| Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisverðar heimasíður  | Um höfundinn  | Tölvupóstur

Stress í börnum er íslenskur veruleiki

Í okkar tæknivædda iðnaðarsamfélagi, þar sem peningar og velgengni skipar æðstan sess, hafa viðkvæmar tilfinningar mannsins orðið undir, ekki síst tilfinningar barna. Þættir, sem geta valdið streitu og tilfinningalegu álagi hjá börnum, eru margs konar. Hér verður fjallað um bágborinn fjárhag fjölskyldunnar, skólakerfið og áhrif fjölmiðla.

Kjör launafólks hérlendis útheimta að báðir foreldrar vinni hörðum höndum sér og börnum sínum til lífsviðurværis. Í mörgum tilfellum er um yfirvinnu að ræða. Foreldrar hafa því, þegar heim er komið, lítinn tíma aflögu til að sinna börnum sínum. Hér er einkum átt við nærandi tilfinningalegt og vitsmunalegt samband. Ung börn hafa takmarkaða getu til aðlögunar. Fjárhagsáhyggjur heimilisins og krafa um hröðun á þroskaferli barnsins veldur streitu á viðkvæmustu mótunarárum einstaklingsins.

Útivinnandi foreldrar, sérstaklega mæður, eru undir meira tímaálagi en foreldri sem vinnur ekki úti. Útivinnandi foreldri þarf að vekja börnin snemma, klæða þau og snyrta, gefa þeim að borða og koma þeim á dagheimilið (með bíl, fótgangandi eða í strætisvagni). Lítil tími gefst til þessa alls og mikil pressa er á börnunum að fylgja dagskrá hins fullorðna. Félagslegar aðgerðir stjórnvalda, tilfinningaleg stöðnun ásamt skilningsleysi á sálrænum þörfum barna eru meðal þeirra þátta er vega að vaxtarskilyrðum íslenskra barna.

Hvaða von eiga börn við slíkar fjölskylduaðstæður? Er umhverfið, sem barnið vex upp við, vænlegt til þroska og framfara? Svarið er því miður neikvætt og það sem verra er, aðstæður fara versnandi. Vegna fjárhagslegrar og félagslegrar pressu í íslensku samfélagi eru margir foreldrar einfaldlega of uppteknir af eigin vandamálum til þess að geta sinnt þörfum barnanna sinna.

Skólinn og streita barna

Skólar valda streitu hjá börnum á ýmsa vegu. Fyrir utan streitu samkeppninnar um einkunnir og virðingu kennara og samnemenda hafa skólarnir tilhneigingu til að samhæfa eða móta börn á staðlaðan hátt og neyða upp á þau væntingum umhverfis og þjóðfélags. Námsefni, kennsla og skipulag skólans neyðir börnin til að fást við verkefni og hugðarefni hinna fullorðnu. Þetta skapar síðan þrýsting á barnið að flýta sér að vaxa upp.

Skólakerfið byggist á niðurröðun og innrætingu álitlegs safns staðreynda og óskyldra upplýsingamola. Jafnframt gerir það ákveðnar kröfur um skapgerðareinkenni og hegðunarmynstur. Að þessari aðlögun er unnið af mikilli elju frá upphafi skólagöngunnar og sleitulaust fram á efsta skólastig. Tilgangurinn er að kenna nemandanum að rata meðalveginn og búa hann undir fastmótað hlutverk í þjóðfélagsvélinni. Fyrst ber að kenna börnum að standa og ganga í röð, hemja hreyfikerfi líkamans með kyrrsetu í stól langtímum saman og síðar meir mata nemendur á sögulegum ,,staðreyndum" og viðurkenndum kenningum annarra. Ef skólastarfið er skoðað fordómalaust kemur í ljós að börnum er kennt að þegja sem mest, hlusta sem best og muna sem flest á sem stystum tíma.

Fjölmiðlar og streita barna

Mikilli fjölmiðlanotkun fylgir einnig ákveðið álag. Hljómlist, kvikmyndir, myndbönd, lestur dagblaða og sjónvarpsgláp eru áreiti sem góð þykja í hæfilegum skammti en skapa spennu og farg ef fram úr hófi keyrir.

Aðgengilegasti fjölmiðillinn núna er án efa sjónvarpið, enda er það orðið mótandi aðili í uppvexti barna og hefur mikil áhrif á líf margra fullorðinna. Það má segja að sjónvarpið komi næst á eftir foreldrum og kennurum hvað uppeldi barna varðar. Ef marka má bandaríska könnun, sem gerð var meðal barna, tóku flest þeirra sjónvarpið fram yfir móður sína eða föður. Spurt var: Hvort viltu missa sjónvarpið eða mömmu þína? og Hvort viltu missa sjónvarpið eða pabba þinn?

Yfirgnæfandi meirihluti barnanna valdi sjónvarpið (og það sem í því er) enda vanari samskiptum við það en foreldrið. Margir hafa af þessu áhyggjur því mikið sjónvarpsgláp hefur í för með sér skerta tjáningargetu og málþroskinn verður að sama skapi minni. Ástæðan er ósköp einföld. Barnið horfir langtímum saman á sjónvarpsefni (vegna vana) sem það skilur lítið sem ekkert í.

Stríðsfréttir, óeirðir og ofbeldi, ásamt myndum frá hörmungum fólks víða um heim, eru barninu visst álag. Tilfinningaleg samkennd barna er meiri en fullorðinna og þau hafa tilhneigingu til þess að taka á sig ábyrgð á þjáningum annarra. Of stór skammtur gerir síðan þá kröfu að barnið bæli með með sér slíkar tilfinningar og þá kemur í ljós það sem verra er; tilfinningaleysi, sljóleiki og siðferðislegt sinnuleysi.

Leiðir til úrbóta

Hraðinn, tímaleysið, peningaleysið og þekkingarleysið meðal almennings bitnar fyrst og fremst á börnunum. Ef raunveruleg breyting á að eiga sér stað til að minnka álag og streitu meðal barna og fullorðinna verður fólk að vakna til meðvitundar um hlutskipti sitt og þá þróun sem orðið hefur í samfélaginu. Hugarfarsbreyting samfara róttækum efnahagslegum og þjóðfélagslegum breytingum er nauðsyn. Þangað til slík ummyndun hefur átt sér stað verður að kveða ríkt á um eftirfarandi:

1. Leggja verður ríkari áherslu á mikilvægi líkamssnertingar og samveru fjölskyldunnar á uppvaxtarárum barnsins. Hægt er að nudda börn með barnaolíu, nota helgar og 1-2 kvöld í viku til tjáskipta við börn, skipulagðra leikja, málunar mynda eða upplestrar. Tækni í formi vídeóupptökuvélar, sem geymir samskipti, rökræður og deilur á myndsegulbandi, getur verið skemmtilegt sjónefni fyrir alla fjölskylduna og hjálpartæki við endurmat á fyrri reynslu og jafnvel uppspretta fyrir nýtt hegðunarmynstur hjá einhverjum fjölskyldumeðlimnum.

2. Leggja verður ríkari áherslu á mikilvægi leiksins hjá börnum. Ærslafullur eða sviðsettur leikur er öflugusta leið barnsins til að tjá innibyrgðar tilfinningar, skilja fyrri reynslu og veita streitu jákvæða útrás. Standa verður vörð um rétt barnsins til að vera barn. Standa verður vörð um gildi og mikilvægi barnsins, heim þess, óskir, ást og lífsvilja.

  | Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisverðar heimasíður  | Um höfundinn  | Tölvupóstur