1

    Inngangur

    Vímuefnanotkun og vandamál henni samfara virðast hafa fylgt mannkyninu frá upphafi siðmenningar. Frá öndverðu hafa menningarleg áhrif fíkniefna verið gífurleg, þar eð öldum saman hafa stór landsvæði verið notuð til hráefnaframleiðslu og heil héruð og jafnvel þjóðfélög treyst á fíkniefni sem lífsafkomu sína. Miklar fjárhæðir hafa verið notaðar til verkunar, dreifingar og endursölu á vímugjöfum og til að skapa viðeigandi umhverfi til fíkniefnaneyslu. Skatttekjum ýmissa ríkja af fíkniefnaframleiðslu og sölu þeirra er varið til alls frá heilbrigðisþjónustu til hergagnakaupa. Þannig hefur fíkniefnaneysla afgerandi áhrif á efnahag heimsins.

    Ógerningur er að komast að því hvenær fíkniefnaneysla hófst en hana er þó hægt að rekja allt aftur til Súmera hinna fornu er neyttu afbrigðis af berserkjasveppum. Í ævafornum helgiritum Indverja, Vedabókunum, segir af soma, er neytt var við trúarlegar athafnir og mikil helgi hvíldi yfir. Neysla ópíums til lækninga og sem vímugjafa hefur tíðkast um aldaraðir, einkum í Tyrklandi, Búrma, Laos og Taílandi. Indíánar Suður-Ameríku tuggðu tóbak eða kókablöð (sem kókaín er unnið úr) sér til andlegrar og líkamlegrar upplyftingar. Þannig gátu þeir ferðast langar vegalengdir og barist án þess að þarfnast matar, drykkjar eða hvíldar. Auk þess var neysla á yagé, drykki sem veldur ofskynjunum, ríkur þáttur í helgiathöfnum þeirra. Notkun sveppa sem vímugjafa hefur þekkst um langan aldur meðal Sama og ýmissa þjóða í norðurhéruðum Asíu. Vitað er að spáprestar Skýþa lögðust undir skinnfeld og drógu að sér reyk af glóðhituðu hassi áður en þeir leituðu goðsvara. Áfengisneysla á sér einnig langa og samfellda sögu.

    Mismunandi gildismat í afstöðunni til fíkniefna

    Nú á dögum eru vímugjafar notaðir í nær öllum þjóðfélögum, svo búast má við að þeir hafi þau áhrif að leysa ákveðin vandamál og uppfylla óskir, er fyrirfinnast í þjóðfélaginu. Áhrif vímugjafa verða mikilvæg, því að þau leiða til ánægjukenndar, slökunar og hjálpa mönnum til að gleyma erfiði og gráma hverdagslífsins. Ólík samfélög og ólíkir menningarkimar innan sama samfélags geta hins vegar haft mismunandi skoðun á því hvaða fíkniefni séu æskileg og hvernig best er að ná framangreindum markmiðum. Jafnframt getur afstaða almennings til ávana- og fíkniefna innan sama samfélags verið breytileg frá einum tíma til annars. Fólk fylgir yfirleitt ríkjandi viðmiðun samfélagsins en innan sérhvers samfélags myndast þó frávikshópar, sem gerast brotlegir við lög vegna þess að þeir kjósa önnur fíkniefni til að uppfylla þarfir sínar en þau sem lögboðin eru.

    Hér á landi eru flest geðhrifalyf, önnur en áfengi, tóbak og kaffi, litin hornauga af þorra manna. Neysla vímugjafa, er njóta ekki viðurkenningar löggjafans, getur haft í för með sér mannorðsmissir fyrir hlutaðeigandi, fjársektir og jafnvel fangelsisdóm ef upp kemst. Í sumum löndum múhameðstrúarmanna er neysla hass eða ópíums hins vegar leyfð eða látin óáreitt, á meðan einstaklingar er neyta áfengis geta átt von á því að verða kaghýddir á opinberum vettvangi. Almenningur í þessum ríkjum hefur að sjálfsögðu ríka samúð með refsingum af þessu tagi, enda áfengi talið ,,hættulegt eiturlyf" sem sporna verður við með öllum tiltækum ráðum.

    Þegar kaffi kom fyrst fram í Austurlöndum nær var sala þess bönnuð og kaffibirgðir gerðar upptækar og brenndar á báli. Þeir sem gerðust sekir um þá háskalegu iðju að drekka kaffi voru umsvifalaust keflaðir, settir á bak asna og leiddir um götur og torg, sér og fjölskyldu sinni til ævarandi smánar. Sömu sögu er að segja um tóbakið. Yfirvöld í ýmsum ríkjum Evrópu börðust hatrammlega gegn þeim ,,djöfullega ófögnuði sem tóbakið er" þegar neysla þess tók að skjóta rótum í gamla heiminum. Ekki þótti duga minna til en líflátsdómur yfir þeim sem gerðust sekir um tóbaksreykingar og er talið að tugir þúsunda manna hafi verið teknir af lífi af þeim sökum. Bannið gegn tóbaki og kaffi náði hins vegar ekki, fremur en viðurlög nútímans gegn neyslu ólöglegra fíkniefni, tilætluðum árangri. Stjórnvöld urðu því að venda kvæði sínu í kross og leyfðu nú ekki aðeins neyslu tóbaks og kaffis heldur tóku beinlínis að hvetja til hennar enda fjárhagslegur ávinningur af sölu þessara geðhrifalyfja gífurlegur.

    Fólk hefur ólíkar skoðanir á því hvað ber að flokka undir fíkniefni og flestir telja sig vera þess umkomna að geta dæmt um það hvað séu ,,góðir" eða ,,slæmir" vímugjafar. Afstaða manna er að öllu jöfnu hlutdræg og tekur fyrst og fremst mið af því hvaða fíkniefni viðkomandi hefur sjálfur ánetjast eða kýs að neyta sér til dægrastyttingar. Reykingamenn eiga margir hverjir erfitt með að sætta sig við þá staðreynd að þeir séu fíklar og að tóbaksframleiðendur séu fíkniefnasalar. Á sama hátt gera margir kaffineytendur sér ekki grein fyrir því að þeir eru háðir fíkniefni sem hefur örvandi verkun. Margir sem hafa að starfi að hindra neyslu og útbreiðslu óréttmætra fíkniefna þykir ekki óeðlilegt þótt þeir neyti áfengis í góðra vina hópi eða drekki sig ofurölvi ef svo ber undir. Þeim er mörgum hverjum ekki ljóst að áfengi er með sterkustu og hættulegustu vímugjöfum sem sögur fara af.

    Neytendur ólöglegra fíkniefna eru ekki síður fordómafullir en þeir sem telja sig hafa hreinan skjöld í fíkniefnamálum. Þegar blómabörn sjöunda áratugarins tóku að boða nýja öld, fyrir tilstilli mariúana og skynbreytandi efna á borð við LSD, höfnuðu þeir alfarið neyslu tóbaks, kaffis og áfengis, sem og neyslu annarra löglegra sem ólöglegra efna. Sumir neytendur amfetamíns eru fráhverfir hassneyslu, tala um ,,aulagas" í því sambandi, og kjósa fremur að neyta áfengis og róandi lyfja samhliða amfetamíni. Þeir sem taka MDMA eða alsælu fram yfir aðrar tegundir vímugjafa eru sumir hverjir andsnúnir áfengi og drekka heldur vatn eða appelsínusafa til að svala þorstann. Ekki er óalgengt að neytendur heróíns álíti skynörvandi lyf og kannabisefni hættuleg geðheilsu manna en telji sterk verkjadeyfandi lyf æskileg og gagnleg.

    Vegna þess að neysla sálhrifalyfja hefur gagnger áhrif á skynjun okkar og hugarástand og hvernig við hegðum okkur í samskiptum við annað fólk, er umræða um hana vandasöm, því hún endurspeglar oft ótta okkar eða þörf fyrir að réttlæta eigin gerðir. Hlutlaus umfjöllun um fíkniefni og fíkniefnamál er því torfundin. Jafnvel sérfræðingar í læknastétt og vísindamenn er láta sig þess mál varða fella oftsinnis dóma sem byggja ósjaldan á tilbúnum eða fyrirframgerðum forsendum. Röksemdir þeirra og dæmisögur eru ekki annað en skálkaskjól fyrir siðferðisleg og tilfinningaleg sjónarmið. Skiptir þá engu máli hvort sá sem í hlut á er að gagnrýna eða bera í bætifláka fyrir forboðin fíkniefni. Það sætir furðu hversu mikill hægðarleikur það er fyrir þá sem um þessi mál karpa að vitna í tölfræðilegar upplýsingar og ,,vísindalegar sannanir" máli sínu til stuðnings. Svo ekki sé minnst á fræðimenn og könnuði sem starfa fyrir lyfjaframleiðendur, meðferðarstofnanir og opinbera aðila og bókstaflega falsa niðurstöður vísindalegra rannsókna með hagsmuni launagreiðanda sinna að leiðarljósi.

    Baráttan gegn ólöglegum fíkniefnum

    Þrátt fyrir að rannsóknarmenn hafi orðið uppvísir að slíkum vinnubrögðum eru ,,niðurstöður" þeirra engu að síður hafðar til brúks þegar blásið er í herlúðra í óhvikulli baráttu stjórnvalda gegn neyslu og dreifingu ólöglegra fíkniefna. Námsefni og fræðsluerindi sem notuð eru við þjálfun fíkniefnalögreglumanna eru iðulega gegnsósa af lygum og ranghermum þegar kemur að því að upplýsa lögreglumenn um heilsufarslegar afleiðingar vegna neyslu ólöglegra vímugjafa. Þetta á einkum við umfjöllun um verkanir hass og mariúana, enda löngum verið erfitt að henda reiður á skaðsemi kannabisefna eða tilgreina ástæður sem réttlæta þann mannafla og þá gífurlegu fjármuni sem settur er til höfuðs þessa geðhrifalyfs.

    Í stríði hins almenna borgara gegn ólögmætum vímugjöfum eru ekki síður gripið til lúalegra aðferða þegar koma skal boðskapnum á framfæri enda þykir mörgum sem tilgangurinn helgi meðalið. Sjónvarpsauglýsing Samtaka um vímulausa Ameríku er gott dæmi um siðferðiskennd af þessum toga. Í upphafi auglýsingarnar mátti sjá mynd af rafbylgjum eðlilegrar heilastarfsemi og sagt að hún sýndi heilabylgjur heilbrigðs fjórtán ára unglings. Því næst var brugðið upp heilarafrit er sýndi skerta heilastarfsemi og fullyrt að þar ætti hins vegar í hlut fjórtán ára unglingur er reykti mariúana. Í reynd var um að ræða mynd af heilabylgjum fullorðins manns er var í dauðadái eftir alvarlegt umferðarslys. Þó svo að samtökin hafi orðið uppvís að þessum blekkingum héldu þau áfram uppteknum hætti og sýndu sjónvarpsauglýsinguna mánuðum saman eins og ekkert hefði í skorist!

    Bellibrögð þessum lík eru þó hégilja, auk heldur hlægileg, miðað við þær aðfarir sem stjórnvöld sumra vestrænna ríkja hafa tamið sér á undanförnum áratugum í baráttunni gegn bannfærðum fíkniefnum. Lögleysan og skrílsbragurinn sem þrífst í skjóli ráðandi laga um fíkniefni hefur tekið á sig einna skýrustu mynd í Bandaríkjunum hin síðari ár. Þar eru í gildi lög er heimila alríkisstjórninni að gera fasteignir og önnur verðmæti upptæk í tengslum við fíkniefnabrot jafnvel þótt lögmætur eigandi komi þar hvergi nærri. Nægilegt þykir ef eiginmaður, eiginkona eða börn viðkomandi eigi í hlut. Þessi lagaákvæði eru herfilega misnotuð enda hafa embættismenn stjórnarinnar hag af ósómanum því þeir fá þóknun í formi umboðslauna fyrir viðvikið.

    Fíkniefnalögreglumenn hafa þráfaldlega gert sig seka um tilefnislausar handtökur og ólögmætar aðgerðir við rannsóknir fíkniefnamála. Lögum samkvæmt er þeim heimilt að hneppa fólk í varðhald í 48 klukkustundir án ákæru. Ungar konur hafa einkum orðið fyrir barðinu á þessari lagaheimild og hafa sumar þeirra verið misnotaðar kynferðislega meðan á gæslunni stóð. Lögregluþjónar hafa einnig gert sig seka um alvarlegar líkamsmeiðingar, pyntingar og jafnvel morð í samskiptum sínum við fíkniefnaneytendur. Spilling er alvarlegt vandamál meðal fíkniefnalögreglumanna, sem neyta ekki aðeins ólöglegra fíkniefna heldur stunda sjálfir umfangsmikla fíkniefnasölu í sumum borgarhverfum. Einn fíkniefnalögreglumaður, sem kærður var fyrir að hvetja til fíkniefnaneyslu, réttlæti neyslu sína á kókaíni með þeim orðum ,,að hún væri nauðsynleg til þess að blanda geði við fólk í fíkniefnaheiminum".

    Á undanförnum misserum hefur gætt vaxandi efasemda um hvort að núverandi stefna í vímuefnamálum skili þeim árangri sem stefnt er að í baráttunni gegn notkun og útbreiðslu fíkniefna. Sívaxandi hópur Bandaríkjamanna, þ.á m. lögreglustjórar, ríkislögmenn, umdæmissaksóknarar og dómarar, vilja róttæka endurskoðun á gildandi lögum um fíkniefni og margir kveðið skýrt á um að tímabært sé að gefa sölu fíkniefna frjálsa. Stríðið gegn bannfærðum fíkniefnum hefur gersamlega brugðist og í reynd skapað víðtækari vanda en því var ætlað að leysa. Að þeirra mati hefur bannið á tilteknum vímugjöfum mun meiri skaða í för með sér en neysla efnanna sjálfra. Umræða um ávana- og fíkniefni hefur einnig tekið töluverðum stakkaskiptum í Evrópu og hafa yfirvöld í nokkrum löndum komið til móts við breytt viðhorf og nýjar áherslur í fíkniefnamálum.

    Ávana- og fíkniefnamál á Íslandi

    Á Íslandi hefur vitræn umræða um ávana- og fíkniefni átt erfitt uppdráttar. Umfjöllun um fíkniefnamál hefur einkum einkennst af upphrópunum og tímabundnu óðagoti einstakra félagasamtaka er vilja nota ótta almennings við fíkniefni sér til framdráttar og í fjáröflunarskyni. Fjölmiðlar, einkum dagblöð og tímarit, hafa sömuleiðis alið á vandlætingu og hneykslunargirni í garð ólöglegra vímugjafa og neytenda þeirra, enda æsifréttir hentug leið til að auka söluna. Enginn greinarmunur hefur verið gerður á mismunandi tegundum ólögmætra fíkniefna. Öll eru þau flokkuð sem ,,eiturlyf" og neytendur þeirra úthrópaðir sem ,,eiturlyfjaneytendur". Sjálft orðið ,,eiturlyf", sem á sér enga samsvörun í öðrum tungumálum svo mér sé kunnugt um, sýnir í hnotskurn fábjánaháttinn sem ríkir í þessum málum hér á landi. Fyrri hlutinn ,,eitur" stendur fyrir það sem deyðir en seinni hlutinn ,,lyf" það sem læknar eða líknar. Hugtakið ,,eiturlyf" felur því í sér ósættanlega mótsögn enda orðskrípi sem þjónar engum tilgangi öðrum en að gera lítið úr þeim sem kjósa að neyta ólöglegra vímuefna. Sölumenn og innflutningsaðilar kannabisefna eru ósjaldan kallaðir ,,sölumenn dauðans", þó öllum sem kynna sér þessi mál ætti að vera kunnugt að kannabis, ólíkt t.d. tóbaki og áfengi, veldur ekki banvænum eitrunum hjá mönnum.

    Fræðsluefni í forvarnarstarfi inniheldur nær undantekningarlaust rangfærslur um ólögleg fíkniefni, enda virðist tilgangurinn vera fyrst og fremst sá að reka áróður fyrir ákveðnum sjónarmiðum, fremur en að upplýsa fólk um verkun og afleiðingar notkunar og misnotkunar fíkniefna. Hér á landi eru einnig fjölmörg dæmi um það hvernig almenn mannréttindi og virðing fyrir mannhelgi og friðhelgi heimilisins eru að engu höfð af starfsmönnum fíkniefnadeildar lögreglunnar. Einstaklingar sem þurfa að þola slíka niðurlægingu þekkja yfirleitt ekki rétt sinn og þótt þeir leiti til lögmanna eða fjölmiðla með umkvörtunarefni sín eru undirtektir dræmar, því í augum margra Íslendinga eiga ,,neytendur eiturlyfja" enga samúð skilið.

    Markmið höfundar

    Breyttar áherslur í meðferð fíkniefnamála í Evrópu og Bandaríkjunum verður að öllum líkindum til að ábyrg og skynsamleg umræða um vímuefni og vímuefnavarnir finnur sér farveg hér á landi sem annars staðar. Vissulega er þessi bók hugsuð sem eitt lítið skref í þá átt. Í umræðu um grundvallaratriði í ávana- og fíkniefnamálum verður að taka mið af traustum, vísindalegum heimildum, er byggja á óhlutdrægni og uppfylla kröfur um gagnrýnin vinnubrögð. Siðferðislegt mat, sleggjudómar eða óskhyggja á ekki heima í umfjöllun um jafn vandmeðfarin mál og ávana- og fíkniefni eru. Þegar til lengra tíma er litið þá geta misvísandi upplýsingar gert meira ógagn en gagn, jafnvel þótt markmiðið sé að hræða fólk frá því að prófa ólögleg fíkniefni. Þeir sem leita sér upplýsinga um langtímaáhrif fíkniefna- og lyfja verða að geta treyst því að fræðimenn felli dóma sem byggja á vísindalegum niðurstöðum en ekki persónulegri eða siðferðislegri viðmiðun.

    Markmið höfundar er því ekki að gera lesandanum til hæfis heldur skýra hlutlaust frá staðreyndum er varða fíkniefni og fíkniefnaneyslu, og verður það gert án tillits til þess hversu óþægilegar eða óheppilegar þær kunni að þykja. Höfundur er sannfærður um að einstök vímuefni séu í eðli sínu, hvorki góð né slæm, heldur öllu fremur öflug og áhrifamikil efnasambönd sem hægt er að nota bæði til eflingar og niðurrifs.

    Tilgangur bókarinnar er hvorki að letja né hvetja fólk til neyslu nokkurs vímugjafa, réttmæts sem óréttmæts, enda höfundur þeirrar skoðunar að þeir sem á annað borð hafa tekið ákvörðun um að neyta tiltekins fíkniefnis, geri það burtséð frá því hvað einn eða annar hefur um það að segja. Af þeirri ástæðu er áríðandi að upplýsa fólk, einkum yngri kynslóðina, um áhrif, einkenni og afleiðingar algengustu sálhrifalyfja og hvernig forðast megi hætturnar sem samfara eru neyslu þeirra. Einnig verður fjallað um aðferðir sem einstaklingum, er vilja breyta um vitundarástand án þess að grípa til lyfja, stendur til boða og á hvern hátt yfirvöld geta dregið úr persónulegri og félagslegri skaðsemi fíkniefnaneyslu.

    ©Guðmundur Sigurfreyr Jónasson 1997


    Fara aftur á titilsíðu