| Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisverðar heimasíður  | Um höfundinn  | Tölvupóstur

Mjallhvít - Seiðmagn ævintýrasögunnar

Mjallhvít er ein þekktasta ævintýrasaga heimsins. Hún hefur verið sögð í aldaraðir á ýmsum tungum í öllum heimsálfum. Rætur sögunnar um Mjallhvíti er að finna í germönskum goðsögnum. Ýmis tákn hennar bera þess ljóslega merki. Hrafninn og jarðálfarnir (þ.e. dvergarnir) eru til dæmis efniviður úr tevtónskum, germönskum, sið. Yfirleitt er ævintýrasagan einfaldlega kölluð "Mjallhvít". Yngra nafn er þó til á þessu forna ævintýri - "Mjallhvít og dvergarnir sjö".

Margar útgáfur af Mjallhvíti byrja eitthvað á þessa leið: "Einu sinni voru jarl og jarlsfrú. Eitt sinn óku þau í hestvagni framhjá þremur snjósköflum. Þá hugsaði jarlinn með sér: "Ég vildi ég ætti stúlku sem væri hvít eins og snjór." Skömmu síðar óku þau framhjá þremur pollum af blóði. Þá hugsaði jarlinn með sér: "Ó, hvað ég vildi að ég ætti stúlku með blóðrauðar kinnar." Seinna meir flugu þrír hrafnar í grennd við jarlinn. Jarlinn hugsaði þá með sér: "Æ, hvað mig langar í stúlku með biksvart hár." Á för sinni mættu hjónin loks stúlku sem var hvít sem snjór, rauð eins og blóð og með svart hár eins og hrafnsvængur. Þessi stúlka hér Mjallhvít. Jarlinn tók hana strax upp í vagninn og dáðist að henni. Jarlsfrúnni var hins vegar lítið um Mjallhvíti gefið. Hún sætti færis að losa sig við hana. Loks missti hún viljandi hanska sinn og bað Mjallhvíti að leita hans. Á meðan gaf hún þrælnum eða vagnstjóranum skipun um að aka með miklum hraða í burtu."

Í þessari frumgerð sögunnar um Mjallhvíti eru jarlinn og jarlsfrúin (sem síðar breyttust í stjúpmóður og föður) auðskilin útgáfa af foreldrum barnsins. Stúlkan sem faðirinn eða ímynd hans óskar sér og finnur síðan fyrir tilviljun er fulltrúi barnsins. Samkvæmt kenningum Sigmund Freud, Bruno Bettelheim og annarra er svonefnd ödipusarduld, það er kynferðislegur áhugi barnsins á foreldri af gagnstæðu kyni, mótandi þáttur í persónuþroska þess. Samband foreldranna vekur hjá barninu afbrýðisemi út í foreldri af sama kyni. Í sögunni um Mjallhvíti samkennir barnið sig við Mjallhvíti og aðskilur sig um leið frá kynferðislegum tilfinningum og afbrýðisemi.

Þessar tilfinngar koma vel fram í viðbrögðum jarlsins og jarlsfrúarinnar. Afbrýðisemi veldur því að Mjallhvít er skilin eftir ein. Jafnvel ást föðurins megnar ekki að bjarga barninu.

Sálfræði Mjallhvítar og útrás bældra tilfinninga

Sagan hefst fyrir alvöru þegar Mjallhvít er sjö ára gömul. Það er dæmigert fyrir ævintýri að þau hefjast einmitt um það leyti sem sögupersónan er að yfirgefa ímyndaðan heim barnsins. Barnið er á þessum aldri að ná meiri tengslum við raunveruleikann. Þegar barnið hefur náð föstum tökum á ímyndunaraflinu hefst sjálfstæðisbaráttan af alvöru. Mjallhvít er að ganga í gegnum ödipusarstigið í persónuþroska sínum. Á þessu tímabili vill stúlkubarnið vinna ástir og athygli föður síns og í flestum tilfellum finnst barninu móðirin vera fyrir sér. Barnið verður afbrýðisamt vegna þeirrar athygli sem foreldrarnir sýna hvort öðru. Í slíkum tilvikum vill barnið losna við það foreldranna sem er af sama kyni.

Þessi reynsla veldur oft miklu sálarstríði hjá barninu og djúpstæðri sektarkennd. Í ævintýrinu um Mjallhvíti er stjúpmóðirin (sem er ímynd hinnar vondu móður) sett í það hlutverk að fyllast afbrýðisemi út í Mjallhvíti. Vegna afbrýðisemi reynir síðan móðirin að losa sig við hana. Eins og áður segir getur barnið, sem hlustar hugfangið á söguna, samkennt sig við Mjallhvíti og upplifað um leið hinar neikvæðu tilfinningar sem það geymir ómeðvitað í brjósti sér. Á þann hátt á sér stað tilfinningaleg útrás, stundum nefnd geðlausn. Geðlausn er úthreinsun og upplifun bældra tilfinninga. Slík reynsla veitir viðkomandi ákveðið frelsi og lausn á sálarflækjum.

Föðurímyndin: Raggeitin og hetjan

Hlutverk föðurins er tvískipt. Faðirinn er annars vegar viljalaus aðili og hins vegar bjargvættur. Sú staðreynd að faðirinn ver dóttur sína ekki fyrir afbrýðisemi jarlsfrúarinnar gerir hann að raggeit. Síðar meir birtist hann sem hetja. Hann birtist í gervi veiðimannsins. Hann verður hetja sem bjargar lífi Mjallhvítar þó að honum hafi verið skipað að drepa hana í skóginum. Á þann hátt brýtur hann í bága við vilja hinar afbrýðisömu móður en hefur á sama tíma ekki bjargað henni til fulls. Mjallhvít verður þess vegna að ráða fram úr eigin vandamálum. Ástæðan er einfaldlega sú að vandamál hennar eru persónulegs eðlis, af tilfinningalegum og kynferðislegum toga spunnin.

Hlutverk dverganna

Sá tími er Mjallhvít eyðir með dvergunum táknar það tímabil í ævi barnsins er það lærir og þroskast, bæði vitrænt og tilfinningalega. Dvergarnir kenna henni skyldurækni og vinnusemi. Hún tekur að sér heimilisstörfin sjö daga vikunnar og lærir fljótt að verða góð húsmóðir eins og margar ungar stúlkur enn þann dag í dag. Áður en Mjallhvít hittir dvergana sýnir hún og sannar að hún hefur öðlast vald á þörfum oral-stigsins (munnstigsins) með því að borða aðeins smávegis af hverjum disk og drekka lítið úr hverju glasi. Þetta undirstrikar að hún hefur vaxið upp úr einkennum þessa tímabils og að hún er farin að hugsa um aðra en sjálfa sig.

Það sem er þó eftirtektarverðast við dvergana góðu er hversu gott dæmi þeir eru um lægðarstigið í persónuþroska barnsins en það er einmitt það tímabil sem tekur við af ödipusarstiginu í kynferðisþróun einstaklingsins. Dvergarnir og dvöl Mjallhvítar hjá þeim eftir að hún hefur flúið frá stjúpmóður sinni og föður (þ.e. ödipusarstiginu) einkennist af vinnusemi og ábyrgðartilflnningu. Dvergarnir vinna öllum stundum við námugröft í iðrum jarðar á meðan Mjallhvít er húsmóðirin á heimilinu. Dvergarnir eru þar að auki gjörsamlega kynlausar verur, þeir njóta ekki kynlífs, giftast ekki og eignast ekki börn. Þeir eru með öðrum orðum börn sem neita að verða fullorðin, verur sem hafa staðnað á lægðarstiginu og aldrei tekið út fullan kynþroska.

Eplið og lystisemdir holdsins

Það segir sig sjálft að Mjallhvít getur ekki verið endalaust hjá dvergunum, jafnvel þótt þeir séu hjálpsamir og góðir. Hún verður að verða fullvaxta og næsta skrefið er kynþroskaskeiðið. Kynþroskaárin og þó sérstaklega aðdragandi þeirra og sú togstreita sem þeim fylgir er táknuð með freistingum stjúpmóðurinnar sem notar ýmsar leiðir til þess að tæla hana. Sagan gefur í skyn að tilgangur hinnar vergjörnu stjúpmóður sé að tortíma Mjallhvíti. Í raun og veru er hún að tortíma eða raska ró lægðartímabilsins, það er að vekja úr dróma blundandi kynhvöt. Ein af aðferðum hennar til að tæla Mjallhvíti er að gefa henni eitrað epli. Eplið hefur, eins og flestir kannast við, verið tákn fyrir lystisemdir holdsins. Eplið gegnir þessu hlutverki hvort sem um er að ræða ástarepli Afródítu eða viskueplið sem snákurinn (getnaðarlimur karlmannsins) narraði ofan í Evu forðum. Með því að borða bita af epli móður sinnar er hún að bragða þann ávöxt sem mórðir hennar þekkir, það er kynhneigðina.

Þessi samlíking skýrist enn betur ef ýmis önnur atriði eru tekin inn í myndina. Sem dæmi má nefna að sá hluti eplisins sem Mjallhvít borðaði var rauði hluti þess. Rauði liturinn er að sjálfsögðu tákn fyrir blóð, blóð í merkingunni tíðir eða blæðingar. Þegar stúlka hættir að vera einfaldlega stúlka og missir meydóminn kynnist hún blóði kynlífsins, það er rauða hluta eplisins. Í upphafi sögunnar eru þessi tengsl milli blóðs og blæðinga kynnt. Móðir Mjallhvítar, í þeirri útgáfu er við þekkjum best, stingur sig á nál og þrír dropar af blóði falla á snjóinn. Talan þrír er ómeðvitað tákn fyrir kynþroska (kynlíf) og kynfæri sem standa saman af þremur hlutum bæði hjá karli og konu. Hérna býr sögumaður barnið undir það tímabil er stúlkur byrja að fá blæðingar. Höfundurinn leysir með þessu ákveðna togstreitu. Kynferðislegt sakleysi er táknarð með hvítum lit og kynferðisleg löngun tekur á sig rauðan lit blóðsins.

Ævintýrið býr barnið undir að samþykkja mjög afdrifaríkan atburð; blæðingu eins og í tíðum og síðar í samförum þegar meyjarhaftið er rofið. Í upphafi sögunnar lærir barnið að lítið magn af blóði (þrír dropar) er undanfari getnaðar, það er sköpun Mjallhvítar. Barnið lærir þess vegna að blæðingar eru jákvæðir atburðir því án þeirra væru ekki til nein börn, ekki einu sinni það sjálft.

Kistulagningin og kynferðisleg endurfæðing

Þegar Mjallhvít borðar bita af epli móðurinnar fellur hún í dá og liggur sem dauð væri. Þennan hluta sögunnar má skilja sem táknrænan umhugsunartíma fyrir Mjallhvíti. Hér er um að ræða tíma úrvinnslu, svefn athafna en ekki tilfinningalegs uppgjörs. Þegar ungur og myndarlegur karlmaður á sama reki og Mjallhvít sér hana í kistunni og kyssir hana kossi unglingsins vaknar hún af værum blundi. Mjallhvít vaknar til meðvitundar um sitt eigið kyneðli. Mjallhvít hefur loksins fundið maka sem er henni samboðinn. Hún hefur náð þeim áfanga í einstaklingsþróun sinni að hún þarf ekki lengur að sofa í rúmi sem er eign dvergvaxinnar, kynlausrar veru.

Í ævintýrinu segir frá því að þrír fuglar heimsækja Mjallhvíti þegar hún liggur í dvala. Fyrst kemur ugla, síðan hrafn og að lokum dúfa. Uglan er tákn vísdóms, hrafninn táknar þroskaða vitund og dúfan er ímynd ástarinnar. Þessir fuglar og innri merking þeirra undirstrikar að svefninn í glerkistunni er tími hugrænnar og tilfinningalegrar vinnslu. Endurfæðingin og vígslan í heim fullorðinna er innsigluð með tilfinningalegu og kynferðislegu inntaki hins unga prins. Mjallhvít hefur fundið sér kynfélaga.

Sjálfstortíming og hættur óbeislaðra tilfinninga

En hvað varð um hina afbrýðisömu móður. Eigingirni, öfund út í fegurð og yndisþokka dóttur sinnar og aðrar síngjarnar hugrenningar tortíma mórðurinni. Í lok sögunnar fær barnið að vita hvað verður um fólk sem lætur ótamdar og eigingjarnar hvatir leiða sig í gönur. Líkt og nornin í Hans og Grétu, sem var brennd í ofni, var stjúpmóðir Mjallhvítar neydd til þess að dansa á rauðglóandi kolum uns hún fuðraði upp og brann til ösku. Þessi endalok eru táknræn fyrir það hvernig óstjórnleg kynferðisleg afbrýðisemi leggur líf móðurinnar í rúst.

Margir verða ákaflega hissa og jafnvel hneykslaðir þegar þeir lesa um slíka hluti í ævintýrum fyrir börn. Margur heldur eflaust að saklaus hugur barnsins hafi ekki gott af þess konar lýsingum sem þeir álíta að beri vott um grimmd og jafnvel sadisma. Bruno Bettelheim hefur hins vegar bent á að slík endalok og jafnvel ennþá verri fyrir hinar "neikvæðu" persónur í ævintýrunum séu barninu nauðsynleg. Sterkar tilfinningar og skýrar og einfaldar lýsingar á því hvernig örlögin umbuna og refsa sögupersónum í samræmi við innræti og hátterni eru að hans mati ákaflega nauðsynlegar fyrir börn. Gildi þeirra liggur þó ekki aðeins í hinum siðferðislega boðskap sögunnar heldur fyrst og fremst í því að slíkar lýsingar (bæði jákvæðar og neikvæðar) leysa sálræna hnúta í barninu.

Bruno Bettelheim hefur sýnt fram á sálfræðilegt og tilfinningalegt gildi ævintýra. Hann hefur með rannsóknum sínum leitt í ljós að gömul barnaævintýri byggja á djúpstæðum goðsögulegum og sálfræðilegum lögmálum og að þau byggjast ekki á tilviljun heldur markvissri skipan. Bruno Bettelheim varar jafnframt við því að breyta hugsunarlaust gömlum barnasögum og hefur gagnrýnt ævintýri síðustu ára fyrir að vera innihaldslítil, áróðurskennd og fyrir að sniðganga sálarlíf og geðræn lögmál barnsins.

Ítarefni

"Þegar allar óskir barnsins hafa tekið á sig mynd álfkonunnar góðu,allar óskir þess líkamnast í vondri norn, allur ótti þess orðinn að grimmum úlfi, allar kröfur samviskunnar að vitrum manni sem það hittir á ævintýraferð sinni og öll afbrýðisemi og reiði orðin að skepnu sem kroppar augun úr keppinautum sínum - þá getur barnið loksins farið að greiða úr þverstæðum huga síns. Þegar svo er komið eru flækjur sálarlífsins ekki lengur eins óviðráðanlegar, barnið lætur ekki bugast."

Bruno Bettelheim - úr bókinni The Uses of Enchantment.

"Margt nútímafólk hafnar ævintýrum, því miður, og gerir það með rökum sem eiga alls ekki við hér. Ef við lítum á ævintýrin sem lýsingar á veruleikanum eru þau vissulega alveg hroðalega grimm, kvalasjúk og hver veit hvað. En ef við lítum á þau sem tákn þess sem gerist í sálardjúpunum eru þau dagsönn."

Bruno Bettelheim - úr bókinni The Uses of Enchantment.


Samið í samvinnu við Gunnhildi Heiðu Axelsdóttur.


Heimildir:

Bruno Bettelheim: The Uses of Enchantment, 1976. Tilvitnanir úr sömu bók.

  | Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisverðar heimasíður  | Um höfundinn  | Tölvupóstur