Make your own free website on Tripod.com
  | Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisver­ar heimasÝ­ur  | Um höfundinn  | T÷lvupˇstur
Þrátt fyrir að kannabisefni hafi um aldaraðir notið virðingar sem lyf hafa þau frá því á fjórða áratugnum verið fordæmd og álitinn hættuleg fíkniefni. Á liðnum árum hefur hins vegar færst í vöxt að læknar og sjúklingar með margvísleg mein geri kröfu um að þau fáist út á lyfseðla. Eru hass og maríúana ef til vill undralyf framtíðarinnar? Guðmundur Sigurfreyr Jónasson kynnti sér málið.

Kannabis til lækninga

Hampjurtin, Cannabis sativa, var uppspretta trefjaefna í meir en tólf þúsund ár. Fyrr á öldum voru segl, reiði og þéttiefni skipa, að veifum, flöggum og fiskinetum ógleymdum, iðulega unnin úr hampi og hamphroða. Fram á miðja nítjándu öld var rösklega áttatíu prósent af pappír í heiminum búinn til úr hampi. Hampur var notaður í dúka og vefnað margs konar enda rakadrægari, teygjanlegri og endingarbetri en bómull. Olíumálverk Rembrandts, Van Goghs og annarra meistara listasögunnar voru máluð á hampstriga. Sama má segja um litina sem þeir notuðu því nánast öll málning var unnin úr fræolíu jurtarinnar. Hampfræin voru auk þess nýtt í matargerð, í grauta og bakstur, enda rík af eggjahvítuefnum. Úr hampi var unnin ljósaolía og var hún lengi vel útbreiddasta og skærasta lampaolían sem völ var á.

Hampjurtin gegndi jafnframt mikilvægu hlutverki í læknisfræði í nær fimm þúsund ár. Frá árinu 1842 til síðustu aldamóta var kannabis innhald rúmlega helming allra lyfja sem notuð voru í heiminum. Breski læknirinn William B. O´Shaughnessey var fyrsti Vesturlandabúinn til að nota kannabis sem lyf. Hann kynntist notkun þess hjá læknum á Indlandi þar sem hann starfaði sem prófessor við læknaháskólann í Kalkútta. Eftir að hafa gert tilraunir á dýrum og fullvissað sig um meinleysi þess hóf hann að beita því gegn flogaveiki, gigtveiki, hundaæði og stífkrampa. Í skýrslu sem birt var 1839 fullyrðir hann að hamptinktúra (kannabisblómhnappar í alkóhóllausn) sé áhrifaríkt verkjalyf og að tilkoma þess muni valda ,,mikilli hrifningu meðal lækna um heim allan."

Þegar O´Shaughnessey sneri aftur til Englands árið 1842 sá hann lyfsölum fyrir miklu magni kannabisefna. Læknar í Evrópu og Bandaríkjunum hófu fljótlega að fyrirskipa kannabis við ýmsum sjúkdómum. Vitað er að Viktoría Bretadrottning notaði það til að stemma stigu við tíðaverkjum. Liðlega hundruð lærðra ritgerða birtust í læknaritum um græðandi eiginleika kannabislyfja. Árið 1890 tók breski læknirinn J.B. Reynolds saman þrjátíu ára reynslu af notkun kannabis og komst að þeirri niðurstöðu að það væri með gagnlegustu lyfjum sem læknum stæði til boða. Honum þótti sýnt að það kæmi að liði við að lækna og fyrirbyggja mígreni og ráða bót á astma, svefnleysi, taugapínu og þunglyndi. Reynolds benti ennfremur á að virkni hamptinktúra héldist mánuðum, jafnvel árum saman, án þess að auka þyrfti lyfjaskammtinn. Kannabis naut einnig almennra vinsælda sem hressingarlyf og var hægt að kaupa það í ýmsum myndum í lyfjabúðum.

Undanhald hassmixtúranna

Við lok síðustu aldar fóru vinsældir kannabislyfja hins vegar minnkandi. Styrkleiki mixtúranna var breytilegur og viðbrögðin við munnlegri inntöku þóttu reikul og ófyrirsjáanleg. Á þessum tíma var ekki vitað hvert hið virka innihald var og því erfitt að ráða magninu. Uppgötvun sprautunnar og vaxandi notkun stungulyfja var önnur ástæða fyrir því að áhugi á kannabismixtúrum fór dvínandi. Hampur er óuppleysanlegur í vatni og því ill mögulegt að brúka afurðir hans til innspýtingar. Efnafræðilegur stöðugleiki synthetískra lyfja gerði að verkum að aspirín, klóral hýdrat og barbitúrlyf skipuðu brátt þann sess sem kannabislyfin gerðu áður.

Nýju lyfin voru þó ekki agnúalaus. Í Bandaríkjunum einum deyja árlega á bilinu fimm hundruð til eitt þúsund manns af völdum innvortis blæðinga sem rekja má til neyslu aspiríns. Eiturverkanir og vanabindandi eiginleikar barbitúrlyfja eru jafnframt alkunn. Eldri læknar kvörtuðu undan nýjungagirni yngri lækna og töldu að fara ætti varlega í að afskrifa kannabislyfin. Margir læknar héldu tryggð við þau og árið 1920 var talið að þau væru í þriðja sæti yfir algengustu lyfin sem notuð voru á Vesturlöndum.

Herförin gegn hampi

Árið 1916 gaf bandaríska landbúnaðaráðuneytið út skýrslu þar sem fram kom að úr einum hektara af hampi væri, á skemmri tíma og með minni tilkostnaði, hægt að framleiða fjórfalt meira magn af pappír en úr einum hektara af trjám. Pappírsgerð úr hampi krefst þar að auki allt að sjöfalt minna magns af mengunarvaldandi efnum en sambærileg framleiðsla úr timbri. Tilraunir höfðu sýnt að pappír gerður úr hampi var í hærri gæðaflokki, bæði sveigjanlegri og endingarbetri, en pappír unninn úr trjákvoðu. Gífurlegar tækniframfarir urðu á fjórða áratugnum í vinnslu hamps til iðnaðarfram- leiðslu. Árið 1936 var fundin upp skurðarvél sem gerði mögulegt að sneiða, binda í bagga og greina trefjar frá beðmi (sellulósi) hampplöntunnar á margfalt meiri hraða en áður þekktist. Vísindamenn spáðu því að innan örfárra ára yrði sjötíu prósent af öllum pappír unninn úr hampkvoðu. Einnig mætti vinna eldsneyti úr hampi er keppt gæti við jarðefnaeldsneyti. Hampur yrði á nýjan leik verð- mætasta nytjaplanta heimsins

Ekki voru þó allir ánægðir með þessa framtíðarsýn. Iðjuhöldurinn W.R. Hearst og forráðamenn Du Pont fyrirtækisins óttuðust að hampur mundi keppa gegn timbursölu þeirra og gerviefnaframleiðslu. Dagblöð og tímarit í eigu Hearst hófu skipulega rógsherferð gegn hampi, sem nú gekk undir mexíkanska slanguryrðinu ,,maríúana". Almenningi var talið trú um að maríúana væri vanabindandi og undirrót ofbeldisglæpa, geðveiki og greindarskorts. Olíubaróninn Andrew Mellon, þáverandi fjármálaráðherra og fjárhagslegur bakhjarl Du Pont samsteypunnar, skipaði fjölskylduvin sinn Harry J. Anslinger sem yfirmann alríkisfíkniefnalögreglunnar. Anslinger varð frægur af endemum í of- stækisfullri baráttu sinni gegn leynivínsölum á bannárunum og nú þurftu lögreglusveitir hans nýjan vágest til að kljást við.

Anslinger tók starf sitt föstum tökum. Hann þeyttist um þver og endilöng Bandaríkin og hélt blaðamannafundi og fyrirlestra þar sem hann sagði agndofa áheyrendum sínum hryllingssögur af maríúananeyslu. Anslinger fullyrti að dæmi væru um að einn reykur af þessu útlenska illgresi hefði ,,breytt saklausum kórdrengjum í blóðþyrsta morðingja ů [og að það] ylli óstjórnlegri kynfýsn hvítra kvenna í garð varastórra blökkumanna". Kvikmyndin ,,Brjálæði maríúanasígarettunnar" (Reefer Madness) var framleidd að hans frumkvæði til að upplýsa fólk um hvernig þetta ,,nýja dóp sem væri hættulegra en heróín og kókaín" leiddi óhjákvæmilega til sturlunar.

Skattalög um maríúanaviðskipti

Samsærismönnunum var ljóst að þrátt fyrir hræðsluáróður gulu pressunnar yrði ekki vinnandi vegur að fá hampræktun og hampsölu bannaða eftir hefðbundnum leiðum. Erindrekar þeirra í fjármálaráðuneytinu unnu í kyrrþey að nýrri skattalöggjöf um verslun með maríúana. Markmið lagana var að greiða hampiðnaðinum banahögg með feikiháu vöru- og flutningsgjaldi. Jafnframt var læknum sem vildu tiltaka maríúana handa sjúklingum sínum gert lífið leitt með kvöðum um umfangsmikla skýrslugerð. Til að fyrirbyggja að hampframleiðendur, læknar og aðrir er höfðu hagsmuni að gæta fréttu af áformum stjórnvalda voru vitnaleiðslur vegna lagasetningarinnar yfirleitt haldnar fyrir luktum dyrum. Tveimur dögum áður en þjóðþingið hugðist ganga til atkvæðagreiðslu um frumvarpið höfðu læknasamtökin spurnir af því og sendu lögmann sinn á vettvang. ,,Okkur kom ekki til hugar að maríúana, sem blöðin hafa undanfarin tuttugu ár lýst sem banvænu illgresi frá Mexíkó, væri í raun eitt og sama efnið og læknar nefna kannabis," sagði hann þingheimi í forundran.

Lögmaðurinn dró í efa að yfirlýsingar um maríúanafíkn og lögbrot maríúananeytenda ættu við rök að styðjast. Fyrirspurnir til fangelsismálastofnunnar, barnaverndarstofu og skólayfirvalda leiddu í ljós að engir þessara aðila hefðu nokkurn tímann haft afskipti af neytendum maríúana. ,,Engin haldbær gögn hafa verið tilgreind sem réttlæta hömlur á þetta mikilvæga lyf. Að okkar mati nægir slúður úr vikublöðum ekki til að sverta orðstír lyfs sem notað hefur verið hér á landi farsællega í næstum heila öld." Talsmaður læknasamtakanna gagnrýndi einnig leynimakkið í kringum frumvarpið. ,,Við skiljum ekki ennþá, herra fundarstjóri, hvers vegna þetta frumvarp var undirbúið á laun í tvö ár án þess að nokkur fengi vitneskju um það, jafnvel ekki starfstéttin sem því er ætlað að þjóna."

Læknafélagið kúgað til hlýðni

Harry J. Anslinger vann frumvarpinu brautargengi með því að lesa orðrétt upplognar frásagnir æsifréttablaðanna. ,,Maríúana," sagði hann ,,er ofbeldisfyllsta vímuefni í sögu mannkyns." Máli sínu til stuðnings nefndi hann dæmi um axarmorðingja sem hefði brytjað niður heila fjölskyldu fjórum dögum eftir að hann reykti maríúana. Hann fullyrti einnig að rekja mætti rúmlega helming allra glæpaverka til neytenda maríúana. Málflutningurinn var litaður kynþáttafordómum. Hann sagði þing- heimi t.d. sögu af tveimur negrum sem hefðu tælt hvíta stúlku til samræðis við sig ,,fyrir tilstilli maríúana og satanískrar vúdú-tónlistar [djassins] með þeim ósköpum að hún varð þunguð." Andmæli læknasamtakanna féllu í grýttan jarðveg. Frumvarpið varð að lögum í október 1937 og hampiðnaðurinn hrundi í kjölfarið eins og til var ætlast.

Anslinger hóf nú skipulegar ofsóknir á hendur bandarísku læknasamtökunum. Hann gat ekki fyrirgefið þeim andófið og hugðist kúga þau til hlýðni. Árið 1939 lögsótti hann liðlega þrjú þúsund lækna fyrir að hafa fyrirskipað deyfilyf að ófyrirsynju handa sjúklingum sínum. Læknasamtökin sáu að þau áttu við ofurefli að etja og sömdu frið við Anslinger. Þau létu af stuðningi sínum við maríúana með þeim árangri að næstu tíu árin voru aðeins þrír læknar ákærðir fyrir sömu sakir.

Vísbendingar um heilnæmi maríúana

Á sjöunda áratugnum færðist neysla maríúana í Bandaríkjunum verulega í vöxt, einkum meðal ungs fólks. Miðað við það sem á undan var gengið höfðu foreldrar eðlilega áhyggjur af þróun mála og kröfðust þess að alríkisstjórnin styrkti vísindalegar rannsóknir er gæfu skýra mynd af verkunum kannabis. Árið 1964 var dr. Raphael Mechoulam við Tel Aviv-háskólann fyrstur manna til að greina tetrahýdrókannabínól (delta-9 THC), efnasambandið, sem einkum veldur líffræðilegri verkun kannabisplöntunnar. Nú fyrst var komin forsenda til að meta áhrif kannabis á menn þannig að samband milli inntöku magns og verkunar lægi ljóst fyrir. Yfirvöld í ýmsum löndum hófu af kappi að fjármagna rannsóknir á lyfhrifum kannabis. Áratuginn 1966-76 voru gerðar liðlega tíu þúsund vísindalegra athugana víðsvegar um heiminn, þar af u.þ.b. fjögur þúsund í Bandaríkjunum. Afraksturinn sýndi ótvírætt að fullyrðingar um skaðsemi maríúana voru stórlega ýktar. Einnig komu fram vísbendingar um heilnæmi maríúana og hvernig einstaklingar með allrahanda mein höfðu notað það sér til heilsubótar. Viðhorf margra til neyslu kannabisefna tóku gagngerum breytingum frá því sem áður var.

Dr. Lester Grinspoon, prófessor í geðlækningum við Harvard-háskóla og höfundur bókanna ,,Endurmatið á maríúana" (Marihuana Reconsidered) og ,,Maríúana ľ Forboðinn læknisdómur" (Marihuana, the Forbidden Medicine), lýsir eigin sinnaskiptum þannig: ,,Þegar ég hóf að rannsaka maríúana árið 1967, var ég ekki í nokkrum vafa um að það væri sérlega skaðlegur vímugjafi sem væri því miður notaður af sívaxandi hópi treggáfaðs ungs fólks er vildi ekki hlýða á eða gat ekki skilið viðvaranir um hættur þess. Ætlun mín var að afmarka vísindalega eðli og umfang hættunnar. Næstu þrjú árin, á meðan ég fór vandlega yfir lesmál vísindamanna, lækna og leikmanna um efnið, tók afstaða mín að breytast. Það rann upp fyrir mér að, ég, líkt og margir aðrir í þessu landi, hafði verið heilaþveginn. Trú mín á skaðsemi maríúana byggðist ekki á traustum raunvísindalegum grunni. Þegar ég hafði lokið heimildaleit minni, sem var undirstaða nýrrar bókar, var ég orðinn sannfærður um að kannabis væri talsvert skaðminna en tóbak og alkóhól, algengustu löglegu fíkniefnin."

Kannabis í stað róandi lyfja?

Aragrúi vísindalegra rannsókna gáfu til kynna að nota mætti mörg svonefndra kannabínóíða sem finnast í kannabisplöntunni til að ráða bót á astma, bólgum, gláku, klígju af völdum krabbameinslyfja, flogaveiki og sem áhrifaríkt sýklalyf. Einnig þótti sannað að kannabis kæmi að gagni í meðhöndlun lystarstols, Parkinsonsveiki, heila- og mænusiggs (MS) og vöðvarýrnunar. Þá var og athyglivert, að kannabis var í sumum tilvikum sjúklingum til framdráttar, þar sem önnur lyf höfðu brugðist.

Vísindamenn voru bjartsýnir á framtíð kannabislyfja. Árið 1976 spáði dr. Mechoulam því að innan við áratug yrði maríúana komið í hóp algengustu lyfja. Hann taldi víst að það mundi leysa af hólmi tíu til tuttugu prósent þeirra lyfja sem læknar ávísuðu. Kannabis er ódýrt í framleiðslu og mundi þess vegna lækka kostnað heilbrigðiskerfisins svo um munar. Það dugir vel gegn streitu, sem er höfuðorsök margra sjúkdóma, og stæði hvað það varðar betur að vígi en valíum, líbríum og önnur róandi lyf. Öfugt við bensódíasepínsambönd veldur kannabis ekki banvænum eitrunum hjá mönnum. Fráhvarfseinkenni af langtímanotkun eru engan veginn jafnalvarleg og hætta á misnotkun almennt minni. Dr. Lester Grinspoon er sömu skoðunar: ,,Ég er sannfærður um að kannibídíól [eitt af sextíu efnasamböndum kannabis sem hefur lækningamátt] yrði öndvegis svefnlyf og sem kvíðastillandi lyf fremst í sinni röð. Kannibídíól veldur ekki vímu og ólíkt þeim lyfjum sem nú eru notuð eru eiturverkanir litlar sem engar. Þess vegna getur kannabis átt stóran þátt í að leysa eitt alvarlegasta lyfjavandamál Vesturlanda, nefnilega dauðsföll og neyðartilvik á sjúkrahúsum vegna misnotkunar róandi lyfja."

Maríúana löglegt glákulyf

Bandaríkjamaðurinn Robert Randall var einn margra glákusjúklinga sem uppgötvuðu að maríúanareykingar afstýrðu blindu með því að lækka augnþrýsting. Þegar götuverð á maríúana hækkaði upp úr öllu valdi hóf hann að rækta kannabisplöntur heima hjá sér. Lögreglan komst á snoðir um glæpinn og gerði plönturnar upptækar. Randall var ákærður fyrir fíkniefnamisferli en bar því við að óheftur aðgangur að maríúana væri honum læknisfræðileg nauðsyn. Hann fór ekki aðeins fram á að vera sýknaður heldur gerði kröfu um að honum yrði tafarlaust látið í té ríkisræktað maríúana. Til að renna stoðum undir tilkall sitt undirgengst Randall ítarlega læknisskoðun sem staðfesti að hvorki hefðbundin glákulyf né skurðaðgerð yrði honum að gagni. Ljóst var að án maríúana myndi hann alfarið missa sjónina. Í nóvember 1976 úrskurðaði hæstiréttur Bandaríkjanna að neysla á maríúana væri ekki lögbrot í hans tilviki heldur ,,læknisfræðilegt neyðarúrræði". Robert Randall var fyrsti sjúklingurinn af níu sem fá mánaðarlega tinöskju með 300 maríúanavindlingum frá bandaríska ríkinu. Innihald þeirra er ræktað á sérstakri kannabisekru alríkisstjórnarinnar við Missis- sippi-háskólann.

,,Árið 1972 sagði einn fremsti augnlæknir landsins mér að ég væri með ólæknandi gláku og yrði blindur innan við þrjú, í mesta lagi fimm ár. Síðan eru liðinn meir en tuttugu ár og sjónin hefur sjaldan verið betri," segir Randall sem nú er formaður landssambands um kannabislækningar. ,,Það er maríúana að þakka að ég er ekki blindur í dag. Frá því að ég reykti fyrsta maríúanavindlinginn með velþóknun yfirvalda hefur mikið vatn runnið til sjávar. Í dag hafa þrjátíu og fimm fylki Bandaríkjanna leyft neyslu maríúana til lækninga og nýleg skoðanakönnun sýndi að 80% þjóðarinnar telur eðlilegt að kannabis fáist út á lyfseðla. Samt sem áður sitja embættismenn alríkisstjórnarinnar við sinn keip og neita sjúklingum um lyfin sín. Fyrir stuttu var félagi okkar blindur eftir augnauppskurð sem hann þurfti nauðbeygður að gangast undir eftir að hafa í sífellu verið neitað um lögmætan aðgang að maríúana. Nú er ekki svo að viðurkennd glákulyf séu án alvarlegra aukaverkana. Öðru fremur, langtímanotkun glákulyfja hefur oft heiftarleg eiturhrif í för með sér. Viðurkennt er að þau orsaka vagl, nýrnasteinamyndun, magasár, húðútbrot, sótthita, óráð, höstugar geðsveiflur, háþrýsting, öndunartruflanir, nýrna- og hjartabilun, stundum dauða. Yfirvöld horfa hins vegar framhjá þessum hættum vegna þess að lyfin koma í flestum tilvikum að liði. Maríúana er aftur á móti litið hornauga einfaldlega vegna þess að það skapar vímu. Er ekki eitthvað að kerfi sem umber lyf sem veldur fólki vanlíðan en getur ekki gert slíkt hið sama ef það veldur því vellíðan?"

Hagsmunagæsla lyfjaiðnaðarins

Úrskurður hæstaréttar í máli Roberts Randalls vakti þær spurningar hvort kannabis yrði lögleitt innan tíðar. Embættismönum til hrellingar höfðu rannsóknir er flíka áttu skaðsemi kannabisefna sýnt öndverða niðurstöðu og dregið taum þeirra sem vildu róttækar breytingar á fíkniefnalögunum. Árið 1977 kröfðust til dæmis bandarísku læknasamtökin að læknar fengu öðru sinni að ávísa kannabis út á lyfseðla. Lyfjaframleiðendur buðust nú til að rannsaka mólgerðir hampplöntunnar, stjórnvöldum að kostnaðarlausu, í þeim tilgangi að hanna efnafræðilega unnið THC sem hefði græðandi eiginleika án þess að vera vímuvaldur. Stjórnvöld sáu sér leik á borði og veittu lyfjafyrirtækjum einkaleyfi á vísindalegum rannsóknum á heilnæmi tetrahýdrókannabínóls. Heimildin náði þó eingöngu til tetrahýdrókannabínóls en ekki annarra kannabíóíða. Þessi fyrirvari átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér. Með þessu móti var háskólum og hinu opinbera í raun fyrirmunað að stunda frekari rannsóknir á lækningagildi kannabisefna.

Margir urðu til að gagnrýna þessa ráðstöfun og töldu víst að henni væri fyrst og fremst ætlað að fela upplýsingar og gögn sem stjórnvöldum hugnaðist ekki. Tímaritið Omni sagði af þessu tilefni: ,,Núna þegar hundruðir vísindalegra athugana á vegum hins opinbera hafa loks staðfest, svo ekki er um að villast, að óunnið maríúana í sinni náttúrlegri mynd, sé heppilegasti kosturinn fyrir marga sjúklinga, er lyfjafyrirtækjum falið að þróa synthetískt kannabismólikúl á tilraunastofum. Þessi áform taka ekki mið af hagsmunum almennings heldur er þeim ætlað að skapa lyfjaframleiðendum óvæntan gróða í formi einkaleyfa. Hagsmunir lyfjafyrirtækjanna eru gífurlegir því vitað er að þau mundu tapa hundruðum milljóna dollara, jafnvel milljarða dollara árlega, einkum í þriðja heiminum, ef maríúana, eins og það vex út í guðsgrænni náttúrunni, yrði löglegt til neyslu."

Það dró heldur ekki úr tortryggni almennings þegar fréttist að ríkisstjórn Ronalds Reagans hefði farið þess á leit við háskóla og rannsóknarstofur að skýrslur og skjöl sem lutu að kannabisrannsóknum árin 1966-76, ásamt öðrum heimildum og ágripum sem kynnu að finnast á bókasöfnum um þær, yrði tortímt. Fræðimönnum blöskruðu ritskoðunartilburðir yfirvalda og höfnuðu erindinu. Nokkrar rannsóknarúrlausnir í vörslu alríkisstjórnarinnar hurfu þó með undarlegum hætti á meðan aðrar voru í sömu svipan flokkaðar sem trúnaðarmál.

Hasstöflur lyfjaframleiðenda

Árið 1985 var dronabinol (Nabilone® og Marinol®), samtengt eða tilbúið tetrahýdrókannabínól í hylkjum, fáanlegt út á lyfseðla. Hlutverk þess var að koma í stað maríúana þar sem þörfin var mest, einkum meðal krabbameinssjúklinga og þeirra sem þjáðust af eyðni. Lyfjameðferðin sem sett er til höfuðs þessum banvænu sjúkdómum hefur gríðarlegar hjáverkanir í för með sér og jafnvel þjáningar í svo miklu mæli að sjúklingurinn veit stundum ekki hvort veldur honum meiri kvöl meinsemdin eða meðferðin. Algengasta og hjá sumum sjúklingum alvarlegasta hliðarverkunin er viðvarandi klígja og óstjórnleg þörf til að kasta upp. Ósjaldan verða þessi eftirköst til að sjúklingar gefa upp alla von og binda enda á meðferðina enda þótt það leiði óhjákvæmilega til dauða. Lyf sem nota má til að hefta klígju og uppsölu hafa verð þróuð en dæmi eru um að þau virki ekki eða hætti að virka eftir ákveðin tíma. Í einni rannsókn á fimmtíu og sjö sjúklingum þar sem notkun viðurkenndra lyfja gegn velgju og spýju kom ekki að gagni reyndust maríúanareykingar í 87% tilvika leysa vandann. Tilkoma dronabinol vakti því miklar vonir.

Því miður stóðu hasstöflurnar ekki undir væntingunum sem til þeirra voru gerðar. Loforð lyfjaframleiðenda um að aðskilja vímuáhrifin frá verkunum tetrahýdrókannabínóls voru ekki efnd. Þvert á móti þá kvörtuðu notendur marinols yfir því að þeir þyrftu að upplifa þrefalt til fjórfalt meiri vímu en ella til að fá sama ávinning og þegar gott gras átti í hlut. Víman af munnlegri inntöku THC er einnig mörgum hvimleið því hún framkallar kvíða og önnur óþægindi. Vísindamenn frá Perú hafa leitt líkur að því að ástæðan sé sú að aðrir kannabínóíðar, einkum kannabídíól sem hefur róandi áhrif, mildi áorkan tetrahýdrókannabínóls. Annar augljós annmarki á hasspillunum er sú staðreynd að sjúklingar sem þjást af uppköstum eiga erfitt með að halda þeim niðri. Rannsóknir sýna að aðeins 13% þeirra sem nota tilbúið delta-9 THC í töfluformi eru sáttir við notkun þess. Meirihluti sjúklinga kýs að reykja maríúana enda auðveldar það þeim að stjórna því hversu mikið magn af tetrahýdró- kannabínóli berst með blóðinu til heilans. Bandarísk könnun á viðhorfum 1.035 ónæmisfræðinga leiddi í ljós að 44% þeirra höfðu ráðlagt sjúklingum sínum að reykja maríúana til að spyrna gegn aukaverkunum lyfja sem þeir taka. Allur þorri aðspurðra töldu maríúana betra lyf við ógleði og uppköstum en samtengt THC og rúmlega helmingur hópsins kvaðst mundi mæla með því til lækninga ef það væri löglegt.

Fíkniefnadómari mælir með lyfhrifum maríúana

Samkvæmt fíkniefnalöggjöf Bandaríkjanna er hugbreytilyfjum skipað í fimm meginflokka. Maríúana, hass, hassolía og önnur náttúrleg afbrigði tetrahýdrókannabínóls er raðað í flokk I, þar sem hömlur á notkun eru mestar. Samkvæmt skilgreiningunni hefur þessi flokkur lyfja í sér fólgna ,,mikla möguleika á misnotkun", ,,ekkert viðtekið læknisfræðilegt gildi" og ,,skort á viðunandi öryggi" til notkunar jafnvel undir eftirliti lækna. Árið 1972, tveimur árum eftir að þessari flokkun var komið á, fóru Samtök um endurskoðun á lögum um fíkniefni (NORML), Ameríska kannabislyfjafyrirtækið o.fl. fram á það við yfirstjórn fíkniefnalögreglunnar, D.E.A. (Drug Enforcement Administration), að kannabis, líkt og efnasmíðað THC og morfín, yrði skipað í lyfjaflokk II, þannig að læknar gætu ávísað því til sjúklinga.

Í hugum margra var þessi beiðni eðlileg. Eigi að síður var hún ekki tekin til formlegrar afgreiðslu fyrr en eftir málþóf og lögfræðilegt þvarg sem entist í dómskerfinu í nær fimmtán ár. Vitnaleiðslur og heimildasöfnun vegna beiðninnar, árin 1986-88, er ýtarlegasta könnun sem gerð hefur verið á græðandi eiginleikum kannabisefna á okkar tímum. Allmargir sjúklingar og læknar báru vitni og þúsundir síðna af skjölum voru lögð fram. Stjórnsýsludómari fíkniefnalögreglunnar og kunnur íhaldsmaður, Francis L. Young, var valinn til að dæma í málinu. Eftir vandlega yfirvegun kynnti hann úrskurð sinn þess efnis að enginn rök mæltu gegn því að læknar fengu að ávísa kannabisefnum út á lyfseðla.

Kannabis víða notað ólöglega á sjúkrahúsum

Í dómsniðurstöðu sinni sagði Young meðal annars: ,,Sannanir sem finna má í skjölum málsins sýna ljóslega að viðurkennt er að maríúana linar þjáningar fjölmarga einstaklinga sem þjást af illkynja sjúkdómum, og hefur gert það með óyggjandi hætti undir handleiðslu læknaů Það væri ósanngjarnt, gerræðislegt og dyntótt af D.E.A. að halda áfram að standa í vegi fyrir því að þeir sem þjást njóti góðs af þessu efni í ljósi staðreynda málsins." Til að sýna fram á að maríúana hefði lækningagildi ,,án nokkurs vafa" vísaði Young á ógrynni sérfræðinga úr læknastétt og fjöldan allan af læknisfræðilegum rannsóknum á vegum Harvard-háskóla, New York-háskóla og annarra leiðandi læknaskóla. Sjúklingar og læknar vitnuðu um að maríúana aftraði ógleði og uppsölu af völdum krabbameinslyfja og geislameðferðar. Sökum þess hversu ,,geysilega vel heppnaður lystauki" það væri kæmi það fjölmörgum alnæmissjúklingum að miklu gagni, enda víða notað ólöglega á sjúkrahúsum. ,,Þessi farsæla beiting maríúana hefur gefið mörgum krabbameinssjúklingum mun jákvæðara viðhorf til eigin læknismeðferðar almennt," segir í dómsniðurstöðunni.

Dómarinn fullyrti að gögn sýndu að maríúanareykingar væru talsvert áhrifaríkari meðal heldur en samtengt THC í töflum. Hann taldi sannað að maríúana kæmi að góðum notum við að hafa hemil á krampakippum sjúklinga með heila- og mænusigg, við krampalömun og við ofstarfsemi kalkkirtla, sem veldur sársaukafullum efnaskiptatruflunum og kalktapi beina. Honum þótti þó ekki ástæða til að leyfa notkun maríúana við gláku almennt þar sem ekki væri fullsannað að það kæmi öllum gláku- sjúklingum til góða. Þótt maríúana gæti vissulega ,,verið skaðlegt" og ,,misnotað" í sumum tilvikum ,,vega hætturnar af notkun þess ekki þyngra en gagnsemin". Young tók fram að í sögu mannkyns væri dauðsföll af völdum kannabisefna með öllu óþekkt. ,,Flestöll lyf sem læknar nota hafa kunn eituráhrif og geta leitt til dauða, sama verður ekki sagt um maríúanaů Strangt til tekið, í ljósi læknisfræðilegra staðreynda, er maríúana mun öruggara til neyslu en margar fæðutegundir sem við innbyrðum dags daglega ů Maríúana í sinni náttúrlegri mynd er einn áreiðanlegasti læknisdómur sem maðurinn þekkir."

Kaupendaklúbbar kannabisefna

Þrátt fyrir skýlausan úrskurð eigin stjórnsýsludómara neitaði yfirstjórn D.E.A. að færa kannabis í lyfjaflokk II þannig að hægt yrði að tiltaka það sem lyf. ,,Við teljum að slíkt skref mundi gefa ungu fólki villandi skilaboð þegar viðureignin gegn fíkniefnum er annars vegar. Aukreitis eru að okkar mati ekki nægilegar læknisfræðilegar forsendur fyrir því að leyfa maríúana til lækningaů Núna þegar fylgjendur maríúana sem vímugjafa hafa yfirhöndina í áróðursstríðinu er mikilvægt að standa fastur fyrir gegn öllum tilraunum til að veita því hálfgildings lögleiðingu." Dr. Tod Mikuriya, sem rannsakað hefur notkun alnæmissjúklinga á maríúana, sagði af þessu tilefni: ,,Þegar upp er staðið ætti meðhöndlun fólks með banvæna sjúkdóma ekki að hafa neitt með pólitík eða hugmyndafræðilegan ágreining að gera. Faraldurinn snýst um fólk. Um ástvini sem deyja snemmendis hræðilegum dauðdaga. Ef maríúana getur dregið úr sársauka þeirra eru engar ástæður, hvorki stríð gegn fíkniefnum né fjárfestingar lyfjafyrirtækja, sem réttlæta að fólk geti ekki nálgast lyfið sitt með lögmætum hætti."

Þegar ljóst var að yfirvöld mundu ekki láta af tregðu sinni við að útvega maríúana stofnuðu sjúklingar og aðstandendur þeirra svonefnda ,,kaupendaklúbba" í stærstu borgum Bandaríkjanna. Sambærilegir klúbbar hafa verið settir á laggirnar í Bretlandseyjum og öðrum löndum Vestur-Evrópu. Hlutverk þeirra er að tryggja fólki með illkynja sjúkdóma aðgang að gæðaefni á vægu verði. Dennis Peron, sem leiðir stærsta kaupendaklúbbinn í San Francisco, segir um starfsemi hassklúbbanna: ,,Hér er um dæmigerðan heimilisiðnað að ræða. Við fáum þurrkaða blómsprota kannabisplantna á vægu verði frá ræktendum, jafnvel gefins, og veitum þeim til einstaklinga sem eru sannanlega með krabbamein, heila- og mænusigg eða alnæmi. Margir koma til okkar vegna ábendinga lækna og annars hjúkrunarfólks sem vilja tryggja sjúklingum sínum bestu meðhöndlun sem kostur er á. Þeir sem hafa lítil auraráð fá efnið ókeypis á meðan þeir sem betur eru staddir borga hærra verð. Eftir- spurnin er mikil og þess vegna getum við aðeins sinnt þeim sem eru með alvarlegustu sjúkdómana. Starfsemin var upphaflega ólögleg en borgaryfirvöld og löggæslumenn leyfðu okkur að starfa í friði því þeim var ljóst hversu þörfin var mikil. Núna þegar fylkislögunum hefur verið breytt og kaupendaklúbburinn er orðinn löglegur eigum við hins vegar í vanda því alríkisstjórnin sættir sig ekki við tilvist okkar."

Kannabislyf á Íslandi

Samkvæmt heimildum frá Lyfjaeftirliti ríkisins hefur Nabilone®, efnasmíðað THC, verið ávísað hér á landi í nokkrum tilvikum í samræmi við reglur um notkun óskráðra lyfja. Það hefur einkum verið gefið til að draga úr klígju vegna lyfjameðferðar krabbameinssjúklinga. Aðspurður um notkun kannabis til lækninga hér á landi svaraði reykvískur læknir sem vill ekki láta nafns síns getið: ,,Mér er kunnugt um að einstaka sjúklingar hafi verið að fikta við að reykja hass sér til heilsubótar. Sjálfur hefði ég kosið að þeir notuðu viðurkennd lyf til að stemma stigu við hjáverkunum lyfja sem þeir taka, en ef hassreykingar gera meira gagn, eins og þeir virðast telja sér trú um, þá set ég mig ekki á móti þeim. Þeir sem mæla með hassreykingum til lækninga ættu þó að hafa í huga að kannabisreykur hefur meira af krabbameinsvaldandi tjöruefnum en tóbaksreykur. Hassreykingar hljóta því að hafa skaðleg áhrif á lungu þegar til lengri tíma er litið."

Mígreni og kannabisreykingar

,,Ég kynntist fyrst maríúanareykingum í Amsterdam," segir 46 ára hafnfirsk listakona og mígrenisjúklingur. ,,Það breytti lífi mínu stórlega. Í fyrsta sinn í fjórtán ár var ég ekki lengur undir náð og miskunn mígrenikasta sem gerðu líf mitt að kvalræði með reglulegu millibili. Vinkona mín sem var þá við læknanám benti mér á að það væri víða notað til að kæfa mígreniköst í fæðingu. Þegar ég kom heim útvegaði ég mér hass og núna fer ég aldrei út úr húsi án þess að hafa litla pípu og hassmola í handtöskunni minni. Þegar ég finn til svima eða syfju, sem er yfirleitt undanfari mígreni- kastanna, blanda ég lítilræði í pípu og reyki tvo til þrjá smóka. Það dugar yfirleitt til að halda köstunum í skefjum.

Áður fyrr þurfti ég að nota sterk deyfilyf og önnur lyf sem komu ekki nema að takmörkuðu gagni, höfuðverkurinn hvarf en ekki ógleðin og sjóntruflanirnar voru þær sömu. Ég var óvinnufær og ekki mönnum sinnandi undir áhrifum þessara lyfja. Eftirköstin af lyfjunum voru óbærileg; brjóstsviði, harðlífi, útbrot, sljóleiki, eftir því hvaða lyfjum ég var á hverju sinni. Hassið var eins og himna- sending, það losaði mig við öll þessi einkenni. Það versta í því sambandi er hins vegar feluleikurinn og óttinn um að vera staðinn að verki. Ég er ekki dópisti, þegar ég geri mér dagamun, kýs ég frekar kælt rauðvín eða glas af líkjör. Hass fyrir mér hefur aldrei verið annað en nauðsynlegt lyf."

Krabbameinssjúklingur segir frá

,,Þegar ég kynntist fyrst hassreykingum sem meðal við velgju var ég við það að gefa upp alla von," segir 29 ára reykvískur tæknifræðingur sem þjáist af krabbameini. ,,Ég var vart orðinn annað en skinn og bein. Bara tilhugsunin um að nú þyrfti ég að fara að mæta í lyfjagjöf upp á spítala var nóg til þess að ég kúgaðist. Ég hafði enga matarlyst, þoldi ekki einu sinni að finna lykt af mat án þess að kasta upp. Þegar ég kom heim frá spítalanum gætti ég þess vandlega að troða handklæðum milli stafs og hurðar á herberginu mínu til að finna ekki lyktina úr eldhúsinu. Ég ældi stundum samfellt í sjö til níu tíma. Þangað til ekkert kom upp úr mér annað en gall og blóð. Þegar því lauk tók við flökurleiki sem entist dögum saman. Lyfin sem ég fékk við þessu höfðu enginn áhrif. Ég svaf varla nema tvo til þrjá tíma á sólarhring og var orðinn svo niðurdreginn að ég vildi helst ljúka þessu af og deyja.

Hjúkrunafræðingur sem sá að ég var að veslast upp vegna lyfjanna trúði mér fyrir því að kannabis kæmi stundum að gagni í svipuðum tilfellum. Eins og komið var fyrir mér var ég tilbúinn að reyna hvað sem er. Breytingarnar sem urðu eftir að ég byrjaði að reykja voru ótrúlegar. Ógleðin hvarf eins og dögg fyrir sólu, ég fór að borða reglulega, enda matarlystin með ólíkindum. Ég fitnaði um tæp tuttugu kíló á aðeins einum mánuði. Ég svaf eðlilega, fyrsta sinn í mörg ár, og fór að geta farið út á meðal fólks á nýjan leik. Fyrstu mánuðina reykti ég hass, en núna reyki ég eingöngu maríúana sem ég rækta sjálfur. Ég kann betur við grasið vegna þess að áhrifin eru mildari, hassvíman er of krefjandi fyrir minn smekk.

Ef allt væri með felldu fengi ég maríúana frá lækninum mínum eins og önnur lyf sem ég þarf á að halda. Hann getur gefið mér morfín ef hann telur mig þurfa þess með, hvers vegna ekki maríúana? Fyrir mér er það spurning um líf og dauða. Maríúana gerði mér kleift að endurheimta sjálfsvirðinguna. Mér finnst ég vera orðinn mennskur á ný. Samt sem áður verð ég að pukrast með það inná klósetti eins og glæpamaður. Ég vona að þessi grein sem þú ert að skrifa opni augu fólks. Vekji umræðu. En eins og málum er háttað þá efast ég um að hún verði einu sinni birt."

═tarefni

1. Björn Halldórsson, fyrrum yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar, lýsti því yfir í tímaritsviðtali fyrir skömmu að ef hann þyrfti að velja á milli brennivíns og maríúana, þá yrði maríúana fyrir valinu sem heppilegri vímugjafi. ,,Vandræðin af áfenginu," segir hann ,,eru mun meiri en af maríúana."

2. Lyfjamixtúra frá 19. öld sem ætluð var börnum og innihélt kannabis. Athyglisvert er að á þeim áttatíu árum sem kannabis var notað til lækninga á Vesturlöndum var notkun þess sem nautnalyfs nær óþekkt fyrirbæri.

3. Kannabisekra bandarísku ríkisstjórnarinnar við Missisippi-háskólann.

4. Elvy Musikka er ein af níu sjúklingum sem fá mánaðarlega 300 maríúanavindlinga frá bandaríska ríkinu.

5. Starfsmaður kaupendaklúbbs kannabisefna í San Francisco undirbýr lyf fyrir skjólstæðinga sína.

6. Tvær á besta aldri fagna nýrri lagasetningu í Kaliforníu sem gerir sjúklingum kleift að reykja maríúana sér til heilsubótar.

7. Tískuvörur af ýmsu tagi sem gerðar eru úr hampi.

8. ,,Maríúana - Morðingi ungmenna", veggspjald sem notað var á fjórða áratugnum til að réttlæta bann á hampi. Þegar tækninýjungar höfðu bætt samkeppnisstöðu hampframleiðenda komu olíufyrirtæki, timbursalar og gerviefnaframleiðendur því til leiðar að hampur var bannaður hvort sem var til iðnaðarframleiðslu eða lækninga.

9. Bílaframleiðandinn Henry Ford sýnir styrk bifreiðar sem smíðuð var úr hampi og hönnuð til að nota hampeldsneyti í stað bensíns.

10. Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjaeftirliti ríkisins hefur efnasmíðað THC, vímuvaldur kannabisefna, verið ávísað hér á landi á undanförnum árum.

  | Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisver­ar heimasÝ­ur  | Um höfundinn  | T÷lvupˇstur