| Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisverðar heimasíður  | Um höfundinn  | Tölvupóstur

Fyrri líf Guðmundar Sigurfreys

Eru minningar um fyrri líf raunverulegar eða tómur hugarburður og ímyndun án nokkurra haldbærra sannana? Greinarhöfundur ákvað að leita til þriggja miðla til að forvitnast um síðustu jarðvist sína. Niðurstaða þessarar nýstárlegu könnunar kom nokkuð á óvart og varð önnur en blaðamaður hafði sjálfur búist við í upphafi.

Spurningin um framhaldslíf og fyrri æviskeið hefur heillað mannkynið frá örófi alda. Milljónir þær, sem aðhyllast trúarbrögð Austurlanda fjær, líta á endurholdgun sem sjálfgefin hlut. Þær trúa því að við dauðann yfirgefi sálin líkamann og endurfæðist í nýjum líkama eftir hæfilegan biðtíma. Þessi biðtími getur, eftir atvikum, verið mislangur; tvö eða þrjú ár eða jafnvel svo öldum skiptir.

Kringumstæður og lífsskilyrði einstaklingsins mótast af því hvaða karma hann kemur með frá fyrra jarðlífi. Karma er réttlætislögmál orsaka og afleiðinga. Einstaklingurinn nýtur góðs af jákvæðum athöfnum og hugsunum fyrri jarðvista en þarf að gjalda fyrir misgjörðir sínar og það sem miður hefur farið. Hvernig honum lánast í þessu lífi að bæta fyrir það, sem úrskeiðis fór, sker úr um hvernig honum farnast í næsta lífi eða þeim næstu.

Sumir eru fæddir blindir eða bæklaðir á meðan aðrir njóta hagstæðra og örvandi kringumstæðna. Samkvæmt karma verður slíkt ekki fyrir tilviljun heldur vegna óhjákvæmilegra afleiðinga fyrri gjörða. Hér er ekki um umbun eða refsingu að ræða heldur sjálfviljugt val sálarinnar sem kýs að fæðast við þau lífsskilyrði er færa henni sem mestan þroska. Hversu illu karma, sem einn einstaklingur kann að búa að frá fyrri jarðvist, þá er honum í sjálfsvald sett að hve miklu leyti hann bætir fyrir það í þessu lífi. Markmiðið með hverri endurfæðingu er að öðlast meiri fullkomnun. Þegar að leiðarlokum er komið og fullum þroska hefur verið náð þarf sálin ekki lengur að fæðast til nýrrar jarðvistar heldur getur hún notið eilífrar sælu handan rúms og tíma. Sumar sálir kjósa hins vegar að snúa aftur til jarðarinnar, til þess að leiðbeina mannkyninu og hraða þróun þess, og eru Jesú Kristur og Gotama Búddha teknir sem dæmi um persónur af því tagi.

Trúin á endurholdgun og fyrri líf er ekki bundin við austræn trúarbrögð því fjölmargir á Vesturlandabúar aðhyllast þessar hugmyndir. Þeir geta ekki lengur sætt sig við kenningar kirkjunnar um dómsdag, hreinsunareld, víti og eilífa himnavist. Flestum finnst þessar trúarkenningar fram úr hófi barnalegar og hafna þeim sem hverri annarri fásinnu. Kristnir bókstafsdýrkendur líta á endurholdgunarkenninguna sem vélabrögð Satans því hún stingur í stúf við hugmyndir og túlkanir sem þeir trúa í blindni og hugsunarlaust. Þrátt fyrir taumlausa biblíudýrkun gera þeir sér ekki grein fyrir að hugmyndir manna um endurholdgun og karma má finna í sjálfum guðspjöllunum. Jesú Kristur kennir að ,,eins og þér sáið munuð þér uppskera" og segir á einum stað: ,,Undrist eigi; að ég segi við þig: Yður ber að endurfæðast". Reyndar var endurholdgunarkenningin ein af undirstöðum frumkristninnar. Það var ekki fyrr en á kirkjuþingi í Konstantínópel árið 536 að kaþólska kirkjan féll frá þessu trúaratriði og þá fyrst og fremst af pólitískum ástæðum.

Vísindamenn rannsaka fyrri líf

Breytt viðhorf í heimi vísindanna hafa gefið rannsóknum á endurholdgun byr undir báða vængi. Dr. Ian Stevenson er sá vísindamaður sem hefur einna mest beitt sér fyrir rannsóknum á fyrri lífum hin síðari ár. Hann og samstarfsmenn hans taka einkum fyrir svoköllurð ,,sjálfsprottin tilfelli", þ.e. börn sem fullyrða að þau hafi lifað á öðrum stað og tíma. Í slíkum tilvikum mætir hann á vettvang og spyr barnið hvort það þekki staði, muni og fólk sem tengist fyrra lífi þess. Einnig yfirheyrir hann öll önnur vitni, sum oftar en einu sinni með margra ára millibili, er geta á einhvern hátt varpað ljósi á hvort um raunverulega endurholdgun sé að ræða eða ekki. Dr. Stevenson hefur nú í fórum sínum um 600 skráò tilfelli sem benda til þess að um endurfæðingu sé að ræða. Aðrar viðhlítandi skýringar á þessum tilvikum hafa einfaldlega ekki fundist. Ólíkt öðrum rannsóknarmönnum á sviði sálarrannsókna hefur Ian Stevenson öðlast alþjóðlega viðurkenningu fyrir athuganir sínar. Þær þykja bera vott um gagnrýnið hugarfar og strangvísindaleg vinnubrög8. Niðurstöður hans hafa verið birtar í fagtímaritum vísindamanna sem að öllu jöfnu ljá ekki máls á rannsóknum af þessu tagi.

Aðrir vísindamenn beita tækni, sem nefna mætti afturhvarfs-dáleiðslu, í þeim tilgangi að grafast fyrir um minningar frá fyrri æviskeiðum. Dáþolinn er látinn hvíla á legubekk. Þegar hann er fallin í djúpan dásvefn færir dávaldurinn skjólstæðing sinn aftur í tímann, t.d. til þess tíma að hann var fimm eða tveggja ára og loks að fæðingarstundinni og ef vel tekst aftur til fyrra lífs. Dáþolinn tekur þá að lýsa stöðum, viðburðum og persónum sem hvorki hann né dávaldurinn hafa minnstu hugmynd um. Dæmi eru um að dáþolinn tali framandi tungumál, sem hann hefur örugglega aldrei lært, eða búi yfir sérhæfðri þekkingu sem hann kann engin skil á í venjulegu vökuástandi. Þrátt fyrir tilvik af þessu tagi telst þessi aðferð mjög vafasöm og er talin hafa takmarkað sönnunargildi. Hætta er á að svonefndar endurminningar frá fyrri æviskeiðum séu lítið annað en hugarburður viðkomandi, samsett brot úr hinu og þessu, sem hann hefur heyrt eða séð, og jafnvel ómeðvitaður tilbúningur hnoðaður saman til þess að þóknast dávaldinum. Í öllu falli standast þær ekki kröfur sem gerðar eru til vísindalegra vinnubragða.

Fyrri líf á útsölu!

Sá, sem þetta ritar, hefur frá því að hann fyrst man eftir sér trúað á fyrri líf. Mér fannst það eðlilegust skipan mála og þegar ég hitti fólk, sem var á annarri skoðun, átti ég erfitt með að skilja þankagang þess Með vaxandi áhuga og tiltrú á dulrænum fyrirbærum hefur einstaklingum, er taka greiðslu fyrir að upplýsa fólk um æviskeið sín, farið fjölgandi. Þegar ég sá þessa þjónustu auglýsta hér á landi í fyrsta sinn gat ég ekki annað en brosað yfir vitleysunni því þótt ég tryði á endurholdgun og fyrri líf átti ég erfitt með að trúa því að fólk, jafnvel þeir sem þykjast búa yfir dulrænum hæfileikum, sé þess megnugt að geta upplýst aðra um hvað það hafi verið fyrr á öldum. Að vísu þekki ég eina konu, sem er skyggn og jafnvel líkleg til að geta frætt mig um mína fyrri lífdaga, en þegar ég spurði hana hvað ég hefði verið í síðustu jarðvist sagði hún að fyrst ég væri svo vitlaus að vita það ekki sjálfur, þá hefði ég ekkert að gera með að vita það!

Nú er hins vegar svo komið að annar hvor maður, eða því sem næst, þykist vera fær um að skyggnast yfir móðuna miklu og fræða okkur um hvar við höfum drepið niður fæti á umliðnum öldum. Til þess að kanna þetta nánar ákvað ég að hafa samband við þrjá aðila, sem auglýsa þjónustu af þessu tagi, og athuga hvað þeir höfðu að segja um mín fyrri líf. Þegar ritstjórinn hafði samþykkt hugmyndina pantaði ég tíma hjá leiðbeinendunum þremur sem, eftir því sem ég best veit, eigaa ekkert samstarf sín á milli. Ég sagði þeim ekki hvað ég hefði í hyggju og reyndi að haga mér að öllu leyti eins og hver annar áhugamaður um dulræn málefni.

Líf mitt sem nasisti og önnur æviskeið

Fyrsti miðillinn, sem ég fékk tíma hjá, heitir Keith Surtees, breskur ,,sambandsmiðill" sem beitir ,,dáleiðslu til fyrri lífa" og titlar sig einnig sem ,,leiðbeinanda" og ,,kennara". Keith Surtees hefur, ásamt eiginkonu sinni Fionu Surtees, starfað hér á landi um nokkurra mánaða skeið. Um tíma störfuðu hjónin á vegum andlegrar miðstöðvar, sem nefnist Pýramídinn og er til húsa að Dugguvogi 2 í Reykjavík, en sem stendur starfa þau á eigin vegum. Þau hafa einnig verið með þjálfunarhópa og helgarnámskeið um andleg málefni. Einkatíminn hjá Keith Surtees kostar 3000 kr. Keith Surtees er með vinnuaðstöðu í raðhúsi í Garðabæ. Þegar ég mætti til hans tók hann hlýlega á móti mér og vísaði mér inn í lítið snoturt herbergi sem bar engin merki þess að þar væri miðill að störfum. Þegar hann hafði útskýrt fyrir mér í stuttu máli hvaða aðferðum hann beitti rétti ég honum snældu sem hann smellti í lítið ferðatæki er hann hafði sér við hlið. Þannig gæti ég átt upptöku af öllu því sem fram færi. Að því búnnu lagðist ég fyrir á sófa og kom mér vel fyrir í almennri hvíldarstöðu. Keith byrjaði á því að fara með slökunarþulu sem hafði brátt þau áhrif að nær allir vöðvar líkamans virtust vera fullkomlega slakir. Um tíma fannst mér ég svífa á dúnmjúku skýi og verða eingöngu var við marglátar hugsanir mínar, efasemdir og þýða rödd leiðbeinandans.

Keith bað mig um að sjá fyrir hugskotssjónum mínum gang með mörgum dyrum. Ég átti að ganga að einni þeirra, ljúka henni upp og stíga því næsst inn í fyrri æviskeið. Efti að hafa virt fyrir mér ýmsa innganga stóð ég frammi fyrir dyrum sem mér þótti veita aðgang að síðustu jarðvist minni. Ég ákvað að stíga inn fyrir og eftir nokkrar atrennur sá ég í huga mér mynd af torgi alsettu tíglum eða múrsteinum. Umhverfis torgið voru húsþyrpingar af þeirri gerð sem finnast einkum í Mið-Evrópu. Einnig sá ég svarta bifreið, sem mér fannst á einhvern hátt tengjast mér, en í framsæti hennar sat karlmaður með dökkt kaskeiti, líklega einkabílstjóri. Þega Keith bað mig um að lýsa fyrir sér klæðnaði mínum leit ég niður á fætur mína og tók eftir því að ég var í svörtum leðurstígvélum. Því næst varð mér ljóst að ég var í einhvers konar búningi, að öllu líkindum herbúningi. Á snöggu augabragði virtist mér ég sjá svartan hakakross á armbandi sem ég bar á upphandleggnum. Það fór ekki lengur á milli mála að ég var staddur í Þýskalandi á tímum Þriðja ríkisins!

Keith spurði mig um litinn herklæðunum og eftir að hann hafði nefnt fjögur litafbrigði fannst mér ég vera í svörtum einkennisbúningi. Með öðrum orðum í SS-hreyfingunni, hvorki meira né minna! Ég skynjaði einnig ýmislegt annað frá þessum tíma. Glymrandi og gagntekin ræðuhöld, hakakrossprýddar fánaborgir og stórfellda eyðileggingu af völdum sprengjuárása, auk kvíðboga fyrir því að illa færi að endingu þrátt fyrir góðan ásetning. Keith hughreysti mig og fullvissaði mig um að ég þyrfti ekki að finna til sektarkenndar. Umrætt líf væri aðeins áfangi á langri þroskabraut. Þessi ábending þótti mér skjóta skökku við því ég fann alls ekki til iðrunar. Þvert á móti upplifði ég mann sem háði hetjulega baráttu fyrir guð og föðurlandið. Á tímabili vildi ég hrópa upp: ,,SIGEL HEIL! DEUTCHLAND ÜBER ALLES IN DAS WELDT!" en lét það ekki eftir mér enda átti ég erfitt með að taka þessar sýnir alvarlega. Ég var gramur út af því að hér var ekki um eiginlega dáleiðslu að ræða helduur öllu frekar hugsýnir se koma fram við djúpslökun og má skoða sem andsvar við kröfum heilans um stöðuga hugarstarfsemi.

Eftir skamma hríð hættu myndirnar að birtast mér og fyrir framan mig skynjaði ég aðeins gapandi tóm. Þegar hér var komið sögu fannst mér það, sem á undan hafði gengið, með öllu ómarktækur þvættingur, ímyndun ein, og ætti ekkert skylt við endurminningar úr fyrra lífi. Þegar Keith Surtees sá að hvorki gekk né rak benti hann mér á að ég gæti farið inn um aðrar dyr og skoðað önnur líf. Ég gerði það í huganum en var staddur í Þýskalandi á ný. Í þetta sinn var ég yngri en þó sami maður og áður og var nú um það bil að fara stökkva í fallhlíf út úr flugvél. Ég var þátttakandi í þjálfunarbúðum ásamt öðrum ungum mönnum. Þegar ég hafði sagt skilið við fortíð mína sem nasisti upplifði ég sjálfan mig einnig sem indíána, fránan og þróttmikinn bardagamann er hafði unun af skærum og hernaði. Einnig skynjaði ég sjálfan mig sem tíbetskan eða mongólskan hestamann á faraldsfæti. Ég var í skinn- og ullarklæðnaði með þykka og efnismikla hettu sem afmarkaði veðurbarið andlitið, svört augu, koparlitaða húð og tjásulegt skegg. Að lokum sá ég sjálfan mig sem indverskan jóga, hátt uppi í Himalajafjöllum, í einveru hellis míns í djúpri hugleiðslu. Á enni mér mátti sjá móta fyrir þríforki, sem ég dró upp Shiva (einum helsta guði Hindúa)til dýrðar, með blöndu af ösku og litarefnum. Ég var nakinn að öðru leyti en því að ég var í mittisskýlu og sat með krosslagða fætur á blettatígurskinni. Mér fannst ég svo horaður að ég minnti einna helst á eyðnisjúkling í dauðateygjunum eða múslima í fangabúðum Bosníu-Serba.

Þegar þessi hugarleikfimi eða afturhvarf til fyrri lífa var til lykta leitt hafði ég tækifæri til þess að spyrja Keith Surtees nokkurra spurninga. Ég kvartaði yfir því að hér væri ekki um raunverulega dáleiðslu að ræða heldur frekar frjáls hugrenningatengsl sem gætu leitt til hvaða niðurstöðu sem er. Hann svaraði því til að hvort við kölluðum þetta dáleiðslu, hugleiðslu eða stýrðar hugsýnir skipti ekki höfuðmáli heldur hitt að reynslan hefði kennt honum að þessi aðferð leiddi að öllu jöfnu til þess að fólk gæti rifjað upp brot úr fyrri æviskeiðum. Það fyrsta, sem kæmi upp í hugann, gæfi oftar en ekki rétta vísbendingu um það hvernig fyrra lífi viðkomandi hefði verið háttað. Hann lagði þó áherslu á að fyrsta lífið, sem maður upplifði, þyrfti ekki nauðsynlega að vera það æviskeið sem orkaði hve mest á núverandi líf. ,,Þegar ég sá þig fyrst sá ég fyrir mér tvo fíla einhvers staðar á Indlandi. Ég var þess vegna strax sannfærður um að þú hefðir verið Indverji í einum af þínum eldri jarðvistum. Núna veit ég að það líf, sem hefur langsamlegast sterkust áhrif á þig í dag, er líf þitt sem jógi og andlegur nemi. Hlutverk þitt í þessu lífi er að feta áfram sömu þroskabraut og miðla af reynslu þinni og þekkingu á andlegum málum".

Þessu næst spurði ég Keith Surtess hvort hann gæti sagt mér til um hvernig líf mitt sem SS-foringi hefði endað. Hann sagðist hafa á tilfinningunni að ég hefði framið sjálfsmorð, annað hvort með hópi af mönnum eða í beinu framhaldi af sjálfsvígum annarra manna sem ég þekkti til. Þetta hefði gerst skömmu fyrir lok stríðsins. ,,Þú varst þá ungur maður, vart nema fertugur að aldri", sagði hann alvörugefinn.

Stjörnuspeki sálarinnar

Þegar ég fór frá Keith Surtees var ég fullur efasemda, sannast sagna snertur samviskubiti yfir því að vera eyða fjármunum útgefandans í þessa sýslan því ennþá átti ég eftir að heimssækja tvo miðla og borga þeim fyrir að vekja með mér minningar um fyrri líf. Endurminningar sem ég hafði litla trú á að ættu við rök að styðjast. Tveimur dögum síðar var ég staddur hjá Þórunni Helgadóttir en hún ,,les úr stjörnukortum", ,,aðstoðar við að sækja minningar um fyrri líf" og veitir ,,almenna ráðgjöf". Einkatíminn hjá henni kostar 3.500 kr. Markmiðið var að reyna að ráða í mín fyrri líf með aðferðum stjörnuspekinnar og svonefndar Kristos-tækni sem á uppruna sinn að rekja til Ástralíu og byggir á slökun, sjálfssefjun og beitingu ímyndunaraflsins. ,,Stjörnuspeki sálarinnar", eins og Þórunn kýs að kalla túlkunarkerfi sitt, byggir sumpart á hefðbundinni stjörnuspeki en er frábrugðin henni að því leyti, að kortin eru túlkuð með það í huga hvaða lexíu sálin ætlar sér að takast á við með tilliti til reynslu fyrra lífs.

,,Ég legg aðaláherslu á þætti sem nefnast sólmyrkvi, tunglmyrkvi, norður-nóða og suður-nóða," útskýrir hún. ,,Þegar talað er um sólmyrkva í stjörnukorti, t.d. sólmyrkva í nauti, er átt við þann sólmyrkva sem átti sér stað á meðgöngutímanum. Í stjörnuspekinni er hann álitinn táknrænn fyrir þá orku sem maður kemur með inn í lífið. Hann táknar einnig þá hluti sem maður kennir öðrum. Tunglmyrkvinn stendur aftur á móti fyrir þá orku eða reynslu sem maður þarf sjálfur að ávinna sér. Oft er hér um að ræða ,,Akkelisarhæl" persónuleikans, veikan blett sem maður gerir sér ekki grein fyrir eða er líklegur til þess að lenda í erfiðleikum með. Norður-nóðan táknar síðan framtíðina og það sem maður þarf að stefna að en suður-nóðan segir til um fortíðina og fyrri líf."

,,Þú ert með tungl í Krabbanum sem bendir til þess að þú hafir í fyrri lífum verið ákaflega háður fjölskyldu þinni, bæði tilfinningalega og efnahagslega. Þessi þáttur fortíðarinnar hefur orðið til þess að þú ert í dag mjög viðkvæmur fyrir gagnrýni og aðfinnslum annarra, einkum þeirra sem standa þér næst. Ef einhver, sem þú reiðir þig á, bregst trausti þínu getur það tekið þig langan tíma að jafna þig. Þú hefur einnig suður-nóðu í Nautinu sem bendir til þess að þú hafir lifað í ríkidæmi. Ég sé þig fyrir mér við óðalsetur einhvers staðar í Evrópu, líklega verið landeigendasonur og lifað lífi þar sem þú hefur fengið allt upp í hendurnar. Í umræddri jarðvist hefur þú verið ákaflega ábyrgðarlaus og eyddir tíma þínum að mestu í skemmtanir og kvennafar. Ég hef á tilfinningunni að hér sé ekki um að ræða þitt allra síðasta líf heldur endurholdgun fyrir um það bil tvö hundrað árum."

Þórunn heldur áfram: ,,Þú hefur norður-nóðu í Sporðdrekanum. Það þýðir að þú þurfir að tileinka þér nýtt verðmætamat í þessu lífi. Þú þarft að endurskoða afstöðu þína í sambandi við peninga og eignir og temja þér hreinskipta tjáningu. Helstu erfiðleikarnir, sem þú kemur til með að þurta að glíma við í þessari jarðvist, lúta að fjármálum og vinnusemi. Það er mikilvægt fyrir þig að efla sjálfsvirðingu þínu að því marki að þér finnist þú eiga skilið að komast í álnir og búa vel efnahagslega. Helsta keppikefli þitt í þessu lífi ætti að vera að búa þannig um hnútana að þú hafir það gott, eigir nóg."

,,Eins og ég sagði áðan þá táknar tunglmyrkvinn þá orku eða lexíu sem þú þarft að læra í þessu lífi. Þú ert með tunglmyrkva í Nautinu sem þýðir að þú þarft að læra að temja þér hreinskilni í samskiptum við aðra og hafa skýran ásetning varðandi öll þau verkefni sem þú tekur þér fyrir hendur. Þú hefur tilhneigingu til þess að láta hlutina hanga í lausu lofti. Það er mikilvægt fyrir þig að vinna skipulega og hafa á hreinu hvaða kröfur eru gerðar til þín og hvers þú óskar af öðrum."

Ég gat ekki annað en tekið undir margt af því, sem hún sagði, og skildi nú betur hvers vegna stjörnuspekin er af mögrum talin kjörin leið til sjálfsþekkingar. ,,Þú ert með sólmyrkva í Bogamanninum. Þú ert dæmigerður persónugervingur sannleiksleitandans. Á liðnum öldum hefur þú kynnt þér öll helstu trúarbrögð mannkyns og mismunandi leiðir sem mannkynið hefur þróað til þess að nálgast guðdóminn. Í þér býr mikil þekking og næmur skilningur á því sem er sameiginlegt með þessum trúarbrögðum. Þú skilur vel kosti þeirra og annmarka og átt auðvelt með koma auga á rauða þráðinn sem liggur í gegnum þessa ólíku trúarsiði. Ásókn eftir visku er ríkur þáttur í sálargerð þinni. Ég býst við því að þegar þú kynnir þér einhverja heimspekistefnu eða þroskaleið þá finnst þér stundum eins og þú hafir heyrt þetta allt saman áður. Það, sem þú kennir fólki, lýtur einkum að andlegum málefnum, hlutverk þitt er að vísa á sameiginlega kjarna í trúarbrögðum mannkyns og vinna gegn fordómum og hugmyndafræðilegum kreddum. Í þessari sannleiksleit þinni hefur þú til dæmis starfað innan kaþólsku kirkjunnar og einnig verið galdramaður á Bretlandseyjum, svo einhver dæmi séu tekin."

Kristos-tæknin

Ég spyr hana nú hvort hún geti sagt mér hvað ég hafi verið í síðasta lífi. Til þess segist hún þurfa að beita Kristos-tækninni sem áður hefur verið minnst á. Aðferðin er ekki ólík því sem ég hafði reynt hjá Keith Surtees. Það, sem kom mér mest á óvart, var að útkoman var svipuð. Enn og aftur var ég staddur í Þýskalandi á valdatíma nasismans. Í þetta sinn fannst mér ég standa yfir skrifborði heima hjá mér og vera skoða tækniteikningar af vopnabúnaði. Heimili mitt var ríkmannlegt sveitasetur með stórum garði. Úr stofunni hjá mér mátti sjá þjóðfána þýska ríkisins blakta við hún. Mér finnst ég eiga í útistöðum við valdamikla aðila innan ákveðins hóps og á milli okkar ríkir gagnkvæmt vantraust. Ég hafði ekki áhuga á að grennslast meira fyrir um þetta tímabil. Fyrr en varir var ég farinn að upplifa mig sem indíána. Ég naut þess að vera úti í náttúrunni, frjáls og engum háður.

Að Kristos-ferlinu loknu spyr ég Þórunni hvort hún hafi orðið þess áskynja með hvaða hætti ég hafi kvatt heiminn í síðustu jarðvist. ,,Ég fæ á tilfinninguna að þú hafir verið myrtur, tekinn af lífi þér að óvörum. Og það af þínum eigin mönnum." svarar hún. Eftir dálitla umhugsun bætir hún síðan við: ,,Ég veit ekki hvort það er rétt hjá mér en mig grunar að þú hafir verið einn af þeim sem voru drepnir í hreinsunum sem urðu í kjölfar misheppnaðs samsæris til að ráða Adolf Hitler af dögum." Áður en við kveðjumst segir hún vingjarnlega, líkt og hún vilja hughreysta mig: ,,Samt sem áður finnst mér að þessi lífsreynsla snerti þig lítið í dag. Þroskaskref þín í þessu lífi eru af öðrum toga og í beinu framhaldi af leit þinni að andlegum verðmætum."

Bardagaþörf indíánans

Þegar ég gekki á fund Önnu Cörlu Ingvadóttur hlakkaði ég til að heyra hvað hún hefði að segja um mín fyrri líf. Anna Carla starfar sem miðill hjá Spíritistafélagi Íslands. Í tilkynningu frá Spíritistafélaginu stendur að hún sé með ,,einkatíma sem læknamiðill" og ,,segi fólki hvernig fyrri líf tengist því".

Anna Carla Ingvadóttir er einnig með námskeið í dulrænum fræðum og þróun andlegra hæfileika. Einkatíminn hjá henni kostar 2.500 kr. Anna Carla var ólík hinum miðlunum að því leyti að hún notaði enga sérstaka tækni til þess að laða fram endurminningar um fyrri líf. Þess í stað sat hún í stól og óð elginn í míkrafón sem var tengdur við segulbandstæki. Stundum pírði hún augun og horfði fast til hliðar við mig eða fyrir ofan mig líkt og hún væri að skoða eitthvað sem þar væri. Hún gerði einnig mikið af því spyrja mig spurninga sem fólu í sér vissar staðhæfingar um heilsufar mitt, núverandi aðstæður og lífsreynslu. Flestar þeirra misstu marks.

Þrátt fyrir það tókst henni vel upp þegar kom að því að lýsa mínum fyrri lífum. Það er að segja ef eitthvað er að marka það sem Keith og Þórunn höfðu áður sagt og ég sjálfur að hluta til upplifað. Anna Carla fullyrti strax að ég hefði lifað því sem hún kallaði ,,sterk líf". ,,Lífum sem einkennast af miklum skaphita, bardagagleði og andláti um aldur fram." ,,Þú hefur verið indíáni", segir hún, ,,bardagamaður og þaó oftar en einu sinni. Þú vilt berjast til þrautar og hefur sterka frelsisþörf. Pú ert með mikla hreyfiorku, ert nýjungagjarn og hefur mikla löngun til ferðalaga." ,,Í síðustu jarðvist þinni sem indíáni varst þú vegin með eggvopni, skorin skyndilega á háls án þess að eiga þér nokkurs ills von. Þú varst mjög ósáttur við að deyja þannig. Við það fluttir þú bardagaþörf þína og herkænsku til Kóreu, Víetnam eða Japans. Eða einhvers annars svipaðs lands." ,,Þú hefur oft staðið í fremstu víglínu, tekið þátt í orrustum sem atkvæðamikill stjórnandì. Þess vegna er hætt við því í þessu lífi aó þú farir í varnarstöðu gagnvart fólki. Á sama hátt er líklegt að mörgum séu í nöp við þig án þess að þekkja þig nokkuð. Fólk fær auðveldlega ranga mynd af þér".

Þegar ég spurði Önnu hvaó ég hefði verið í síðasta lífi kom hik á hana. ,,Ég skal spyrja leiðbeinendur mínar," sagði hún loksins. ,,Almáttugur, ekki Þýskaland!" hrópaði hún. ,,Leiðbeinendur mínir vilja ekki sýna mér inn í þitt síðasta líf. Ég veit bara að þú klæddist svörtum einkennisbúningi", segir hún. ,,Ég verð að segja eins og er að líf frá þessum tíma eru þau sem ég kann verst við að þurfa að skoða", segir hún afsakandi. Þegar ég spyr hana hvernig ég hafi látist svarar hún hiklaust: ,,Þú varst veginn úr launsátri". Anna Carla hallar sér nú aftur og heldur áfram: ,,Ég skynja einnig að þú hafir verið uppi í Egyptalandi hinu forna. Þaðan hefur þú mikla þekkingu á göldrum og fjölkynngi ýmiss konar. Þú hefur í gegnum þín fyrri líf skoðað svo mörg trúarbrögð að þú veist varla í hvorn fótinn þú átt að stíga. Þú hefur mjög sterka þekkingarþörf. Ég veit að þú getur haft áhrif á fólk með hugarorkunni einni saman. Þú dvaldist einnig í Bretlandi um tíma. Varst sonur auðugs landeigenda, lifðir í vellystingum praktuglega." ,,Þau líf, sem móta þig hins vegar mest í dag, eru æviskeið þín sem indíáni. Þaðan hefur þú marga góða eiginleika en einnig galla sem þú verður að losa þig við. Þú varst mjög ódæll og barst takmarkaða virðingu fyrir höfðingjum þínum og vildir fara eigin leióir. Í dag hefur þú það sem áskorun að gera gott, vera jákvæður og samúðarfullur."

  | Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisverðar heimasíður  | Um höfundinn  | Tölvupóstur