| Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisverðar heimasíður  | Um höfundinn  | Tölvupóstur

Þrennt sem ber að varast í barnauppeldi

Skortur á líkamssnertingu, ótímabær koppsþjálfun og sjálfsfróunarbann eru algengar uppeldislegar skyssur sem ber að varast við meðhöndlun ungbarna.

Árið 1979 var tileinkað börnum og nefnt "Ár barnsins". Lítið markvert kom þó fram hérlendis í umfjöllun um börn né virðist þetta ár hafa haft nokkur teljandi áhrif á stöðu barna, hér eða annars staðar. Þjóðfélagslegt misrétti barna hér á landi er fyrirbæri sem sjaldan er minnst á. Þó þurfum við ekki að huga lengi að aðstöðu barna, til dæmis hvað varðar leikrými og aðbúnað á sumum róluvöllum, til þess að sjá að víða er pottur brotinn í þeim málum. Svo ekki sé minnst á þau börn sem meira eða minna passa sig sjálf eða passa hvert annað vegna þess að foreldrarnir eru að heiman í vinnu. Sumir vilja taka svo djúpt í árinni að í raun og veru séu börn óvelkomin í íslenskt samfélag. Víða virðist að minnsta kosti ekki vera gert sérstaklega ráð fyrir þeim.

Þó að Háskóli Íslands útskrifi árlega fjöldann allan af uppeldisfræðingum, sálfræðingum og félagsfræðingum hafa fáir þeirra séð ástæðu til að reifa þessi mál opinberlega svo að nokkru nemi. Foreldrar hafa yfirleitt enga menntun fengið í banasálfræði eða uppeldismálum. Við eyðum þriðjungi ævinnar í skóla, sumir meira, án þess að okkur sé nokkurn tímann kennt um hluti er varða daglegt líf okkar allra. Fræðsla um barnauppeldi, samskipti kynjanna, hjónabandið og ýmislegt er varðar kynlíf er yfirleitt látin liggja milli hluta.

Það ætti ekki að vera erfitt verkefni að kenna piltum og stúlkum grundvallaratriði í barnauppeldi: Ekki flengja barnið, ekki taka það of snemma af brjósti, ekki beita harðneskju við koppsþjálfun, ekki ala á neikvæðum hugmyndum um kynlíf og líkamsnekt og svo framvegis. Einfaldar leiðbeiningar í þessum dúr gætu að minnsta kosti dregið úr algengum uppeldislegum skyssum. Að mati uppeldisfræðinga og barnageðlækna er einkum þrennt sem ber að varast í þessu sambandi; ónóga brjóstagjöf og snertingu, ótímabæra koppsþjálfun og sjálfsfróunarbann.

Brjóstagjöf og mikilvægi snertingar

Fyrstu sex mánuðirnir í lífi barnsins eru ákaflega mikilvægur tími fyrir geðrænan þroska þess. Meginþarfir þessa tímabils eru þörf fyrir fæðu, snertingu, athygli og ástúð. Þessum þörfum verður best fullnægt með brjóstagjöf móðurinnar og því sem nefnt hefur verið armreynsla. Armreynsla er sú reynsla sem barnið upplifir í örmum eða kjöltu móðurinnar (eða annarrar manneskju) og fullnægir best meðfæddri hjúfurþörf barnsins. Fyrstu sex mánuði lífsins þarf ungviðið að vera sem mest í kjöltu foreldra sinna eða annarra fullorðinna. Skortur á snertingu er mjög alvarlegt vandamál í barnauppeldi. Þörf fyrir snertingu er mun meiri heldur en flestir gera sér grein fyrir ef marka má rannsóknir vísindamanna.

James W. Prescott er bandarískur taugasálfræðingur sem rannsakað hefur orsakir árásarhneigðar og ofbeldis. Prescott komst að þeirri niðurstöðu að meginorsök fyrir óeðlilegri árásarhneigð væri skortur á þeirri ánægju sem bein líkamleg snerting framkallar. Að hans mati er ofbeldi nokkurs konar uppbót fyrir skort á náttúrlegri ánægju sem rekja megi til skorts á einni tegund skynreynslu sem nefnd er "somatosensory". Þetta hugtak vísar til þeirrar kenndar sem snerting vekur og hlutdeild annarra skynfæra (þ.e. sjónar, heyrnar, lyktar og bragðs) er þá ekki tekin með.

Bandaríski sálfræðingurinn Gary Mitchel er sama sinnis. Mitchel gerði tilraunir með "snertieinangrun" apa. Apaungviði, sem höfðu þurft að þola sex mánaða og í sumum tilvikum eins árs snertieinangrun (önnur skynfæri voru ekki heft í tilrauninni), voru ákaflega afbrigðileg miðað við apaungviði sem alist höfðu upp við venjulegar kringumstæður. Á fullorðinsárum voru aparnir mjög árásargjarnir og réðust á aðra apa af litlu tilefni. Þessi árásarhneigð virtist ekki bundin því hvort þolandinn væri veikbyggðari, til dæmis ungviði, eða sterkbyggðari api.Þessir apar virtust þannig hafa glatað öllu skynbragði á viðteknar hegðunarreglur í apasamfélaginu. Aparnir voru jafnframt lítt gefnir fyrir gælur og í raun almennt samneyti við aðra apa. Þeir voru ennfremur mjög gjarnir á að bíta og meiða sjálfa sig og voru undantekningarlaust kynferðislega vanhæfir og misheppnaðir uppalendur.

Ýmsir sálfræðingar og sérfræðingar á sviði uppeldismála fullyrða að vaxandi ofbeldishneigó meðal barna og unglinga hér á landi megi rekja til skorts á snertingu í bernsku. Ábyrgð samfélagsins er mikil í þessu sambandi. Efnahagslegar aðstæður neyða flestar konur út á vinnumarkaðinn nokkrum mánuðum eftirbarnsburð og tryggja þannig að barnið verði fyrir áfalli, einmitt á því tímabili sem vitað er að barnið er viðkvæmast fyrir aðskilnaði við móðurina. Fullnægja þarf þörfum barnsins örugglega og tafarlaust og það er mjög skaðlegt fyrir börn að þurfa að gráta sig í svefn. Aldrei má leggja hendur á börn eða ógna þeim á annan hátt. Slíkt ofbeldi getur eyðilagt öryggistilfinningu barnsins og aukið á vantraust.

Ótímabær koppsþjálfun

Börn ná ekki valdi yfir endaþarmsstarfsemi sinni fyrr en átján mánaða gömul. Æskilegt er að barnið ákveði sjálft hvenær það vill byrja að nota kopp og að foreldrar hafi hvorki letjandi né hvetjandi áhrif þar á. Ef börnum er gefið fullt sjálfræði í þessum efnum taka þau upp á sitt eindæmi að nota koppinn á bilinu tveggja til þriggja ára. Ótímabær koppsþjálfun (þ.e. áður en barnið er orðið átján mánaða gamalt) sviptir barnið framtakssemi sem felst í því að læra að stjórna hægðum sínum á eigin spýtur. Sigmund Freud, Wilhelm Reich og fleiri sálfræðingar hafa jafnframt bent á kynferðislegt gildi heilbrigðar koppsþjálfunar. Að þeirra mati er nautnatilfinningin sem því fylgir mun mikilvægari fyrir þroskaferil barnsins en í fyrstu mætti halda.

Á þessu aldursskeiði er barnið að læra a treysta á eigin vilja og getu. Það þarf að geta aðgreint sig frá móðurinni og fundið til sín sem sjálfstæður einstaklingur. Ef barnið er knúið til að ná stjórn á hægðum sínum áður en það hefur þroska til verður það að hemja öndunina og herpa ýmsa vöðva líkamans. Hér er einkum átt við vöðva í rassi, lærum og mjaðmagrindinni. Strengdir vöðvar á þessum stöðum minnka vellíóunarkennd frá mjöðmunum og trufla kynferðissálþróun barnsins. Þetta er því miður alltof algengt í okkar samfélagi þar sem margar mæður keppast við að kenna börnum sínum að nota kopp sem fyrst og verða stoltari því fyrr sem barnið temur sér þá iðju.

Sjálfsfróunarbann

Börn uppgötva snemma hvílík nautn er í því að fitla við kynfærin. Margir foreldrar reyna að draga athygli barnsins að einhverju öðru eða hindra það á annan hátt í að svala þannig kynþörfum sínum. Sjálfsfróunarbann er það alversta í uppeldi barna. Ekki er óalgengt að kynferðisleikjum barnsins sé svarað með refsingum, hótunum eða sviptingu á ást. Fjandsamleg viahorf til kynlífsins eru á okkar tímum yfirleitt ekki sett í orð. Þau liggja hins vegar í andrúmsloftinu innan heimilisins. Raddblær foreldranna, svipurinn sem settur er upp þegar rætt er um kynferðismál og hin sérstaka þögn um þessi mál segja barninu sína sögu. Feimni eða ótti við að sýna öðrum kynfæri sín er yfirleitt orðinn traustur í sessi á þessum aldri. Sjálfsfróunarbann, tepruskapur með líkamann og skortur á líkamlegri ástúð er stór hluti af því uppeldi sem leggur kynferðislegar hömlur á börnin. Afleiðingin verður í sumum tilvikum ómeðvituð andúð á kynlífi.

Geysilega margt þarf að breytast í samfélaginu og gildismati stjórnvalda ef ástandið í uppeldismálum á að þróast til betri vegar. Fyrsta skrefið í þá átt hlýtur að vera aukin umræða og fræðsla um þarfir smábarna og barnauppeldi.

  | Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisverðar heimasíður  | Um höfundinn  | Tölvupóstur