að liggja að snúa aftur til líkamans. Þessi reynsla varð þó ekki til þess að draga úr honum kjark. Í mörg ár kannaði Lilly ókunnar víddir hugans með hjálp einangrunartanksins og var jafnan undir áhrifum ketamíns eða LSD-25 við þær rannsóknir. Einnig studdist hann við dáleiðslu, hugleiðslu og sál-líkamlegar æfingar af ýmsu tagi. Þegar best lét upplifði hann það sem sálfræðingar nefna ,,tæringu á ytri mörkum Sjálfsins" þ.e. einingarvitund eða samruna við guðdóminn.

    Lilly staðhæfir einnig að í leiðangrum sínum hafi hann komist í samband við ómennskar verur, sem áttu uppruna sinn að rekja til annarra sólkerfa, og eru sumar lýsingar hans svo kostulegar að auðvelt væri að vísa þeim á bug sem hverjum öðrum rangskynjunum, ef ekki ætti í hlut mikilsmetinn vísindamaður.

    Carlos Castaneda (1925 - )

    Carlos Castaneda er án efa meðal þeirra fræðimanna sem hafa lagt hve mest af mörkum við að kynna ævaforna seiðmenningu indíána. Hann á ætt sína að rekja til Perú en öðlaðist bandarískt ríkisfang árið 1959. Sama ára hóf hann nám í mannfræði við Kaliforníuháskóla (UCLA) í Los Angeles. Sumarið 1960 fór Castaneda til Mexíkó til þess að viða að sér heimildum í kandídatritgerð er fjalla átti um jurtir er valda ofskynjunum og notkun þeirra í fornum átrúnaði. Þar kynntist hann yaqui-indíána að nafni Juan Matus.

    Don Juan, eins og hann vildi láta kalla sig, var brujo eða ,,maður þekkingar", sérfróður í notkun ofskynjunarplantna. Fyrr en varir tókst með þeim góður vinskapur og að ári liðnu bauð Don Juan mannfræðinemanum unga að gerast lærisveinn sinn. Castaneda þáði boðið heils hugar því honum þótti það eina færa leiðin til að öðlast innsýn í þá torfundnu þekkingu er gamli maðurinn bjó yfir. Carlos Castaneda gerði sér þó ekki ljóst að með því var hann að stíga sín fyrstu skref inn í furðulegan og stundum ógnvænlegan heim, heim sem þyrlaði honum langt út fyrir hugtök, skýringar og kunnuglega lífsafstöðu vestrænnar menningar. Háskólamaðurinn, sem í upphafi hafði eingöngu ætlað sér að kynnast sálhrifalyfjum indíána, var nú orðinn nemi á andlegri þroskaleið. Hann hafði undirgengist þjálfun - þjálfun særingamannsins - erfitt og tímafrekt nám sem miðar að því að afhjúpa leyndardóma máttar og þekkingar.

    Þrjár tegundir af huglyfjum gengdu veigamiklu hlutverki í sálvaxtarkerfi Dons Juans. Þessar jurtir voru peyóte (sandkaktus sem inniheldur meskalín), djöflajurt (datura inoxia) og viss tegund skynvillusveppa (psilocybe mexicana). Don Juan taldi jurtir þessar hafa í sér fólgna möguleika er gerir einstaklingnum kleift að koma á tengslum við tilteknar verur eða náttúruvætti. Til að mynda leit hann svo á að peyóte væri líkamleg birting veru sem hann nefndi Meskalító. Með því að innbyrða kaktusinn kemst neytandinn í hugarástand sem gefur honum í sumum tilvikum rými til að ná sambandi við Meskalító og kynnast þeim áhrifum sem hann hefur á veröld þessa heims. Tjáskipti við Meskalító og aðrar huliðsverur er fyrsta skrefið í þá veru að ávinna sér liðveislu þeirra og gera þær að bandamönnum sínum.

    Lærlingsár Castanedas fólu iðulega í sér neyslu á skynörvandi efnum, einkum ,,litla reyknum" eða el humito eins og Don Juan nefndi psílócýbe-sveppinn. Þegar sveppurinn hafði verð þurrkaður var hann mulin í duft og síðan reyktur með jurtablöndu úr þar til gerðri pípu. Reykjarmökkurinn kom til vegna brennslu jurtanna því sjálft sveppaduftið var sogið gegnum pípulegginn beint í munninn. Af skrifum Castanedas verður ekki vitað hve mikið magn af sveppum hann innbyrði í hvert sinn en greinilegt er að skammturinn var nógu stór til þess að valda harkalegum viðbrögðum.

    Don Juan fullyrti að el humito geri særingamannninum kleift að ,,losna úr viðjum líkamans" og ferðast um óþekktar víddir. Ferðalög af þessu tagi geta verið viðsjárverð því stundum kemur fyrir að fólk villist af réttri leið. Don Juan segir eitt sinn við Castaneda:

      ,,Eitt veit ég fyrir víst, þú fórst óralangt í burtu. Það veit ég vegna þess að ég átti hræðilega erfitt með að toga þig til baka. Ef ég hefði ekki verið nærri, er eins líklegt að þú hefðir reikað í burtu og aldrei komið aftur, en þá hefði ekkert verið eftir af þér núna annað en dauður búkurinn meðfram ánni".

    Þegar líða tók á námsferilinn urðu upplifanir Castanedas æ kynlegri. Castaneda átti í átökum við afholdgaða anda og seiðmenn er birtust honum í líki gríðarstórra úlfa. Hann komst í kynni við dauðann sem tók á sig mynd silfurlitaðra hrafna. Þrisvar sinnum hitt hann Meskalító, guð peyóte. Loks eftir fimm ára læri hjá Don Juan gafst hann upp á því að feta þroskaleið særingamannsins. Hann hafði þá þolað skelfilegustu nótt ævi sinnar þar sem hann átti í lífshættulegum ryskingum við ósýnileg öfl er vildu hann feigan. Eftir að hafa velt því gaumgæfilega fyrir sér afréð Castaneda að skrifa bók um reynslu sína.

    Fræðsla Don Juans: Leið Yaqui til þekkingar kom út árið 1968 og vakti strax mikla athygli. Castaneda ákvað að snúa aftur til Mexíkó til þess að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Hann hefur sem stendur skrifað alls níu bækur um kennslu og kynni sín af Don Juan og hafa þær allar fengið lofsamlega dóma bókmenntagagnrýnenda, auk þess að vera frægar metsölubækur vestanhafs. Ritverk hans bera með sér að í hverri nýrri bók skrifar Castaneda frá síhækkandi sjónarhóli því andlegur þroski hans, skilningur og innsæi tók stöðugum framförum í framvindu námsins.

    Fræðsla Don Juans gerði Castaneda mögulegt að glöggva sig á ,,aðskildum veruleika". Mikilsverður hnykkur í leiðbeiningum Juans er atburðarás sem hefur að augnamiði ,,upplausn egósins". Sem dæmi er nemanum hjálpað til þess að hætta að hugsa um sjálfan sig sem aðskilda og sérstaka veru sem er að öllu leyti aðgreind frá náttúrunni. Til þess að nálgast þetta vitundarástand verður hann að gefa upp á bátinn eigið ,,sjálfsmikilvægi". Don Juan segir til dæmis við Castaneda:

      ,,Meðan þér finnst þú sjálfur vera það sem mestu skiptir í heiminum ert þú ekki fær um að meta veröldina í kringum þig eins og hún á skilið."

    Don Juan ráðleggur Castaneda að ,,afmá persónulega fortíð sína".

      "Ef við... afmáum persónulega fortíð okkar sköpum við mistur eða móðu í kringum okkur sem er mjög spennandi og leyndardómsfullt ástand þar sem enginn veit hverju hann getur átt von á, ekki einu sinni við sjálf."

    Don Juan verður ennfremur tíðrætt um það sem hann nefnir ,,einingarkennd". Samkvæmt útlistunum hans er í heiminum dularfull skipan sem flest fólk - einkum það sem gefur egói sínu og áhrifum algjöran forgang - skilur ekki. Eitt sinn þegar Castaneda drepur fyrir slysni kanínu, sem hann reynir að bjarga úr gildru, hughreystir Juan hann með þeim orðum að alheimslegur vilji hafi legið þar að baki. Kanínan hafi fórnað lífi sínu til þess að Castaneda mætti lifa.

      ,,Hann sagði mér að þau öfl er stýra mönnum eða dýrum hefðu leitt þessa sérstöku kanínu til mín, á sama máta og þau mundu leiða mig til míns eigin dauða. Hann sagði að dauði kanínunnar hefði verið gjöf til mín á nákvæmlega sama hátt og minn eigin dauði yrði gjöf til einhvers annars."

    Í iðnaðarsamfélögum samtímans er sú hugmyndafræði talin öllum öðrum æðri er kennir að maðurinn sé aðskilinn frá náttúrunni og að það sé hlutverk mannsins að gjörnýta hana purkunarlaust til eigin sérþarfa. Í heimsmynd indíána er á hinn bóginn gert ráð fyrir því að jörðin sé lifandi vera og að í náttúrunni ali aldur sinn máttugir andar sem örfáir einstaklingar (yfirleitt seiðmenn) geti gert að bandamönnum sínum og jafnokum. Slíkt er hins vegar eingöngu mögulegt þegar einstaklingurinn er orðinn nægilega auðmjúkur og ber einhlíta virðingu fyrir eigin takmörkunum. Fyrir bragðið kveður Don Juan ríkt á um mikilvægi þess að þroska með sér auðmýkt og samkennd með öllu er lífsanda dregur. Stöðugt minnir hann Castaneda á að jurtir séu í reynd jafningjar okkar.

    ,,Þegar allt kemur til alls," segir hann, ,,eru jurtirnar og við jafnokar. Hvorki við né þær eru þýðingarmeiri."

    Don Juan fjallar um nauðsyn þess að komast í kynni við eigin líkama. Maður, sem vill feta andlega þroskaleið, verður að læra að hlusta á hvernig líkaminn tjáir hug sinn. Don Juan segir:

    ,,Þegar þú vilt leiðbeina fólki verður þú að kynna mál þitt fyrir líkama þess. Það er einmitt það sem ég hef verið að gera hingað til hvað þig varðar; að fræða líkama þinn. Hverjum ætti ekki að standa á sama hvort þú skilur það sem ég hef að segja eða ekki. Spurningin, sem öllu máli skiptir, er hvort líkami þinn ræður fram úr því sem ég hef kennt þér."

    Í fyrstu trúði Carlos Castaneda því að sálhrifalyfin væru mikilvægur jafnvel ómissandi þáttur á þroskabraut særingamannsins. Síðar varð honum ljóst að huglyfin höfðu aðeins verið nauðsynleg vegna þess hve skilyrtur hann var í hugsun og mótaður í viðbrögðum og gjörðum. Lyfin voru fyrst og fremst notuð til að brjóta upp áunna reynslu. Að öðrum kosti hefðu Meskalító og aðrar verur andaheimsins aldrei náð að setja mark sitt á hann.

    Undir lok námsára sinna gat Castaneda látið af hefðbundinni skynjun sinni á heiminum án þess að þurfa að grípa til hugvíkkandi efna. Með orðum Don Juans varð Castaneda fyrr eða síðar að læra ,,að sjá", í stað þess eingöngu ,,að horfa" ef hann vildi um síðir vera fær um að upplifa heiminn á ferskan og nýstárlegan máta, án túlkana og fyrirfram gerðra hugmynda hugans. Fyrsti áfanginn í þeirri viðleitni að sjá heiminn eins og hann er í rauninni er að ,,stöðvað heiminn" og neminn stöðvar heiminn á því augnabliki þegar hann hættir að skoða veruleikann í ljósi þess sem honum hefur verið innrætt. Lyfin eru gagnleg að svo miklu leyti sem þau flýta fyrir þessu ferli.

    Endurnýjun vitundarinnar

    Vísindamenn, einkum dulsálfræðingar, hafa á undanförnum árum reynt að útskýra hvers eðlis sú vitundarreynsla er sem vart hefur orðið fyrir milligöngu sálhrifalyfja. Reynt hefur verið að leysa gátur þessa viðfangsefnis með kenningunni um aðlagað endurhvarf (adaptive regression). Orðið endurhvarf hefur jafnan verið notað í neikvæðri merkingu í sálfræði, það er þegar einstaklingurinn hrapar til baka vegna andlegs álags, til frumstæðara eða barnalegra þroskastigs. Í þessu samhengi er það hins vegar notað um jákvæða þróun í lífi einstaklingsins. Til að forðast misskilning nefna sumir sálfræðingar þetta ferli ,,endurhvarf í þágu egósins eða sjálfsins".

    Samkvæmt þessari kenningu er vitsmunalegt, rökfræðilegt hugsunarferli, sem er tíðkanlegur hugsunarmáti manna ,,efst" í vitundinni. Hið upprunalega, frumstæða grunnferli eða upphafspunktur hugsunarinnar er hins vegar til grundvallar eða ,,neðst". Undir áhrifum lyfja á sér stað endurhvarf athyglinnar til þessa frumstæða hugsunarferlis sem við vitum jafnan ekki af. Þetta aðlagaða endurhvarf verður jafnframt sýnilegt með skynjunarsviptingu, í draumum, í dásvefni og með iðkun hugleiðslu. Það þykir heilnæm og brýn tilbreyting frá hinu meðvitaða hugsunarferli sem hefur haft lamandi áhrif á frjálsa starfsemi dulvitundarinnar.

    Bandaríski sálfræðingurinn Arthur Deikman skýrir þessa tilfærslu hugarins til dýpri og upprunalegri hugsunarforma með hugtökunum sjálfvirkni (automatization) og afsjálfvirkni (deautomatization). Hann segir að í daglegu lífi mannsins læri útlimir, til dæmis hendur og fætur, að starfa sjálfkrafa. Í fyrstu, þegar við lærum einhvern verknað eins og til dæmis að aka bifreið, þurfum við að beina athyglinni óskiptri að hverri skynjun og athöfn. Því oftar sem við endurtökum sama verknaðinn þeim mun tamari verður hann okkur. Við getum raunar leyft huganum að reika þar eð skynfærin velja og skipuleggja nauðsynleg áhrif og útlimir starfa sjálfkrafa samkvæmt því. Þetta er greinilega mjög hagkvæmt fyrir framþróunina því á þann hátt sparast mikil hugarorka í önn og erli daglegs lífs. Afsjálfvirkni felur í sér vitundarlega endurnýjun, með umbreytingu eða upplausn sjálfvirkninnar sem verður þegar athyglinni er beint á nýjan leik að skynjunum okkar og athöfnum. Þannig verður sú sálarlega uppbygging sem skipuleggur, takmarkar, velur og túlkar áreiti ósjálfvirk og um leið óvélræn.

    Að hyggju Deikmans leiðir þessi framvinda til næmari varurðar sem dulspekingar öðlast þegar þeir ,,snúa aftur" til hlutveruleikans, líkt og þeir væru að sjá alla hluti í fyrsta sinn. Það ,,losar dulspekinga frá fastmótaðri skipulagningu sem þeir hafa byggt upp ár frá ári". Listamenna heyja til dæmis stöðuga rimmu til að koma í veg fyrir að hin sálarlega uppbygging, sem skipuleggur skynjanir þeirra, verði sjálfvirk. Dr. Deikman segir um þessa framvindu:

      ,,Þetta er ekki afturför heldur frekar að eitt mynstur er leyst í sundur til að gefa ferskari og ef til vill fyllri reynslu ráðrúm. Fljótakrabbinn brýtur utan af sér skel sína þegar hann þarfnast meira svigrúms til að vaxa. Dulspekingurinn getur jafnframt með iðkun hugleiðslu ýtt frá sér um tíma skel sjálfvirkrar hugsunar til þess að kynnast dýpri hliðum raunveruleikans. Áhrif sálhrifalyfja má ef til vill skilja þannig að þau leysi í sundur að einhverju leyti sjálfvirka skynjun og skilningsmyndun. Slík afsjálfvirkni, sem orðið hefur vegna ytri áhrifavalda, virðist skammærri og rista grynnra en sá árangur sem næst með langtíma innri viðleitni."

    ©Guðmundur Sigurfreyr Jónasson 1997


    Fara aftur á titilsíðu