Holdleg munúð & rætur ofbeldis

    Ætla má af upplýsingum og umfjöllun fjölmiðla síðustu misseri að ofbeldi sé orðið alvarlegt vandamál í íslensku samfélagi. Hér er ekki einvörðungu átt við árásir, limlestingar og önnur ofbeldisverk á götum úti heldur einnig ofbeldi sem tíðkast innan veggja heimilanna. Nauðganir, sifjaspell, misþyrmingar á börnum og gamalmennum eru dæmi um skuggabaldra íslenskrar samtíðar.

    Nema því aðeins að okkur takist að gera okkur grein fyrir orsökum ofbeldis og vega að rótum þess verðum við áfram að lifa í veröld ótta og áhættu. Margir löggæslumenn mæla með hörkulegri lögregluaðgerðum til þess að leigja ofbeldinu jörð en fangelsanir - hin viðtekna aðferð gegn glæpum - koma ekki að tilætluðum notum því orsakanna er að leita í gildismati okkar og uppeldisvenjum. Líkamlegar refsingar ásamt kvikmyndum sem dásama ofbeldi í sjónvarpi og kvikmyndahúsum kenna ungu fólki að líta á valdbeitingu sem eðlilega. Þó er slík reynsla á æskuskeiði ekki eina, jafnvel ekki helsta, orsök ofbeldishneigðar. Nýlegar rannsóknir benda eindregið til þess að svipting eða skortur á líkamlegri ánægju sé meginástæða ofbeldisverka.

    Skortur á snertingu leiðir til ofbeldis

    Sálfræðingar og barnageðlæknar hafa löngum álitið að rekja megi margvíslega afbrigðilega hegðun jafnt á hinu félagslega sem tilfinningalega sviði til skorts á ástúð og umhyggju í bernsku. Á síðustu árum hafa ýmsir vísindamenn sannfærst um að slík tilvik eigi að jafnaði rót sína að rekja til skorts á einni sérstakri tegund skynreynslu - þeirri sem nefnt er somatosensory á máli fræðimanna. Orðhlutinn somato er dreginn af grísku orði sem merkir líkami. Síðari hlutinn sensory, stendur fyrir það sem lýtur að skynjun. Þetta hugtak vísar til þeirra kennda eða tilfinninga sem líkamleg snerting vekur og hlutdeild annarra skynfæra, það er sjónar, heyrnar, lyktar og bragðs, er ekki tekin með. Þeir álíta að skortur á tækifærum til snertingar sé veigamesta ástæðan fyrir margs konar tilfinningalegum truflunum, þar á meðal fyrir þunglyndi, afbrigðilegri kynhegðun, ofneyslu vímugjafa og ofbeldis- og árásarhneigð.

    Þessi ályktun er meðal annars dregin af niðurstöðum rannsókna Harry F. og Margretar K. Harlows við háskólann í Wisconsin í Bandaríkjunum. Harlow-hjónin og samstarfsmenn þeirra skildu apaungviði frá mæðrum sínum strax eftir fæðingu. Apaungarnir voru síðan hafðir einir í búrum sem komið var fyrir í sal þar sem þeir gátu séð hver til annars, heyrt og fundið lykt en ekki snert hver annan. Þessi rannsókn, svo og aðrar sams konar, gefur eindregið til kynna að það sé vöntun á snertingu - ekki hömlun annarra skynjana - sem veldur afbrigðilegri hegðun og brengluðu tilfinningalífi hjá dýrum. Það er jafnframt alkunna að börn, kornabörn sem eldri börn, er verða að dveljast á stofnunum um skeið, þar sem þau skortir líkamssnertingu, temja sér næstum ámóta afbrigðilega hátterni, eins og óeðlilegt rugg, högg og barsmíðar.

    Ofbeldi og kynferðisleg ófullnægja

    Þótt sjúkleg ofbeldishneigð meðal apa, sem aldir hafa verið upp án snertingar, sé alþekkt og traustlega staðfest fyrirbæri er minna vitað um sambandið milli vöntunar líkamssnertingar hjá börnum og ofbeldishneigðar þeirra. Fjölmargar rannsóknir á afbrotaunglingum og fullorðnum glæpamönnum benda á uppleyst heimili, vanrækslu foreldranna og illa meðhöndlun sem undirrót ógæfunnar.

    Óvanaleg rannsókn í þessum efnum var framkvæmd af bandarísku sálfræðingunum Brandt F. Steele og C.B. Pollock við háskólann í Colorado. Þeir könnuðu ættliði þar sem viðgengist hafði í þrjár kynslóðir að börnum væri misþyrmt. Sálfræðingarnir komust að þeirri niðurstöðu að þeir foreldrar, sem misþyrma börnum sínum, hafi sjálfir undantekningarlaust farið varhluta af líkamlegri ástúð í bernsku og ennfremur að kynlíf þessara sömu foreldra væri fram úr hófi fátítt og gleðisnautt. Steele uppgötvaði að þær mæður sem misþyrma börnum sínum hefðu nær undantekningarlaust aldrei notið kynferðislegrar fullnægingar. Ekki kom fram í rannsókninni hvernig kynferðislegri fullnægingu þeirra feðra sem misþyrma börnum sínum var háttað en í ljós kom að þeir tóku bjórþamb og sjónvarpsgláp að jafnaði frammyfir kynferðislega ánægju.

    Blíða dregur úr ofbeldi og glæpum

    Sú tilgáta að vöntun á líkamlegri munúð leiði til ofbeldishneigðar síðar á ævinni gaf bandaríska taugasálfræðingnum James W. Prescott tilefni til kerfisbundinna rannsókna. Tilgátuna vildi hann prófa með því að kanna hvernig barnauppeldi, kynhegðun og ofbeldi er farið hjá hinum ýmsu þjóðflokkum og menningarsamfélögum. Samkvæmt tilgátunni má gera ráð fyrir því að hjá þeim þjóðflokkum þar sem börnum er sýnd mikil líkamleg ástúð tíðkist minna ofbeldi heldur en hjá þjóðflokkum þar sem þessu er öfugt farið. Einnig mætti búast við minna ofbeldi hjá þjóðflokkum sem umbera eða leyfa kynlíf fyrir og utan hjónabands en þar sem slíkt er bannað og refsað ef upp kemst.

    Mannfræðingar hafa safnað nægilegu efni til að ganga megi úr skugga um sannleiksgildi tilgátunnar og kannaði Prescott fjörutíu og níu þjóðflokka í þessum tilgangi. Ákveðin atriði er varða líkamlegt ástríki eða blíðu (látið vel að börnum, mikið snert, þau borin, gælt eða leikið við ungbörn o.s.frv.) voru borin saman við önnur félagseinkenni eins og tíðni glæpa og ofbeldisverka. Rannsóknir hans leiddu í ljós að hjá þeim þjóðflokkum þar sem ungbörn njóta mikillar líkamlegrar hlýju eru þjófnaðir fátíðir, þjáningar smábarna lítt þekktar, morð og pyntingar á óvinum þjóðflokksins svo til óþekkt fyrirbæri. Þessar rannsóknir styðja þá tilgátu að ríkuleg líkamleg blíða gagnvart smábörnum sé mjög til þess fallin að stuðla að fækkun glæpa og ofbeldisverka ýmiss konar.

    Í sumum menningarsamfélögum tíðkast að refsa börnum líkamlega í uppeldisskyni. Annars staðar þekkist slíkt ekki. Athuga má hvort slíkar refsingar virðist sprottnar af almennri umhyggju fyrir velferð barnanna með því til dæmis að bera tíðni þeirra saman við hversu vel er séð fyrir næringarþörfum barnanna. Niðurstöður þeirrar könnunar bera með sér að þjóðflokkar þar sem börn eru beitt líkamlegum refsingum hafa að jafnaði almenna tilhneigingu til að vanrækja börn sín á öðrum sviðum.

    Prescott kannaði einnig hvaða áhrif bannhelgi gagnvart kynlífi utan hjónabands hefur á tíðni glæpa og ofbeldisverka. Niðurstöður hans benda til þess að refsingar og viðurlög gegn kynlífi utan hjónabands standi í tengslum við líkamlegt ofbeldi, afbrot og pyntingar eða limlestingar á óvinum. Samfélög, sem meta einkvæni mikils, leggja yfirleitt einnig mikla áherslu á hernaðarlega dýrð og tilbiðja herskáa og grimma guði.

    Kynlífsánægja bætir upp vanrækslu í bernsku

    Af þeim fjörtíu og níu þjóðflokkum sem athugaðir voru reyndust þrettán vera undantekning frá þeirri reglu að skortur á líkamlegri ástúð leiði til ofbeldishneigðar. Gengið var út frá þeirri forsendu að þau samfélög sem hafa líkamlegt ástríki gagnvart smábörnum í hávegum hafi sama gildismat eða afstöðu þótt fullorðnir eigi í hlut. Nánari rannsóknir leiddu hins vegar í ljós að svo er ekki ævinlega. Í sex af þessum þrettán menningarsamfélögum tíðkast mikil ástsemi gagnvart börnum þrátt fyrir að ofbeldi fullorðinna sé almennt. Séu þessi sex samfélög athuguð að því er kynhegðun fyrir hjónaband viðkemur er athyglisvert að í fimm þeirra (öllum nema einu) er kynlíf algerlega bannað áður en í hjónasængina kemur og meydómur í miklum metum. Af þessu virðist mega draga þá ályktun að bæling eða hindrun líkamlegrar ánægju eftir að komið er af barnsaldri geti eyðilagt þau góðu áhrif sem alúð auðsýnd ungbörnum hefur.

    Í þeim sjö menningarsamfélögum sem þá eru eftir fór saman lítil blíða gagnvart ungbörnum og að ofbeldi meðal fullorðinna var samt sem, áður fátítt. Í öllum þessum samfélögum var einkennandi að kynlíf fyrir hjónaband var fyllilega leyfilegt. Frjálslyndi í kynferðismálum var ríkjandi. Það má því enn draga nýja ályktun: Kynferðisleg munúð getur bætt upp slæm áhrif þess að smábörn séu svipt nægilegri umhyggju.

    Ástsemd og mikilvægi kynlífs

    Þessar niðurstöður leiddu til endurskoðunar á tilgátunni um áhrif sviptingar líkamlegrar ánægju þannig að nú er tekið mið af tveimur æviskeiðum í stað eins. Þegar tilgátan hafði verið endurbætt segir hún rétt til um hvernig ofbeldi er háttað í fjörutíu og átta samfélögum af fjörutíu og níu sem könnuð hafa verið. Í stutt máli: Ofbeldishneigð stafar annað hvort af því að viðkomandi einstakling skorti ástsemd í bernsku eða kynferðislega fullnægju á ungdómsárunum.

    Aðeins er vitað um eina undantekningu frá þessu, þjóðflokk Jivaró-indíána í Suður-Ameríku. Trúarhugmyndir Jivaró-indíána kunna hér að hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna. Þeir trúa því nefnilega að morðinginn komist yfir sál þess myrta, sem síðan veiti morðingjanum yfirnáttúrlegan mátt er leysi hann undan valdi dauðans.

    Ekki verður nú annað sagt en uppgötvað hafi verið firna áreiðanlegt félagslegt lögmál: Ofbeldi er mjög fátítt í samfélögum þar sem börn og unglingar njóta mikils blíðskapar. James W. Prescott segir um rannsókn sína:

      ,,Sannleiksgildi ,,tveggja aldursskeiða"- kenningarinnar kemur berlega í ljós ef borin eru saman annars vegar þau menningarsamfélög þar sem hvort tveggja viðgengst, mikið ástríki gagnvart börnum og frjálslyndi gagnvart kynlífi unglinga, og hins vegar þau þar sem þetta er öfugt farið. Hin tölfræðilega fylgni og nákvæmni er undraverð. Líkur fyrir því að áberandi ofbeldi brjótist út í samfélagi þar sem kornabörnum er auðsýnd mikil blíða og þar sem einnig er ríkjandi umburðarlyndi í kynferðismálum (kynmök utan hjónabands ekki litin hornauga) eru aðeins tveir af hundraði (48/49). Möguleikinn á að þessi fylgni verði skýrð sem tilviljun er 1:125 000 (einn á móti 125 þúsund). Á sviði þjóðfélagsvísinda er mér ekki kunnugt um neinn annan þátt sem hefur jafnóskeikult forsagnargildi."

    Ofbeldi og ánægja: Afstaða háskólastúdenta

    Hin gagnverkandi tengsl sem eru milli ánægju og ofbeldis gilda einnig í iðnaðarþjóðfélögum samtímans, að því er Prescott hyggur. Hann prófaði þessa kenningu sína með því að leggja spurningalista varðandi þetta efni fyrir níutíu og sex háskólastúdenta. Meðalaldur þeirra var nítján ára. Niðurstöður hans leiddu í ljós að þeir sem hafa neikvæða afstöðu gagnvart kynferðislegri ánægju hafa að jafnaði tilhneigingu til að vera meðmæltir hörðum, líkamlegum refsingum á börnum og hafa trú á að valdbeiting geti greitt úr félagslegum vandamálum. Þeir svarendur sem hafna fóstureyðingum, ábyrgu kynlífi utan hjónabands og nekt innan fjölskyldunnar hafa sterkari tilhneigingu til ofbeldisverka og álíta að sársauki þjóni tilgangi að því leyti að hann hjálpi til við að byggja upp sterka og siðræna skapgerð. Þessum sömu svarendum fannst yfirleitt að áfengi eða önnur fíkniefni veittu sér meiri ánægju en kynlíf. Þeir urðu oft á tíðum áleitnir og fjandsamlegir undir áhrifum áfengis, höfðu gaman af sadískum klámmyndum og töldu sumir að leyfa ætti líkamlegar refsingar í skólum. Líkamleg snerting, eins og til dæmis nudd og gælur, auk frjálsræðis í kynferðismálum var þeim á móti skapi.

    Nýtt gildismat fyrir friðsælan heim

    Ef við göngum út frá þeirri kenningu að vöntun á þeirri ánægju sem snerting skapar sé höfuðorsök ofbeldis getum við fyrst hafist handa við að vinna bug á árásarhneigðinni með því að efla vingjarnleg samskipti manna á milli. Með þetta mark fyrir augum skal ætla hinni líkamlegu ánægjukennd afar mikilvægt hlutverk. Handbærar staðreyndir benda til þess að mikil áhersla á einkvæni, skírlífi og meydóm gefi líkamlegu ofbeldi byr undir báða vængi. James W. Prescott álítur að kynhneigð konunnar beri að viðurkenna og virða. Karlmönnum ber ekki síður en konum að auðsýna börnum umhyggju og ástúð. Þörfum smábarna ber að svara án tafar. Samanburður milli ólíkra menningarsamfélaga afsannar að slíkt ,,spilli" börnum. Leggja þarf áherslu á mikilvægi brjóstagjafar og endurskoða þann sið að skilja heilbrigð börn frá mæðrum sínum á fæðingardeildum sjúkrahúsa.

    Standa þarf gegn öllum tepruskap varðandi nekt og hvetja til hreinskilni gagnvart líkamanum og starfsemi hans. Prescott bendir á að frá þessum sjónarhóli væri æskilegt að fylgja dæmi Japana í herbergjaskipan, að því leyti að greina baðherbergið frá salerninu. Fjölskyldubaðið ætti að hans mati að nota til hvíldar, slökunar og samveru og til þess að gefa börnum eðlilegt tækifæri til að læra um mun kynjanna. Nekt samfara hreinskilni og ástúð innan fjölskyldunnar getur kennt börnum og fullorðnum að líkaminn er ekki til að skammst sín fyrir eða eitthvað lítilmótlegt, heldur uppspretta fegurðar og sælu sem gerir okkur fært að bindast öðrum einstaklingum tilfinningalegum böndum. Líkamleg ástúð, sem kemur fram í löngun til að snerta, halda á, gæla og svo framvegis, má ekki flokka undir kynferðislega ertingu sem er sérstök tegund líkamlegrar ástúðar.

    Við verðum að ala börnin þannig upp að þau verði tilfinningalega hæf til að tjá ást sína og umhyggju. Prescott telur að við ættum einnig að viðurkenna að kynhneigð unglinga sé ekki aðeins eðlileg heldur æskileg. Að viðurkenna kynlíf fyrir hjónaband er siðferðislega réttmætt og eftirsóknarvert. Hann telur að foreldrar ættu að búa þannig að börnum sínum, til dæmis hvað húsnæði varðar, að þau hafi skilyrði til að lifa fullnægjandi kynlífi. Ef við leggjum okkur fram um að glæða holdlega ánægju í lífi okkar mun sú viðleitni sjálfkrafa veita óæskilegum hneigðum eins og andúð og árásargirni í annan og betri farveg.


    Fara aftur á heimasíðu