| Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisverðar heimasíður  | Um höfundinn  | Tölvupóstur

Don Juan - Maður þekkingar

Carlos Castaneda er meðal þeirra sem hafa lagt hve mest af mörkum við að kynna ævaforna seiðmenningu indíána. Hann á ætt sína að rekja til Perú en öðlaðist bandarískt ríkisfang árið 1959. Sama ára hóf hann nám í mannfræði við Kaliforníuháskóla í Los Angeles. Sumarið 1960 fór Castaneda til Mexíkó til að viða að sér heimildum í kandídatritgerð er fjalla átti um jurtir er valda ofskynjunum og notkun þeirra í fornum átrúnaði. Þar kynntist hann yaqui-indíána að nafni Juan Matus.

Don Juan, eins og hann vildi láta kalla sig, var brujo eða ,,maður þekkingar", sérfróður í notkun ofskynjunarplantna. Fyrr en varir tókst með þeim góður vinskapur og að ári liðnu bauð Don Juan mannfræðinemanum unga að gerast lærisveinn sinn. Castaneda þáði boðið heils hugar því honum þótti það eina færa leiðin til að öðlast innsýn í þá torfundnu þekkingu er gamli maðurinn bjó yfir.Carlos Castaneda gerði sér þó ekki ljóst að með því var hann að stíga sín fyrstu skref inn í furðulegan og stundum ógnvænlegan heim, heim sem þyrlaði honum langt út fyrir hugtök, skýringar og kunnuglega lífsafstöðu vestrænnar menningar. Háskólamaðurinn, sem í upphafi hafði eingöngu ætlað sér að kynnast sálhrifalyfjum indíána, var nú orðinn nemi á andlegri þroskaleið. Hann hafði undirgengist þjálfun - þjálfun særingamannsins - erfitt og tímafrekt nám sem miðar að því að afhjúpa leyndardóma máttar og þekkingar.

Huglyf og huldar verur

Þrjár tegundir af huglyfjum gengdu veigamiklu hlutverki í sálvaxtarkerfi Dons Juans. Þessar jurtir voru peyóte (sandkaktus sem inniheldur meskalín), djöflajurt (datura inoxia) og viss tegund skynvillusveppa (psilocybe mexicana). Hinn aldni töfralæknir taldi jurtir þessar hafa í sér fólgna möguleika er gerir einstaklingnum kleift að koma á tengslum við tilteknar verur eða náttúruvætti. Til að mynda leit hann svo á að peyóte væri líkamleg birting veru sem hann nefndi Meskalító. Með því að innbyrða kaktusinn kemst neytandinn í hugarástand sem gefur honum í sumum tilvikum rými til að ná sambandi við Meskalító og kynnast þeim áhrifum sem hann hefur á veröld þessa heims. Tjáskipti við Meskalító og aðrar huliðsverur er fyrsta skrefið í þá veru að ávinna sér liðveislu þeirra og gera þær að bandamönnum sínum.

Lærlingsár Castanedas fólu iðulega í sér neyslu á skynörvandi efnum, einkum ,,litla reyknum" eða el humito eins og Don Juan nefndi psílócýbe-sveppinn. Þegar sveppurinn hafði verð þurrkaður var hann mulinn í duft og síðan reyktur með jurtablöndu úr þar til gerðri pípu. Reykjarmökkurinn kom til vegna brennslu jurtanna því sjálft sveppaduftið var sogið gegnum pípulegginn beint í munninn. Af skrifum Castanedas verður ekki vitað hve mikið magn af sveppum hann innbyrði í hvert sinn en greinilegt er að skammturinn var nógu stór til að valda harkalegum viðbrögðum.

Don Juan fullyrti að el humito geri særingamannninum kleift að ,,losna úr viðjum líkamans" og ferðast um óþekktar víddir. Ferðalög af þessu tagi geta verið viðsjárverð því stundum kemur fyrir að fólk villist af réttri leið. Don Juan segir eitt sinn við Castaneda: ,,Eitt veit ég fyrir víst, þú fórst óralangt í burtu. Það veit ég vegna þess að ég átti hræðilega erfitt með að toga þig til baka. Ef ég hefði ekki verið nærri, er eins líklegt að þú hefðir reikað í burtu og aldrei komið aftur, en þá hefði ekkert verið eftir af þér núna annað en dauður búkurinn meðfram ánni".

Þegar líða tók á námsferilinn urðu upplifanir Castanedas æ kynlegri. Castaneda átti í átökum við afholdgaða anda og seiðmenn er birtust honum í líki gríðarstórra úlfa. Hann komst í kynni við dauðann sem tók á sig mynd silfurlitaðra hrafna. Þrisvar sinnum hitt hann Meskalító, guð peyóte. Loks eftir fimm ára læri hjá Don Juan gafst hann upp á því að feta þroskaleið særingamannsins. Hann hafði þá þolað skelfilegustu nótt ævi sinnar þar sem hann átti í lífshættulegum ryskingum við ósýnileg öfl er vildu hann feigan.

Samkennd og upplausn egósins

Eftir að hafa velt því gaumgæfilega fyrir sér afréð Castaneda að skrifa bók um reynslu sína. Fræðsla Don Juans: Leið Yaqui til þekkingar kom út árið 1968 og vakti strax mikla athygli. Castaneda ákvað að snúa aftur til Mexíkó til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Hann hefur sem stendur skrifað alls níu bækur um kennslu og kynni sín af Don Juan og hafa þær allar fengið lofsamlega dóma bókmenntagagnrýnenda, auk þess að vera frægar metsölubækur vestanhafs. Ritverk hans bera með sér að í hverri nýrri bók skrifar Castaneda frá síhækkandi sjónarhóli því andlegur þroski hans, skilningur og innsæi tók stöðugum framförum í framvindu námsins.

Fræðsla Don Juans gerði Castaneda mögulegt að glöggva sig á ,,aðskildum veruleika". Mikilsverður hnykkur í leiðbeiningum Juans er atburðarás sem hefur að augnamiði ,,upplausn egósins". Sem dæmi er nemanum hjálpað til að hætta að hugsa um sjálfan sig sem aðskilda og sérstaka veru sem er að öllu leyti aðgreind frá náttúrunni. Til að nálgast þetta vitundarástand verður hann að gefa upp á bátinn eigið ,,sjálfsmikilvægi". Don Juan segir til dæmis við Castaneda: ,,Meðan þér finnst þú sjálfur vera það sem mestu skiptir í heiminum ert þú ekki fær um að meta veröldina í kringum þig eins og hún á skilið."

Don Juan ráðleggur Castaneda að ,,afmá fortíð sína". "Ef við... afmáum persónulega fortíð okkar sköpum við mistur eða móðu í kringum okkur sem er mjög spennandi og leyndardómsfullt ástand þar sem enginn veit hverju hann getur átt von á, ekki einu sinni við sjálf." Don Juan verður ennfremur tíðrætt um það sem hann nefnir ,,einingarkennd". Samkvæmt útlistunum hans er í heiminum dularfull skipan sem flest fólk - einkum það sem gefur egói sínu og áhrifum algjöran forgang - skilur ekki. Eitt sinn þegar Castaneda drepur fyrir slysni kanínu, sem hann reynir að bjarga úr gildru, hughreystir Juan hann með þeim orðum að alheimslegur vilji hafi legið þar að baki. Kanínan hafi fórnað lífi sínu til að Castaneda mætti lifa. ,,Hann sagði mér að þau öfl er stýra mönnum eða dýrum hefðu leitt þessa sérstöku kanínu til mín, á sama máta og þau mundu leiða mig til míns eigin dauða. Hann sagði að dauði kanínunnar hefði verið gjöf til mín á nákvæmlega sama hátt og minn eigin dauði yrði gjöf til einhvers annars."

Auðmýkt og tungumál líkamans

Í iðnaðarsamfélögum samtímans er sú hugmyndafræði talin öllum öðrum æðri er kennir að maðurinn sé aðskilinn frá náttúrunni og að það sé hlutverk okkar að gjörnýta hana purkunarlaust til eigin sérþarfa. Rætur þessarar afstöðu má rekja til hinnar gyðinglegu-kristnu hefðar er kennir að maðurinn sé meistari sköpunarverksins. Í heimsmynd indíána er á hinn bóginn gert ráð fyrir því að jörðin sé lifandi vera og að í náttúrunni ali aldur sinn máttugir andar sem örfáir einstaklingar (yfirleitt seiðmenn) geti gert að bandamönnum sínum og jafnokum. Slíkt er hins vegar eingöngu mögulegt þegar einstaklingurinn er orðinn nægilega auðmjúkur og ber einhlíta virðingu fyrir eigin takmörkunum. Fyrir bragðið kveður Don Juan ríkt á um mikilvægi þess að þroska með sér auðmýkt og samkennd með öllu er lífsanda dregur. Stöðugt minnir hann Castaneda á að jurtir séu í reynd jafningjar okkar. ,,Þegar allt kemur til alls," segir hann, ,,eru jurtirnar og við jafnokar. Hvorki við né þær eru þýðingarmeiri."

Don Juan fjallar um nauðsyn þess að komast í kynni við eigin líkama. Maður, sem vill feta andlega þroskaleið, verður að læra að hlusta á hvernig líkaminn tjáir hug sinn. Don Juan segir: ,,Þegar þú vilt leiðbeina fólki verður þú að kynna mál þitt fyrir líkama þess. Það er einmitt það sem ég hef verið að gera hingað til hvað þig varðar; að fræða líkama þinn. Hverjum ætti ekki að standa á sama hvort þú skilur það sem ég hef að segja eða ekki. Spurningin, sem öllu máli skiptir, er hvort líkami þinn ræður fram úr því sem ég hef kennt þér."

Lyfin ekki nauðsynleg

Í fyrstu trúði Carlos Castaneda því að sálhrifalyfin væru mikilvægur jafnvel ómissandi þáttur á þroskabraut særingamannsins. Síðar varð honum ljóst að huglyfin höfðu aðeins verið nauðsynleg vegna þess hve skilyrtur hann var í hugsun og mótaður í viðbrögðum og gjörðum. Lyfin voru fyrst og fremst notuð til að brjóta upp áunna reynslu. Að öðrum kosti hefðu Meskalító og aðrar verur andaheimsins aldrei náð að setja mark sitt á hann. Undir lok námsára sinna gat Castaneda látið af hefðbundinni skynjun sinni á heiminum án þess að þurfa að grípa til hugvíkkandi efna. Með orðum Don Juans varð Castaneda fyrr eða síðar að læra ,,að sjá", í stað þess eingöngu ,,að horfa" ef hann vildi um síðir vera fær um að upplifa heiminn á ferskan og nýstárlegan máta, án túlkana og fyrirfram gerðra hugmynda hugans. Fyrsti áfanginn í þeirri viðleitni að sjá heiminn eins og hann er í rauninni er að ,,stöðvað heiminn" og neminn stöðvar heiminn á því augnabliki þegar hann hættir að skoða veruleikann í ljósi þess sem honum hefur verið innrætt. Lyfin flýttu aðeins túimabundið fyrir þessu ferli.

Maður þekkingar

Tilgangurinn með þjálfun Castanedas er að hann gerist ,,maður þekkingar". Til að gerast maður þekkingar verður að skora á hólm fjóra náttúrulega óvini særingarmansins og sigra þá. Þessir fjórir óvinir, sem þarf að yfirbuga, eru; óttinn, tærleikinn, mátturinn og ellin. Don Juan segir um reynslu andlegs nema af óttanum: ,,Þegar maður byrjar námið veit hann aldrei með vissu hvert ber að stefna. Stefnufesta hans er óörugg, markmið hans óljóst. Hann væntir umbunar sem hann aldrei fær, hann veit ekkert um erfiðleika sem bíða hans í náminu. Hann byrjar smám saman að læra, smátt og smátt í fyrstu en síðan í stórum skömmtum. Hugsanir hans lenda fljótlega í sjálfsheldu. Það sem hann lærir er aldrei í neinu líkt því sem hann fyrirfram hugsaði sér eða ímyndaði og þess vegna verður hann hræddur. Sérhvert skref í náminu er nýtt og óttinn magnast stöðugt og án nokkurra vægðar. Vettvangur námsins verður vígvöllur. Þannig hefur hann rekið sig á fyrsta náttúrulega óvininn; óttann! Hann er ægilegur óvinur, sviksamur og erfiður viðureignar... Og ef maður leggur á flótta, yfir sig kominn af skelfingu, þá hefur óvinurinn þar með útilokað frekari leit."

Maður sem flýr í ótta verður aldrei maður þekkingar. Hann lærir ekkert framar. Um örlög þessa manns segir Don Juan: ,,Hann verður ef til vill rustamenni eða hræddur meinleysingi, hann verður í öllu falli sigraður maður. Fyrsti óvinurin hefur stöðvað langanir hans." Maður sem vill sigra óttann má einfaldlega ekki gefast upp. Hann verður að upplifa hann í öllu sínu veldi, miskunnarlaust, án þess að reyna að bæla hann eða bægja honum frá sér því slík viðleitni er tilgangslaus. Með því að upplifa óttann eins og hann kemur fyrir hörfar hann fyrr eða síðar. Þanni öðlast neminn brátt meira öryggi. Ætlun hans verður sterkari og óttinn er ekki lengur fylgifiskur námsins.

Tálsnörur tærleikans

Þá verður á vegi hans næsti óvinurinn; tærleikinn. Um tærleikann segir Don Juan: ,,Þegar maðurin hefur einu sinni sigrað óttann er hann laus við hann það sem eftir er ævinnar vegna þess að í stað óttans er kominn tærleiki - tærleiki hugans sem þurrkar út óttann. Þegar þar er komið þekkir maðurinn langanir sínar og veit hvernig hann á að fullnægja þessum löngunum. Hann sér fyrir næsta skref í náminu og skarpur tærleiki umlykur allt. Maðurinn finnur að ekkert er dulið. Og þar mætir hann næsta óvininum; tærleikanum! Tærleiki hugans, sem svo erfitt var að öðlast, eyðir óttanum en hann blindar einnig. Maðurinn hættir að efast um sjálfan sig. Tærleikinn telur manninum trú um að hann geti gert það sem honum sýnist vegna þess að hann sér alla hluti greinilega. Hann er hugrakkur af því að hann er tær og hann lætur ekkert stöðva sig. En þetta eru mistök, þetta er eins og eitthvert ófullgert. Ef maðurinn lætur undan uppgerðarmætti sínum hefur hann beðið lægri hlut fyrir næsta óvini sínum og námið verður fálm. Hann flanar áfram þegar hann þyrfti að sýna þolinmæði og hann er þolinmóður þegar hann ætti að flýta sér. Hann fálmar um í náminu uns hann getur ekki lengur lært neitt framar."

Maður sem fellur fyrir tærleikanum verður að mati Don Juans ,,ef til vill ósigrandi hermaður eða trúður". Hann verður í öllu falli aldrei maður þekkingar. Líkt og með óttann verður neminn að bíða þolinmóður og íhuga vandlega stöðu sína. Hann verður að upplifa það sem er án þess að veita því viðnám né reyna að breyta því á nokkurn hátt því það sem þú upplifir hverfur fyrr eða síðar. Þannig myndast rými eða tómarúm fyrir eitthvað nýtt. Don Juan segir að til að sigra tærleikann þurfi neminn að hugsa sér að hann sé fyrst og fremst mistök. ,,Og þá hefur hann sigrað annan óvininn og hann er kominn í stöðu þar sem ekkert getur framar unnið honum mein. Og þetta er ekki miskilningur. Það er ekki aðeins sjónarmið, það er sannur máttur. Þegar hér er komið veit að hann að hann hefur loks öðlast máttinn sem hann hefur leitað svo lengi. Hann getur gert með honum hvað sem honum sýnist. Hann hefur vald yfir hjálparanda sínum. Ósk hans er lög. Hann sér allt sem í kringum hann er en hann hefur kynnst þriðja óvini sínum; mættinum!

Stund tærleikans, máttar og þekkingar

Don Juan segir að mátturinn sé sterkastur allra óvina. Þegar hér kemur til sögu er maðurinn í raun og veru ósigrandi. Hann er líkastur guði í eigin veröld, gefur fyrirmæli og skapar þær leikreglur sem aðrir verða að lúta. Þrátt fyrir það situr þriðji óvinurinn um hann. Ef hann gæti ekki að sér er úti um hann. ,,Óvinur hans," segir Don Juan, ,,hefur breytt honum í grimman og mislyndan mann… Maður sem er sigraður af mætti deyr án þess að vita í raun og veru hvernig á að fara með hann. Mátturinn er honum aðeins byrði. Slíkur maður hefur ekki stjórn á sjálfum sér og veit ekki hvenær eða hvernig hann á að nota mátt sinn."

Til að sigra máttinn, þriðja óvin sinn, verður neminn að spyrna við fæti. ,,Hann þarf að gera sér ljóst að mátturinn, sem hann virðist hafa öðlast, er í rauninni ekki hans máttur. Hann verður öllum stundum að halda sig við efnið og meðhöndla dyggilega allt sem hann hefur lært. Þegar hann skilur að án sjálfstjórnar er tærleiki og máttur verri en mistök kemst hann á stig þar sem hann hefur taumhald á öllu. Þá veit hann hvenær og hvernig hann á að nota mátt sinn. Þannig hefur hann sigrað þriðja óvininn sinn. Þar með er maðurinn kominn á leiðarenda í námi sínu og næstum án aðvörunar mætir hann síðasta óvini sínum: ellinni! Þessi óvinur er grimmastur þeirra allra og hann verður aldrei sigraður fullkomlega, aðeins er hægt að reka hann frá sér."

Don Juan fullyrðir að á þessu stigi finni særingarmaðurinn ekki lengur til ótta. Tærleika hugans fylgir ekki bráðlæti og hann hefur öðlast stjórn á mættinum. Hins vegar er hann gagntekinn þeirri löngun að vilja draga sig í hlé og hvílast. ,,Ef hann lætur eftir löngun sinni að leggjast niður og gleyma, sefar sig með þreytu, hefur hann tapað síðustu lotunni, óvinur hans beygir hann og gerir hann að veikbyggðu gamalmenni. Löngunin til að draga sig í hlé yfirbugar tærleikann, máttinn og þekkinguna. Ef maður hins vegar losar sig við þreytuna og gengur ákveðinn sinn örlagaveg má nefna hann mann þekkingar þó honum takist aðeins um stund að hrekja á brott sinn síðasta, ósigrandi óvin. Þessi stund tærleika, máttar og þekkingar er nægileg."

Heimildir:

Eileen Campbell og J.H. Brennan: The Aquarian Guide to the New Age. London, The Aquarian Press, 1990. John B.P. Shaffer: Humanistic Psychology. New Yersey, 1978. Carlos Castaneda: The Teachings of Don Juan: A Yaqui Way of Knowledge. Berkley, 1968. Carlos Castaneda: Journey to Ixtlan: The Lessons of Don Juan. New York, Simon and Schuster, 1973. Carlos Castaneda: A Separate Reality: Further Conversations with Don Juan. New York, Simon and Schuster, 1971. Carlos Castaneda: ,,Leið hjartans", í Ganglera, haust-vetur 1978.

  | Efnisflokkar greinasafnsins  | Athyglisverðar heimasíður  | Um höfundinn  | Tölvupóstur