Heildræn heilsufræði

    Á síðastliðnum tveimur áratugum hefur átt sér stað víðtæk endurskoðun á ýmsum þáttum heilbrigðismála nútímans. Ein af mörgum afleiðingum þessa endurmats er stefna innan heilsufræðinnar sem nefnd hefur verið heildræn heilsufræði (holistic health). Innan vébanda hennar má finna margvíslegar lækningaraðferðir af ólíkum uppruna, sumar ævafornar. Nálastungulækningar, heilun, dáleiðsla, lífefli, makróbíótik, nudd, tónlistarlækningar, Alexandertækni, slökun og Gestalt-sálarfræði eru dæmi um lækningaleiðir innan ramma heildrænnar heilsufræði.

    Eitt af einkennum vestrænnar læknisfræði er sú grundvallarskoðun eða trú að hugur mannsins og líkami séu á einhvern hátt aðskilin fyrirbæri. Talsmenn heildrænnar heilsufræði hafna þessu viðhorfi og líta á manninn sem samverkandi heild huga, líkama, tilfinninga og andlegra þátta. Þeir álíta að orsaka sjúkdóma sé ekki einvörðungu að leita í vefjum eða sýklum líkamans heldur einnig í tilfinningalífi, hugafari og félagslegu umhverfi einstaklingsins. Vitað er að stór hluti af sjúkdómum samtímans á sér sállíkamlegar orsakir. Sumir vísindamenn vilja staðhæfa að 90 prósent af algengustu sjúkdómum megi rekja til sálrænna þátta.

    Leiðir til sjálfslækninga

    Heildræn heilsufræði kennir að aukning alls konar sálrænna og líkamlegra sjúkdóma standi að hluta til í sambandi við hraða og streitu lifnaðarhátta í menningu nútímans. Þá er ekki eingöngu átt við óheilbrigða lifnaðarhætti hvað varðar skort á útiveru, hollu fæði og hreyfingarleysi heldur einnig tilfinningalega og félagslega þætti. Vöntun á ást, mannlegri hlýju og góðum félagslegum tengslum getur þannig leitt til líkamlegra sjúkdómseinkenna. Heildræn heilsufræði bendir á að áhrifamáttur hugans til lækninga hafi lítið sem ekkert verið notaður. Hún telur að möguleikar mannsins í þá veru að hafa áhrif á eigin bata séu meiri en margir sjúklingar geri sér grein fyrir.

    Þeir sem starfa á sviði heildrænna lækninga álíta að leggja þurfi meiri áherslu á að fyrirbyggja sjúkdóma og leita orsaka þeirra fremur en að fást eingöngu við sjúkdómseinkennin þegar þau koma fram. Ýmsir sem starfa á þessum vettvangi leggja einnig til að tryggja beri ekki aðeins almenna heilbrigði heldur efla það sem nefnt hefur verið ofurheilbrigði (meta health). Þetta þýðir að farið er handan við almenna heilbrigði með því að styrkja stöðugt heilsuna með til dæmis líkamsrækt, iðkun lífeflisæfinga, hugleiðslu eða öðrum sálvaxtarleiðum. Sumir kenna sjúklingum sínum aðferðir til sjálfslækninga.

    Annað sem einkennir þessa nýju heilsufræði er víðsýni gagnvart lækningaraðferðum annarra menningarsamfélaga. Ýmsir frammámenn innan hennar beita ekki aðeins fimm þúsund ára gömlum nálastungulækningum Forn-Kínverja eða aðferðum úr jóga heldur leita jafnframt í smiðju til töfralækna frumbyggja Ástralíu eða indíána Norður-Ameríku. Föstur og heilun með hjálp kristalla eru dæmi um lækningaraðferðir af þessu tagi.

    Náttúrulyf

    Margir sem aðhyllast heildræna stefnu í heilbrigðismálum telja farsælast að nota jurtalyf og aðrar náttúrlegar aðferðir við meðhöndlun sjúkdóma. Þó skal tekið fram að hér er alls ekki um öfgastefnu að ræða sem útilokar venjuleg lyf eða aðrar hefðbundnar læknisaðferðir yfirhöfuð. Læknar og aðrir aðilar heilbrigðisstéttanna, sem aðhyllast þessa stefnu, nota báðar aðferðir jöfnum höndum eftir því hvað á við hverju sinni. Þeir gagnrýna hins vegar ýmsa öfugþróun í heilbrigðiskerfinu eins og náin tengsl lækna við lyfjaframleiðendur, gegndarlausa lyfjanotkun og ómanneskjulega þætti í stjórnun nútímasjúkrahúsa.

    Eitt af alvarlegustu vandamálum læknisfræðinnar eru svonefndir íatrogenískir sjúkdómar sem stafa beinlínis af rangri meðhöndlun lækna. Hér er um að ræða ranga lyfjagjöf, aukaverkanir lyfja eða annarrar meðferðar og mistök í skurðlækningum. Athuganir hafa jafnframt leit í ljós að dvöl á sjúkrahúsum getur í sumum tilvikum beinlínis haft neikvæð áhrif á heilsu manna. Það eru þessir neikvæðu þættir í heilbrigðiskerfinu sem talsmenn heildrænnar heilsufræði telja að þurfi breytingar við.

    Heildrænar lækningar

    Hér verður getið nokkurra aðferða sem flokkast undir heildræna heilsufræði. Sumar þeirra eru ekki eingöngu notaðar til lækninga heldur stundaðar af heilbrigðu fólki sem vill vaxa frá takmörkunum sínum í átt til birtingar hæfileika sinna og möguleika. Talsmenn heildrænnar heilsufræði segja að í hverjum manni séu að verki öfl sem miða að vitundaropnun og sálrænum þroska. Listin felst einfaldlega í því að finna þessa sjálfkvæmu framvindu og ná tökum á henni til að geta meðvitað hjálpað henni í þá átt sem hún vill fara.

    Alexandertæknin

    Andleg og líkamleg velferð okkar er að miklu leyti háð því hvernig vð notum eða misnotum líkamann. Slæm líkamsstelling eða röng beiting vöðvakerfisins getur verið meginástæðan fyrir mörgum kvillum eins og til dæmis bakveiki, liðagigt, höfuðverk og streitu. Á fullorðnisárum hafa margir tamið sér óheppilega líkamsstöðu sem veldur sálrænni og líkamlegri þreytu. Við höfum tilhneigingu til að skapa misræmi í líkamanum. Margir fetta til dæmis bakið, sveigja hálsinn fram, lyfta öxlum eða beita líkamanum á annan hátt óeðlilega. Öll getum við séð muninn á líkamlegum yndisþokka heilbrigðs barns sem hreyfir sig án áreynslu og fullorðnum mann sem gengur lotinn í baki.

    Alexandertæknin er kennd við upphafsmann hennar, F. M. Alexander. Hann var leikari að atvinnu og var uppi á fyrri hluta þessarar aldar. Alexander þróaði þessa leiðréttingaraðferð sem svar við alvarlegum sjúkdómi sem hann átti í höggi við. Aðferðin byggist á þeirri uppgötvun að misræmi í stöðu höfuðsins, hálsins og axlanna (sem er nær undantekningarlaust einkenni nútímamannsins) veldur misbeitingu alls vöðvakerfisins. Alexandertæknin er sniðin til þess að kenna fólki að nota líkamann á betri og meðvitaðri hátt. Þetta þýðir meðvitund um hvernig við notum líkamann þegar við stöndum, sitjum, göngum, hlaupum, bæði í leik og starfi. Meginmarkmið leiðbeinanda í Alexandertækninni er að gefa nemandanum endurtekna tilfinningu fyrir því í hverju góð beiting líkamans felst. Þannig má smám saman venja vöðvakerfið á að starfa á eðlilegri máta.

    Alexandertæknin nýtur mikilla vinsælda víða um heim, ekki síst meðal leikara og tónlistarfólks. Hún er í mörgum tilfellum orðin fastur liður í menntun sumra leikara og tónlistarmanna á Vesturlöndum. Þegar Nikolaas Tinbergen fékk nóbelsverðlaun í læknisfræði árið 1973 fjallaði hann um Alexanderaðferðina í ræðu sem hann hélt við það tækifæri. Tinbergen fullyrti að með Alexanderaðferðinni væri hægt að lækna of háan blóðþrýsting, svefntruflanir, andarteppu, draga verulega úr vöðvagigt, mígreni og ráða bót á kynlífstruflunum. Hann skýrði einnig frá því að Alexandertæknin væri hjálpleg við þunglyndi og hefði almennt bætandi áhrif á geðástand og tilfinningalíf. Alexanderaðferðin er sögð hjálpa fólki við að losna úr viðjum vöðvaspennu. Hún bætir líkamsstellingu einstaklingsins og eykur þannig fegurð og samhæfingu líkamans.

    Betri sjón án gleraugna

    Árið 1919 kom út í Bandaríkjunum bók sem ber heitið "Better Eyesight Without Glasses" og er eftir bandaríska augnlækninn W. H. Bates. Þessi bók olli miklu fjaðrafoki meðal augnlækna og gleraugnasala því höfundurinn hélt því fram að hægt væri að lækna bæði nærsýni, fjarsýni og sjónskeggju með daglegri iðkun vissra augnæfinga. Dr. Bates gat jafnframt sýnt fram á gildi kenninga sinna með því að benda á fjöldann allan af einstaklingum sem höfðu undir handleiðslu hans náð þeim árangri að þurfa ekki lengur að nota gleraugu eða í það minnsta minnkað notkun þeirra verulega.

    Síðan hafa þúsundir einstaklinga um heim allan staðfest kenningar hans með því að bæta sjón sína á náttúrlegan hátt með einföldum en áhrifaríkum augnæfingum. Vísindalegar rannsóknir í Bandaríkjunum hafa ennfremur rennt stoðum undir uppgötvanir hans. Þrátt fyrir að þetta augnæfingakerfi hafi verið við lýði í rúmlega sjötíu ár benda augnlæknar viðskiptavinum sínum ennþá á gleraugu eins og ekkert annað sé til úrbóta. Þannig gera þeir í sumum tilvikum ógagn, einkum þegar um er að ræða ungt fólk sem hefur góða möguleika á að þjálfa augun til betri sjónar.

    Síðan W.H. Bates kynnti fyrst augnæfingar sínar hafa þær verið endurbættar á ýmsa vegu og öðrum æfingum bætt við sem taka ekki eingöngu til augnanna heldur alls líkamans. Þannig notar til dæmis bandaríski sálfræðingurinn Charles Kelley ýmsar aðferðir úr lífeflissálfræði Wilhelms Reich, sem miða að því að draga úr vöðvaspennu, dýpka öndunina og tjá innibyrgðar tilfinningar. Kelley heldur því fram að orsaka augntruflanna sé að leita í bældum tilfinningum úr bernsku. Samkvæmt reynslu hans tengist innibyrgður ótti fjarsýni en hamin reiði þeim einstaklingum er þjást af nærsýni. Kelley hefur einnig bent á hvernig ýmis önnur skapgerðareinkenni og vöðvabynja, eins og til dæmis ákveðin beiting háls og höfuðs og sálræn úrvinnsla í bernsku, einkenni þá einstaklinga sem eiga við fjarsýni og nærsýni að stríða.

    Tónlistarlækningar

    Tónlist er annað og meira en afþreying. Hún er bæði mótandi og líknandi. Hún er ein sú elsta list - mystísk og nærfærin í senn - er leiðir til friðar. Tónlist er vísindi geðhrifa, stjórn geðshræringa, beitt við trúarlegar athafnir og jafnan mikil stoð á andlegri þroskabraut. Við andlega iðkun hefur tónlist löngum verið beitt sem leið til sjálfþekkingar. Hljómlistin hrífur mann á marga vegu og í ýmsar áttir - ýmist hvetjandi eða letjandi. Geðlæknar, sálfræðingar og aðrir sem vinna á sviði heilbrigðismála hafa á síðustu árum fengið vaxandi áhuga á lækningamætti hljómlistar. Vísindamenn hafa leitt í ljós að lífleg tónlist eykur blóðstreymi til heilans. Einnig er ljóst að tónlist getur haft áhrif á hvaða rafbylgjur heilinn framleiðir, geðsveiflur og tilfinningalega upplifun. Samkvæmt þessu er ekki ólíklegt að tónlist geti breytt vitunarástandi með verkunum á hinu líffræðilega sviði.

    Ein af þeim sem reynt hafa að kanna á kerfisbundinn hátt samband tónlistar og breytts vitundarástands er Helen Bonny er starfar í Baltimore í Bandaríkjunum. Hún byggir athuganir sínar á meginreglum tónlistarlækninga (að tónlist geti verkað á skap og vitund) en tengir þær uppgötvunum hinnar yfirpersónulegu sálarfræði (transpersonal psychology). Bonny lætur fólk slaka á og hlusta á sérstaklega valda klassíska hljómlist og með aðstoð hennar framkallar það ímyndaðan hugarheim. Fólkinu er kennt að ímynda sér senu eða jafnvel ferðalag. Stýrð ímyndun af þessu getur verkað mjög bætandi og kallað fram hrifningarástand. Helen Bonny hefur í rannsóknarsrarfi sínu þróað mismunandi tónlistardagskrá sem hver hefur um sig miðað að því að leysa úr læðingi ákveðnar tegundir sálrænnar reynslu. Þar á meðal má nefna tónlist til þess að auðga ímyndunaraflið, til að vekja jákvæðar tilfinningar, til tilfinningarlegrar útrásar, huggandi tónlist, háleita tónlist ogfleira. Sumir sem tekið hafa þátt í þessum æfingum segja að tónlistin hafi framkallað sálfarir - þeir hafi svifið út úr líkamanum - jafnvel "samruna við guðdóminn", "alheimsvitundarástand" eða annars konar reynslu sem heyrir undir yfirskilvitlega eða trúarlega upplifun.

    Heilun

    Ef litið er á sögu mannkynsins má finna mörg dæmi um að einhvers konar andlegar lækningar hafi verið stundaðar á öllum tímum meðal flestra þjóða. Þó að læknavísindum samtímans hafi fleytt mikið fram frá því sem áður var eru enn til einstaklingar sem leggja fyrir sig dulrænar lækningar, oft með ótrúlegum árangri. Þessi læknendur störfuðu lengst af í kyrrþey til þess að verða ekki fyrir aðkasti þeirra sem töldu iðju þeirra tóma vitleysu og einbert kukl. Ótvíræður árangur dulrænna lækninga verður hins vegar ekki skýrður með þessu móti og hefur vakið áhuga ýmissa vísindamanna sem hafa í sívaxandi mæli leitað skýringa á þessu fyrirbæri með rannsóknum og tilraunum. Enginn haldbær skýring hefur enn sem komið er fundist en árangur andlegra lækninga í jafnvel erfiðum sjúkdómstilfellum verður hins vegar ekki dregin í efa.

    Nudd

    Nudd í heilsuræktarskyni fyrirfinnst í sérhverri menningu sem viðtekinn þáttur í heilsuvernd. Hippókrates, faðir vestrænnar lyfjafræði, áleit nudd skipta höfuðmáli í sérhverju heilbrigðiskerfi. Einnig hrósuðu Gallilíumenn og Rómverjar óspart gagnsemi nuddsins. Sænskt nudd er fyrsta kerfisbundna nuddaðferðin sem þróuð var á Vesturlöndum. Þessi nuddaðferð var upprunalega þróuð af sænskum skylmingameistara á seinni hluta 18. aldar. Það byggir á nuddi, sem stundað var af evrópsku alþýðufólki, austrænum aðferðum frá botni Miðjarðarhafs og ört vaxandi þekkingu á líffærafræði og lífeðlisfræði á þessum tíma. Í sænsku nuddi er hver einstök meðhöndlun álitin hafa sín sérstöku áhrif. Eitt meginmarkmið þessarar aðferðar er að losa um súrefnissnautt blóð og eiturefni sem safnast hafa þar fyrir. Þannig eykur nuddið hringrás blóðsins og hreinsar innri líffæri án þess að auka álag á hjartað. Það losar um strengdar sinar og spennta vöðva líkamans. Sænskt nudd örvar einnig efnaskipti líkamans á sama tíma og það hefur slakandi áhrif á taugakerfið.

    Blómameðul Bachs

    Meðal þeirra aðferða er flokkast undir heildræna heilsufræði eru blómameðul Bachs (Bach Flower Remedies). Upphafsmaður þessara jurtalækninga var breski læknirinn Edward Bach. Dr. Bach varð fyrir vonbrigðum með vestrænar háskólalækningar því að hann vildi geta fundið og fjarlægt orsök sjúkdómsins í stað þess að blína eingöngu á sjúkdómseinkennin. Í leit sinni að grunnorsök sjúkdóma tók hann að athuga tengsl tilfinningalífs, hugarástands og líkamlegra kvilla. Hann varð sannfærður um að orsakir algengustu veikinda væru oftar en ekki tilfinningalegs eðlis. Bach fór að leita að aðferðum til að lækna meinsemdir sem spruttu úr dýpri jarðveg sálarlífsins. Í upphafi notaði hann hómópatalyf en var ekki alls kostar ánægður með árangurinn.

    Þegar hér var komið sögu hafði dr. Bach þróað með sér hæfileikann til að skynja orkusvið, bæði plantna, manna og dýra. Honum flaug í hug hvort ekki væri hægt að nota þessa gáfu til þess að finna jurtir sem hefðu læknandi eiginleika. Hann uppgötvaði að með því að halda hendinni yfir blómi gat hann sagt til um úr hvaða neikvæðu tilfinningaafstöðu blómið gæti bætt. Með tímanum valdi dr. Bach þrjátíu og átta mismunandi sem hann taldi að nota mætti í þessum tilgangi. Blómin voru lögð í skál og látin standa í sólarljósi í nokkrar klukkustundir. Sólarljósið flutti lífsorku blómanna yfir í vatnið sem síðan var notað til að meðhöndla neikvæða þætti sálarlífsins.

    Dr. Bach sagði um uppruna sjúkdóma:

    ,,Sjúkdómur er í sjálfu sér afleiðing átaka milli sálar og huga - á meðan sál okkar og persónuleiki hljóma saman er allt ljúft og friðsælt, hamingja og heilbrigði. Það er ekki fyrr en persónuleiki okkar er tældur burt af brautinni sem sálin hefur markað honum, annaðhvort af heimsins fýsnum eða með fortölum annarra, sem átökin upphefjast."

    Blómameðul Bachs virðast stuðla að því að dulin tilfinningaleg spenna komi upp á yfirborðið. Fólki er gert kleift að upplifa rætur vandans og láta þannig af sjúkdómseinkennunum.

    Lífeflissálfræði

    Því uppeldi sem margir hljóta fylgir oft bæling á tilfinningum sem ekki er hægt að gefa lausan tauminn. Þetta hefur jafnframt slæm áhrif á líkamann því vöðvakerfið er oft notað sem hemlakerfi til að stöðva framrás tilfinninga. Með því að hemja öndunina og spenna vöðva, sem hafa mest með tjáningu tilfinninga að gera, er hægt að byrgja þær inni, oftast á kosnað heilbrigði og hamingju. Hvorki slökun né almenn jógaiðkun getur bætt úr þessu því þær aðferðir grafa ekki upp rætur vandans, sem liggja í bernskureynslu einstaklings, samskiptum innan fjöldskyldunnar og ómeðvitaðri tilfinningaspennu. Það þarf að leyfa hinum bældu tilfinningum að streyma hindrunarlaust upp á yfirborðið.

    Austurríski geðlæknirinn Wilhelm Reich þróaði gagnmerkt sállækninga- og sálþróunarkerfi sem gerði einmitt þetta. Með sérstökum hreyfingum, nuddi, öndun o.fl. sýndi hann hvernig hægt var að losa um djúpstæða vöðvaspennu og stuðla að útrás innibyrgðra tilfinningu. Eftir dauða Reich þróuðu samstarfsmenn hans og ýmsir lærisveinar kenningar hans og aðferðir í ýmsar áttir undir ýmsum nöfnum. Meðal þeirra fremstu má nefna Alexander Lowen, höfund líforkulækninga (Bioenergetic Theraphy), Charles Kelley sem er höfundur Radix, David Boadella sem nefnir aðferðir sínar lífheildun (Biosynthesis), Stanley Keleman og John Pierrakos. Það sem þessir menn hafa þegið frá Wilhelm Reich er meðal annars áherslu á samverkun sálar og líkama og tengsl hinnar líffræðilegu orku við líkamsástand og tilfinningaleg viðbrögð.

    Flestir þeirra hafa, ólíkt Reich, hins vegar unnið með hópa og notfært sér þannig möguleika venjulegs fólks til að hafa jákvæð áhrif á hvert annað. Þeir hafa ýmist hafnað eða fært út landamæri hins læknisfræðilega líkans sem notar hugtök eins og ,,sérfræðingur" og ,,sjúklingur" og gerir skýran greinarmun á því sem talið er ,,heilbrigt" og ,,sjúklegt". Þess í stað hafa þeir orðið fyrir áhrifum frá mannhyggjusálfræðinni (humanistic psychology) sem leitar handan við þyrrking og áhugaleysi hefðbundinnar sálfræði, að leiðum og aðferðum til að virkja þá geysilegu möguleika er að búa með manninum. Spurn hennar um hið rétta eðli mannsins leitar ekki svara í töflum, línuritum og véltækni heldur byggist á rannsóknum á sálrænum eiginleikum og þörfum sem gera manninn einstæðan meðal lífvera.

    Lífeflissálfræðin, sem er samheiti yfir þær sállíkamlegu aðferðir sem vaxið hafa upp úr verkum og starfi Wilhelms Reich, tekur þess vegna ekki eingöngu veikt fólk til meðferðar heldur ýmsa sem finnst þeir þurfa að kynnast sjálfum sér betur. Í formi námskeiða fyrir eðlilegt fólk er unnið með ýmsar aðferðir sem miða að því að veita bældum tilfinningum jákvæða útrás, auka sjálfskennd samfara líkamlegri vellíðan. Námskeiðin æfa fólk í því að tjá sig af hreinskilni og geta aukið innsýn þátttakenda í eigið sálarlíf. Enginn skyldi þó halda að slík námskeið leysi allan vanda heldur ber að skoða þau eins og tilveruna yfirleitt sem skref í átt að meiri þroska.


    Fara aftur á heimasíðu